— GESTAPÓ —
Barbie
Fastagestur.
Gagnrýni - 3/12/05
Matur!

Leiðinlega lífsnauðsynlegt fyrirbæri.

,,Mér leiðast svo eeeeeeeeldhússtörfin!". Þetta spangólaði mamma mín eftirminnilega í barnæsku minni og kunni lítt meira af þessari yfirvaraskekkjuðukondífílingnorskifrændi dægurflugu svo hún endurtók bara sömu línuna aftur og aftur með óreglulegu millibili og oft án nokkurrar þekkjanlegrar laglínu. Því henni drepleiðist hreinlega að elda. Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Hverdagseldamennska er með því leiðinlegra sem á dagana drífur. Ég veit ekki með ykkur hin en mér finnst ég alltaf vera í þessu eldhúsi þegar ég er heima. Það líða ekki nema svona 3-4 tímar og þá er maður aftur svangur. Þetta er nú ekki sérlega skilvirkt kerfi. Í grunninn kemst maður ekki hjá því að borða sjaldnar en 3svar á dag. ÞRISVAR! Og það er fyrir utan höfuðverkinn sívinsæla - hvað í ósköpunum á maður að borða.
Nú er alltaf verið að segja eitthvað nýtt í þessum efnum. Og enginn að segja það sama. Manneldisstofnun kom fram með sitt skífuskema fyrir einhverjum áratugum um hvernig skyldi borðað úr fæðuflokkunum en slíkt samrýnist ekki hugmyndum einkaþjálfara og heilsugúrúa sem virðast stefna hratt á nýrnabilun með gríðarlegri próteinneyslu. Langt yfir litlu kökunni sem Manneldisstofnun sýnir. Allt í einu er rosa hollt að borða eitthvað uppleyst vítamínprótein duft. Aðrir sverja að hráfæði sé langhollast en hver nennir að borða hrátt blómkál, gulrætur og spergilkál með gufusoðnum fiski? Bjakk! En örugglega skárri kostur en að troða sig út af einhverjum verksmiðjupróteinum í risadunkum. Svo er skyrhræringsæði - skyr með ferskum ávöxtum. Það hlýtur bara að vera hollt. Bara einhæft og leiðinlegt til lengdar. Egg hafa sveiflast frá því að vera með hollari fæðutegundum yfir í hreina kólesterólbombu og brauð er á bannlista á mörgum stöðum. Allir eru með glútenóþol, mega ekki borða sykur og ger og verða því að lúslesa utan á allt sem þeir láta ofan í sig.
Það er varla þverfótað fyrir ráðgjöf um bankabygg og kjúklingabaunir, sojaprótein og mjólkurprótein en samt hef ég á tilfinningunni að sífellt fleiri glími við sama vandamál og ég.
Svo mikið af þeim mat sem er á boðstólunum er svo verulega mikið unninn að það liggur við að hann sé skemmdur. Kjötfars er ekki mannamatur. Bjúgu eru ógeð. Foreldaða línan, allt frá nöggum (hvar eru naggar á dýrum??) yfir í kjötbollur, fiskibollur og fylltar raspsteikur ásamt tilbúnu pappapítsum, frosnum skyndibitum og aragrúa af drasli er það sem fyllir kjötborðið í verslunni þar sem ég geri mín matarinnkaup. Grænmetið er ekki ferskt, nema fyrir tæra slembilukku. Brauðið er fullt af rotvarnarefnum og eins óspennandi og það verður. Og hvað á maður þá að hafa í matinn?
Það er of mikið af gerfimat og fljótlegum lausnum sem fara illa með okkur. Of lítið af næringarríkum, hollum mat sem ekki tæki lengri tíma að útbúa. Ég neita að kaupa að duftdollur með próteinsheijk sé framtíðin og held í raun að slíkur kostur sé óhollur fyrir meltingarveginn í það minnsta. Án efa ekkert nýrnakonfekt heldur. Hins vegar er hreinlega til skammar hve lélegt úrval er af ferskum, góðum og spennandi mat í lágvöruverðsbúðunum en yfirgengilegt úrval af gosi og sælgæti. Sem ég að sjálfsögðu borða alltof mikið af þar sem það er langsamlega það bragðbesta af því sem er á boðstólunum. Og það sem auðveldast er að ná í. Sama hvar þú ert og ert svöng/svangur, það er sjaldnast sjoppa langt undan. Og öll vitum við hvert framboðið er þar af næringarríkum mat. Hef enga lausn á þessu vandamáli er bara orðin frekar langþreytt á því að sjálfsalinn í vinnunni selji nær eingöngu súkkulaði, snakk og gos. Sem er skítt þegar matsalurinn lokar kl. 19:30 en vaktin er til kl. 8:00 næsta dag og ég gleymdi að koma með nesti. Aftur. Gef sjálfri mér samt 1 stjörnu fyrir að koma persónulegum vandamálum að og aðra fyrir eldamennskuna mína á nýju, fersku og góðu hráefni. Sjálfur maturinn, hér og annars staðar fær enga.

   (12 af 29)  
3/12/05 06:01

Hvæsi

100 rannsóknir hafa sýnt að sykur sé jafn eitraður og heróín og jafn ávanabindandi líka,og að gerfisykur sé æði. Aðrar 100 rannsóknir sýna að neysla gerfisykurs, t.a.m aspartam, sé baneitrað og að sykur sé lífsnauðsynlegur.

