— GESTAPÓ —
Barbie
Fastagestur.
Pistlingur - 31/10/03
Tíminn líður hratt

Á Gerfihnattaöld. Lítil hugleiðing um nútímaþjóðfélagið.

Við höfum svo sem heyrt þetta allt áður. FM-hnakkarnir á formi sellófans - við hin sem neyðaróp einmanna sálar á myrku vetrarkvöldi sem sker í eyrun og engin leið til að flýja þar sem ópin eru þín eigin.
Tíminn líður of hratt. Og það er einfaldlega alltof mikið að gera. Kunnulegt?
Án efa. Nútímaþjóðfélag er flókið og síst er slegið af kröfunum þegar horft er til framtíðar. Allt í kring eru auglýsingar (flestar reyndar átakanlega lélegar sbr. Fyrirmyndarfólk) sem reyna að selja okkur að hamingjan sé á næsta leiti í formi jeppabifreiðar, flösulausar ofursvalrar tilveru eða dömubinda sem skilja tjáningu líkama þíns. Nú er líkamstjáning vissulega mikilvæg en flestum líklega fyrirmunað að skilja samhengið þar á milli. Við vitum öll svarið og eins og mannkyninu er tamt er gott að benda á það augljósa.
Við þurfum ekki allt þetta drasl.
Kappið eykst þó með degi hverjum og sífellt fleiri hverfa frá því að vera einfeldningar yfir í einstaklinga sem mæta ekki greindarkröfu samfélagsins og verða algjörlega upp á aðra komnir. Sífellt fleiri verða öryrkjar þar sem þeir mæta ekki ofurkröfum nútímans um glansmyndaheimili, fyrirmyndarfjölskyldu og óheyrilega langann vinnudag. Við höfum hlaupið um dyr framfara á kostnað gleðinnar og þolinmæði er skammlíf og vandfundin. Bara það eitt að kíkja í stutta heimsókn kostar okkur í það minnsta 1 símtal. Hvatvísin hverfur úr þjóðfélaginu og með henni gleðin.
Hvað er til ráða? Við gerum ekkert. Við erum mannleg. Það að breyta er svo ógnvænlegt að skárra er að halda í óbreyttan ömurleikann en takast á við kvíðann sem fylgir framförum.
Fyrir mig segji ég nú bara: Ég er hætt að hlaupa.

   (25 af 29)  
31/10/03 14:01

Limbri

Hjartanlega sammála þessu. Og góður punktur með símtalið vegna heimsóknar. Ég persónulega hefði ekkert á móti því að vinir mínir birtust bara óboðnir á þröskuldinum hjá mér af og til.

31/10/03 14:01

hundinginn

Kæra Barbie.
Þetta er allt saman afleiðingar af því, að fólk dregur fram lífið á því að lifa á öðrum. Einn selur rúm. Annar selur smokka. Enn selur þvottaduft. Annar selur bleyjur. Hafðu ekki áhyggjur, því þetta fyrirkomulag mun falla um sjálft sig, þegar kjötborðin allt í einu standa tóm.

31/10/03 14:01

Finngálkn

Þig vantar spennu í lífið! FM - hnakkarnir eru svo fjandi vitlausir (að mér virðist) að þeir hafa engar óþarfa hugsanir sem hrjá þá og líða því bara áfram með straumnum. Ekki hætta að hlaupa srax; vertu þér heldur úti um byssuleyfi og fáðu þér sniper riffil og farðu að skjóta hamingjusamt fólk ofan af húsþökum. Gott útsýni, eflir sjálfstraust.

31/10/03 14:01

víólskrímsl

Styrkir meltinguna og gefur hraustlegt og gott útlit.

31/10/03 14:01

Glúmur

Hjartanlega sammála varðandi vaxandi símacomplex heimsækjenda. Erum við að breytast í Svía hérna eða hvað?

31/10/03 14:01

Barbie

Já þetta símastand er óþarfa stress. Aukaálag sem fæstir þurfa á að halda. Líklegast mun okkar menningarheimur hrynja einhvern daginn eins og hundinginn ýjar að, það er nú hefð fyrir því sé litið yfir sögu mannkyns. Og álagið er orðið fullmikið þegar maður skilur þá sem að mæta á pósthúsið með afsagaða haglarann Finngálkn - í það minnsta að mínu mati.

31/10/03 14:01

Vladimir Fuckov

Þróunin er í þá átt að eigi sé ráð nema í síma sé tekið...

31/10/03 14:01

Júlía

Ég hef andstyggð á óboðnum gestum. Þegar húsmæður voru heima til að halda öllu í horfinu var eðlilegt og sjálfsagt að fólk liti óforvarendis inn til vina og ættingja. Nú er öldin önnur. Sjálf hef ég verið vakin af værum blundi af óvæntum gestum, sem hafa þurft að klofa yfir óreiðuna á heimili mínu og fá hvorki vott né þurrt, því aldrei er til ætur biti, nema fólk hafi rænu á að boða komu sína. Því segi ég: Hringið á undan ykkur, ef þið viljið fá góðar móttökur!

31/10/03 15:00

Barbie

Elsku Júlía mín. Endilega leyfðu mér samt að kíkja til þín óboðinni - ég kæmi til að heimsækja þig og ekkert annað (lesist draslið sem þú heldur fram að sé til staðar, sjálf er ég afar efins) og svo er ég líka dugleg að koma með nýbakað bakkelsi með mér (annað hvort heimagert eða úr bakaríi) svona til að gleðja vini mína. Komi fólk óboðið til mín þá skellir maður í pönnsur eða stekkur í bakarí sé það mjög svangt. Annars vilja sumir bara félagsskapinn - og þinn er nú ekkert slor.

31/10/03 16:02

Skabbi skrumari

Sammála Barbie með þetta, sjálfur fékk ég óboðna heimsókn fyrir skömmu og skammaðist mín ægilega fyrir allt draslið, hafði ekki sópað í tvær vikur eða svo, þegar ég var búinn að jafna mig á sjokkinu, áttaði ég mig á því að þessir gestir voru ekki komnir til að taka út íbúðina, heldur í heimsókn, því lagaði ég kaffi, náði í staup af Ákavíti og allt var í fína lagi, óboðnir gestir, já takk helst sem oftast...

Barbie:
  • Fæðing hér: 17/4/04 09:53
  • Síðast á ferli: 11/5/20 08:37
  • Innlegg: 447
Eðli:
Ég er Barbie - það þekkja mig allir.
Fræðasvið:
Tíska, barneignir og bleikur. Mannslíkaminn. Hirðsiðir og sómi ungmeyja..
Æviágrip:
Fráskilin en ekki að vestan.