— GESTAPÓ —
Barbie
Fastagestur.
Gagnrýni - 2/11/04
Föndurstund og sagan af Jesúsi.

Ég fæst ekki lengur orða bundist - tær snilld.

Það tekur að líða að jólum, mishratt hjá misjöfnum mönnum. Kaupahéðnar eru bráðlátari en nokkur börn, hefja útstillingar og jólalagablastið um miðjan október. Kannski er ég bara gamaldags en ég sem hló manna hæst þegar byrjað var á jólaríi í nóvember og hélt að þetta væri hreint allsherjar grín, svona smá spaug eitt árið. Kannski var það bara saklaust grín fyrir rétt svona tíu árum að jólin byrjuðu í nóvember. En nú er svo komið að október er skyndilega orðinn jafn heilagur og desember og mér sannarlega lífsins ómögulegt að vera í JÓLASKAPI tvo og hálfan mánuð. Og brátt verður svo komið að alla daga verði jól. Já Eiríkur Hauks fær loksins ósk sína uppfyllta á meðan ég sem átti nú fyrir bágt með hið klassíska jólaskap í þessar tæpu tvær vikur, hvað þá hvern einasta dag. Ekki það að ég sé óttalegur Trölli með hjarta sem er tveimur númerum of lítið heldur fylgja jólaskapinu meiri tilfinninganæmni og jólalagatrall og hlustun sem um langtíma getur hreinlega verið heilsuspillandi. Flest jólalög eru nefnilega svo hræðilega illa samin og vemmileg að þau geta auðveldlega valdið viðvarandi ógleði allt fram í miðjan mars. Þið vitið öll hvað ég á við, nei nei ekki um jólin, svona eru jólin og hið alræmda Jólahjólahelvíti. En í apríl 2004 kynntist ég loks Baggalútnum mínum ástsæla og síðan þá hefur allt breyst. Að vísu var tölvan mín alveg gjörsamlega dumbdauf svo ég varð svona fyrst um sinn (svona 3-4 mánuði) að láta mér nægja textasnilld laga okkar ástkæru Ritstjórnar (Ritstjórn er með hástaf til að undirstrika virðingu og ástarþakkir fyrir vel unnin störf). En með Dio kom nú betri tíð með blóm í haga og tölvu sem var jafnframt útbúin hátölurum og ágætis hljóðkorti að auki. Þá loks fengu eyru mín að njóta ómþýðrar raddar Tony Ztarblaster eða Núma okkar og það var ást við fyrsta tón.
Í ár er það lagið Föndurstund sem sér um að koma mér í tilhlýðilegt jólaskap. Jólaskap sem mér líður vel með. Svona rokkað jólaskap með tryllingslegri gleði í hjarta. Textinn er hnitmiðuð snilld sem fangar vel föndurfjör ásamt dásamlegri tilvísan til föndurfræðslu Stundarinnar Okkar (,,Til að flýta fyrir mér, hef ég annan reddí hér"). Hver man ekki eftir að glápa á sjónvarpsföndrarann reyna að djöfla saman einhveru kartonkreppappaglimmerpípuhreinsara drasli sem leit aldrei út fyrir að verða barn í brók eða nokkuð líkt því sem lofað hafði verið að föndra og svo þegar klísturlímvirkið var komið í endanlegar ógöngur var eitthvað stórkostlega smekklegt og vel frágengið (og örugglega keypt) snilldarstykki dregið fram undan borðinu og sagt eitthvað á þá leið að til að flýta fyrir er ég með þetta tilbúið hérna!!! Eitthvað sem viðkomandi fimmfingra klaufi hafði áreiðanlega aldrei snert á. Svona miðað við tilburðina í sjónvarpssal. Ekki er textinn í sögunni af Jesús síðri. Sandemann/Fannsker fanga svo dásamlega stemmninguna úr jólaguðspjallinu í Sagan af Jesús - ekki ósvipað gömlum biblíumyndum. Og textinn fellur eins og flís við rass þeirra Gibbagibb bræðra.
Skærir og dásamlegir tónar úr barka Núma smella svo vel við Föndurstund að ég get ekki lengur beðið þess að koma heim að hlusta á lagið, ég er farin að taka með mér MP3 spilarann í vinnuna til þess að fá fixið mitt öðru hvoru. Verst er að mér hættir til að syngja með af fullum krafti. Ekki er aðventulagið neitt síðra en það hlusta ég gjarnan á þegar ég er í rólega kósíheitagírnum. Allur hljóðfæraleikur og frágangur er til fyrirmyndar og fagmannlega að lögunum staðið. Ferfalt húrra fyrir Núma Fannsker og Enter Sandemann og samstarfsmönnum þeirra að fornum íslenskum sið. Megið þið lifa lengi og vel og gefa út öll jólalögin á disk. Með innilegum þökkum fyrir betra jólaskap.

(Ég mun þó af prinsippi halda mig við að hlusta eingöngu á jólalög eftir miðjan desember og yfir bláhátíðarnar.)

   (14 af 29)  
2/11/04 22:01

fagri

Tli hamingju með jólaskapið Klaus.

2/11/04 22:01

Jóakim Aðalönd

Frábær gagnrýni og hafðu þökk fyrir þetta Barbie og gleðileg jól!

2/11/04 22:01

Rattati

Glæsilegt og vel ritað. Er þér hjartanlega sammála um græðgisglampann í glyrnum kaupahéðna. Þeir geta þakkað guði fyrir þennann getnaðinn. Gleðileg jól.

2/11/04 23:00

Leibbi Djass

Rækallinn og það var rétt. Gleðileg jól.

2/11/04 23:00

Mjási

Þú talar fyrir munn okkar begga.
Eigðu gleðileg jól.

2/11/04 23:01

krumpa

Gleðileg Jól!
Tek undir með þér - ég mundi gjarna vilja eiga jólalög Baggalúts á disk - sakna þess reyndar að geta ekki fundið Last Christmas með þeim snillingunum á netinu.

2/11/04 23:02

Barbie

Gleðileg jól öllsömul og vona að þið hafið það sem allra best.

3/11/04 00:00

Hakuchi

Vandað og glæsilegt.

Ég óska ykkur hjúum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

3/11/04 00:01

Vladimir Fuckov

Undanfarin jól hafa jólalög Baggalúts verið ómissandi hluti jólanna hjá oss og ekki síður jólakveðjur Baggalúts á Þorláksmessu.

Þetta árið urðum vjer varir við fyrstu jólaauglýsinguna í ágúst. Það fannst oss alltof snemmt.

Eigi er hins vegar of snemmt að bjóða gleðileg jól nú er klukkan er rúmlega 17 á aðfangadag: Gleðileg jól !

Barbie:
  • Fæðing hér: 17/4/04 09:53
  • Síðast á ferli: 11/5/20 08:37
  • Innlegg: 447
Eðli:
Ég er Barbie - það þekkja mig allir.
Fræðasvið:
Tíska, barneignir og bleikur. Mannslíkaminn. Hirðsiðir og sómi ungmeyja..
Æviágrip:
Fráskilin en ekki að vestan.