Ég segi bara eitt, Grettir Ásmundarson varð ekki hraustur af kjúklingabaunum, aspartam áti eða lífrænu salati, og síður en svo pestói (sem ég mun seint viðurkenna sem mannamat)

Allir þeir sem komnir eru á þrítugs og fertugsaldur hljóta að muna að það var neysla á mishollum heimilismat sem hélt okkur gangandi í ævintýrum okkar sem krakka, og að glútenóþol var ekki til í þá daga.

3/12/05 06:02

Herbjörn Hafralóns

Gaman að sjá þig aftur, Barbie.

3/12/05 06:02

Don De Vito

Fólk á bara að borða SS-pylsur með öllu. Það er það eina sem gengur!

3/12/05 06:02

Ugla

Eins og talað út úr (ojj) mínu hjarta.

3/12/05 06:02

Barbie

Kjöt það er matur, en fiskur er bara fiskur. Það er í það minnsta viðkvæðið heima hjá mér. Enginn borðar baunir að ráði nema sem meðlæti enda óþarfi að vera með prumpuna alla daga. Heimilismatur er bara orðinn miklu flóknari þar sem að hann er að miklum hluta orðinn forunninn. Það er því annað hvort hakk, kjúklingabringur eða snitzel með lambalæri og ýmsum lundum sem á upp á pallborðið. Lítið mál að borða það. Hvað á maður að borða þess á milli? Og sömuleiðis Herbjörn, gaman að sjá þig og kíkja við.

3/12/05 06:02

Hvæsi

Nokkrar hugmyndir...
Sjóða sjálfur kjötfarsbollur og sjóða hvítkál með ásamt smjöri og jarðeplum...

Prufa í staðinn fyrir soðnar kartöflur með öllu, að skera þær soðnar í báta, og steikja á pönnu...

Gera svikinn héra...mjööög auðvelt...

Prufa nýjar fisktegundir, blálöngu, kola, ofl.

Ofnbaka lax, pönnusteikja saltfisk medium,

Leika sér með brauð, Sjóða súpu og hafa brauð með osti og gúrku með, prufa ný álegg, möguleikarnir eru endalausir.

Bon apertit.

3/12/05 06:02

Hakuchi

Velkomin til baka Barbie góð.

Þú verður greinilega að giftast þjónustulundaðri konu frá 7. áratugnum til að losna við þessi sannarlega leiðinlegu eldhússtörf.

3/12/05 06:02

Hunangsflugan

Það er oft hlegið að mér í vinnunni fyrir að vera "gamaldags" í eldhúsinu af því að ég sýð frekar fisk eða kjötbollur en að henda einhverju tilbúnu inn í ofn. Mér finnst heimaeldaður matur bara miklu betri en eitthvað tilbúið sull. Mér líst líka mjög vel á sumar hugmyndirnar hjá Hvæsa!

3/12/05 06:02

Gaz

Borðaðu bara hráa ávexti og grænmeti. Gulrætur og Banana. Manneskjan þarf ekkert að borða kjöt oftan en hvern annann dag. Þar með er búið að taka matlagningsþörfina niður í einn tíma hvern annann dag.

3/12/05 06:02

Vladimir Fuckov

Það er annars stórundarleg þversögn að vjer höfum á tilfinningunni (með rjettu eða röngu) að aldrei hafi verið talað meira en nú um mikilvægi hollrar fæðu, megrunarkúra, mikilvægi líkamsræktar o.s.frv. og aldrei verið rekinn jafn mikill áróður. Jafnframt aldrei talað jafn mikið um hvað offita sje mikið vandamál er beri að forðast.

Samt er þjóðin þyngri en nokkru sinni fyrr og virðist oss það einkum eiga við um yngstu kynslóðina. Tengist e.t.v. því er fram kemur seinast í pistlingnum.

Vjer tökum svo undir með fleirum að gaman er að sjá yður bregða fyrir hjer á ný.

3/12/05 07:00

Heiðglyrnir

.
.
.
Ekki neitt að eta hér
eldhúsið í straffi
fæði ekkert færir mér
fer á Múlakaffi
.

3/12/05 07:00

Bangsímon

Þú gætir prófað hunang í öll mál. Mér finnst það voða gott. Náttúrulegt nammi.

3/12/05 07:02

Jóakim Aðalönd

Hefurðu prófað hinar ýmsu uppskriftir frá austurlöndum fjær? Þar er á ferðinni almennilegur matur sem er líka bragðgóður, en er kannske talsvert flókið að elda...

3/12/05 08:01

Hvæsi

Austurlenskur matur þarf allsekki að vera flókinn...

Algengast er að steikja kjötstrimla ásamt grænmeti, og prufa framandi sósur, t.a.m súrsætar, ostru ,bambus of margt fleira.,
Þessi aðferð er mjög klassísk "grunnuppskrift" að austurlenskum réttum.

Og fara með opnum hug í "betri matvöruverslanir" og prufa grænmeti sem ómugulegt er að bera fram hvað heitir, eða þú hefur aldrei þorað að smakka er alltaf gaman.
Sanka að sér uppskriftum og leika sér.

Barbie:
  • Fæðing hér: 17/4/04 09:53
  • Síðast á ferli: 11/5/20 08:37
  • Innlegg: 447
Eðli:
Ég er Barbie - það þekkja mig allir.
Fræðasvið:
Tíska, barneignir og bleikur. Mannslíkaminn. Hirðsiðir og sómi ungmeyja..
Æviágrip:
Fráskilin en ekki að vestan.