— GESTAPÓ —
Barbie
Fastagestur.
Dagbók - 8/12/03
Í dag.

Frá því í vor. Alltaf gaman að eiga við opinberar stofnanir. Hvað get ég sagt nema - æ jæja, svona er ég víst bara...

Fyrst ber að nefna e********próf sem ég fór í í morgun. Það var sérlega smásmugulegt eins og mig hafði lengi grunað og gekk framar vonum enda vel lesin. Aðrir voru missáttir við sitt gengi eins og gerist. Hitti þó tvo prófessora sem staðfestu að mín svör væru í áttina - a.m.k. við þeirra spurningum.
Það eina góða við prófdaga er að restina af þeim á ég frí. Á morgun er annað próf, úr sama efni en önnur próftækni. Prófagleðin í minni skor er með eindæmum mikil.
Í fríinu fór ég í góðan göngutúr í dásamlega regninu. Hef aldrei skilið af hverju sumir hafa ímugust á rigningu. Finnst ég einmitt svo lifandi og svo er sérstakur rigningarilmur sem leggst á bæinn - kannski er það bara merki um að ég þurfi að fara að þvo yfirhöfnina?
Ég þurfti að eiga samskipti við opinbera stofnun af illri nauðsyn. Þar sem starfsmenn eru þjálfaðir í viðskotailli í leyniskóla ríkisins og þeir sem standa sig best fá einmitt að afgreiða almúgann er gott að vera við öllu búinn. Að venju byrja ég á því að móðga þann sem er í afgreiðslunni með því að láta að því ligga að orsökin fyrir komu minni er einmitt slæleg frammistaða viðkomandi í eigin starfi. Þetta gerir maður samt undir rós. Í dag kaus ég að segja: ,,já, þið eruð búin að týna umsókninni minni." Þar með hef ég vinninginn í smástund. Skiptumst við svo á kurteisislegum móðgunum á meðan starfsmaðurinn flettir illskulega upp kennitölu. Hörkum svo um hvort að flakkið á umsókninni sé mér að kenna eða starfsmanninum sem hefur sent hana um allan bæ. Að lokum sér starfsmaðurinn að sama hversu dónalegur hann verður þá er ljóst að ég hafi á einhvern hátt fengið veður af Leyniskólanum og fer því strax að draga í land - svona til að beina athyglinni annað. Þá fær maður loks notalegt viðmót og hina bestu afgreiðslu.
Í bakaríi hitti ég svo æskuvinkonu mína úr framhaldsskóla. Hún var að spássera og eiginmaður hennar á víst afmæli í dag. Til hamingju. Var mjög gaman að rifja upp gamla tíma og ræða framtíðarmúsík en hún er víst að flytja til Danmerkur fljótlega.
Í kvöld ætla ég á kaffihús og slaka á í sundlaug á góðum stað í borginni með tveimur eðalvinkonum - andlegur undirbúingur fyrir prófið á morgun.
Góðar stundir.

   (26 af 29)  
Barbie:
  • Fæðing hér: 17/4/04 09:53
  • Síðast á ferli: 11/5/20 08:37
  • Innlegg: 447
Eðli:
Ég er Barbie - það þekkja mig allir.
Fræðasvið:
Tíska, barneignir og bleikur. Mannslíkaminn. Hirðsiðir og sómi ungmeyja..
Æviágrip:
Fráskilin en ekki að vestan.