— GESTAPÓ —
Barbie
Fastagestur.
Pistlingur - 1/12/04
Biðstofur.

Hvar stöndum við sem næst eilífðinni? Hvar er hver sekúnda sem ár? Jú á hinum ýmsu biðstofum.

Væri ævinni eytt á biðstofu myndi sá hin sami án efa að lokum telja sig eilífan - eða í það minnsta eiga lengstu skráðu upplifun á lífi - og er ekki allt afstætt hvort eð er?
Það er sama hvar niður er komið, tannsi, læknirinn, skatturinn eða flugvöllurinn - þarna er hún, biðstofan.
Nú hef ég vermt sæti og sárnað á rófubeini á hinum ýmsu biðstofum, lesið bændatímaritið af áfergju ásamt 18 ára gömlum eintökum af Vikunni og Nýju lífi.
Það er merkileg stemming á biðstofum. Fæstar eru keimlíkar þó stemmingin sé sú sama. Tíminn líður ekki. Og stólinn sem þú valdir, þessi sem annað hvort leit út fyrir að vera himnaríki rassins (á dýrari stöðum) eða hæsnaprik fer að erta á afar óþægilegan hátt rófubeinið og aðliggjandi svæði.
Hvað er hægt að gera?
Ég reyni fyrst að skipuleggja mig. Fer yfir komandi 2 ár í huganum og ákveð hvernig ég og mín fjölskylda gætum varið tímanum sem best. Jæja, 2 mín liðnar með þessu...
Því næst er hægt að fara að pissa. Það er alltaf smá leiðangur, finna klósettið, meta það, er það í takt við afganginn af byggingunni eða bara hálfgerð hola? Þar fóru um 2-3 mín.
Svo heldur leiðin aftur að sætinu en í leiðinni má grípa eitt af hinum afar spennandi tímaritum sem í boði eru. Merkilegt nokk má nokkuð áætla kostnaðinn við það sem tekur við af biðstofunni út frá lesefninu þar. Ef þín bíður eldgamalt Mannlíf með einni spennandi grein sem einhver asni og eiginhagsmunaseggur hefur rifið úr sér til ánægju og yndisauka - þá verður þetta vonandi frekar ódýr heimsókn. Bíði þín hins vegar haugar af glænýju Séð og Heyrt, Hús og Híbýli, Vikunni og alls konar nýjum blöðum sem þú hefur jafnvel aldrei séð fyrr, þá fer nú seðlaveskið að svitna.
Sumar biðstofur eru súrrealískar. Um daginn var ég í einni með bleiku gólfteppi. Allar innréttingar voru kolbikasvartar með eikarlíningum, glansandi hreinar og gangurinn leið um í innhverfum hlykkjadans við sjálfan sig. Stólarnir voru fagurlega pastelgrænir og skemmtilega dulbúnir sem þægilegir en eftir 3 mín. setu var þetta hrein kvöl og pína. Yfir öllu hljómaði tónlist sem virtist koma úr iðrum gangarins, ómaði alls staðar að, nokkurs konar Kenny G hittir sveiflusveit Ingólfs í góðum upbeat fíling. Furðuveröld. Mér leið eins og ég væri stödd í hugarheimi Charlie Kaufmann.
Lengsta biðin á hins vegar Iceland Express. Í sumar fór ég nefnilega til útlanda með litlu systur, nánar tiltekið til London. Það var rúmlega 9 tíma seinkun á fluginu. Við systurnar - verslunarglaðar í VISING* - mættum vel tímanlega miðað við upphaflega áætlaðan brottfarartíma. Það var því um miðja nótt en ekki eftirmiðdag, eftir 12 tíma dvöl á Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem skriðið var inn í afar óþægilega flugvél, og að sjálfsögðu í syfjukasti sest framan við neyðarútgang svo ekki var unnt að halla sér lítillega aftur. 12 tímar á biðstofu eru í það minnsta eitt ár. Í fyrstu var verslað og rápað. Svo borðað. Svo verslað og rápað meira. Skoðað allt milli himins og jarðar. Sumt keypt, annað bara skoðað aftur og aftur. Seinkunin kom í smáskömmtum. Svo það var haldið í vonina. Rölt sama hringinn. Vonin um skjóta brottför, að næsti auglýsti tími yrði sá sem farið væri á myndi rætast. Og vonbrigði. En hver nennir svona eymdarvolæði til lengdar? Ekki við systurnar. Við keyptum okkur bækur, sína hvor, lögðumst í lestur og karamelluát, kynntumst breskri fjölskyldu, fengum inside info á hvað er skemmtilegast og hvar er frat og vorum gerðar að sérlegum tískuráðgjöfum 9 ára stúlkum um hvernig væri best að raða saman Bratz fötunum. Þetta er því miður bara hægt þegar biðin er löng. Annars er það bara stuna, teygja sig letilega í marglesna bændablaðið og bíða, vona og óska þess að þú sért hinn ómuræðanlega heppni ,,Næsti!".

*Vising: orðskýringar. Visingur er orð sem Visa hefur einkaleyfi fyrir. Er gjarnan notað yfir hátíðar, frí og aðrar nauðsynlegar verslunarferðir. Nota ber kortið óspart og helst í óþarfa til að framkalla sannan vising. Sé kvíði vaxandi í maganum við hvert strauj þá ertu í hreinum vising.

   (21 af 29)  
1/12/04 20:01

Limbri

Hmmmm... mp3 spilari og eigin bók. Það ætti að duga.

-

1/12/04 20:01

Heiðglyrnir

Riddarinn sem hélt að flestir væru búnir að átta sig á að svona bið og svoleiðis er bara ekkert fyrir okkur Íslendinga, hef sjálfur hreinlega misst af flugvélum út um allan heim til að undirstrika þetta bið-óþol. Þakka fyrir góðan pistil.

1/12/04 20:01

krumpa

Á hvaða biðstofum finnur þú ný blöð ? Síðast þegar ég fór til læknis las ég allt um hausttískuna - 1983! Kannast samt vel við visingin - er í svoleiðis spennuástandi mestallt árið! En það er líka svo gaman að lifa á brúninni... Flottur pistill!

1/12/04 20:01

Jóakim Aðalönd

Ég kannast svo sannarlega við þetta. Ég þurfti einu sinni að bíða í 9 tíma á Heathrow. Það var ekki spennandi.

1/12/04 20:01

Fjap

Ég hef orðið vitni að því þegar tannlæknir verslaði blöð til að hafa á biðstofunni sinni. Hann keypti allskonar tímarit og einnig nokkur blöð í blárri kantinum. Það lá við að ég spyrði hann hvar hann væri með stofu til að komast loksins í tískublöð þar sem sítt að aftan og bleikar grifflur heyrðu sögunni til.

1/12/04 22:01

Barbie

Þakka hrósið og hlý orð. Samantektin er í raun bara til gamans gerð og mín observation af biðstofugírnum sem ég hrekk ósjálfrátt í við að koma á biðstofur. Tannsinn minn er með ný blöð, ógnvekjandi að fara þangað með krakkaskarann...

Barbie:
  • Fæðing hér: 17/4/04 09:53
  • Síðast á ferli: 11/5/20 08:37
  • Innlegg: 447
Eðli:
Ég er Barbie - það þekkja mig allir.
Fræðasvið:
Tíska, barneignir og bleikur. Mannslíkaminn. Hirðsiðir og sómi ungmeyja..
Æviágrip:
Fráskilin en ekki að vestan.