— GESTAPÓ —
Barbie
Fastagestur.
Gagnrýni - 2/11/05
Napoleon Dynamite

Kvikmyndarýni

Mættu vera 3,5 stjörnur.

Napoleon Dynamite

Fremur nýleg mynd sem þó er komin á DVD. Að áeggjan Esperdítu systir ákvað ég og minn ektaspúsi að horfa á myndina (LOKSINS) en Esperdíta hafði þrábeðið okkur um að horfa á hana þar sem hún væri, tilvitnun - ógeðslega fyndin -tilvitnun lýkur.

Ég hafði nú bara ákveðið með sjálfri mér fyrirfram í einhverri kergju að grínmynd með svona nafn væri örugglega full af prumpubröndurum og þess vegna alveg hundleiðinleg. Aðallega var það nú bara ég sem var hundleiðinleg þar sem Esperdíta systir hefur óaðfinnanlegan smekk á allan máta. Eftir að hafa LOKSINS spurt Esperdítu hvort þetta væri einhver ,,togaðu í puttan fúlir prumpubrandaramynd" og fengið fullvissu um að svo væri ekki, horfðum við á myndina.(Esperdíta vildi ekki segja mér neitt um myndina til að skemma ekki fyrir, en þar sem slíkt háir mér ekki hið minnsta - að skemma fyrir það er - þá mun ég hér á eftir blaðra um það sem mér sýnist).

Myndin er nútímalistaverk sem segir frá í þriðju persónu í formi ósýnilegrar alvitrar myndavélar. Hún gæti átt sér stað um miðbik tíunda áratugarins en getur sögusvið hennar eins átt við á okkar dögum. Sögusviðið spannar tímabil einnar annar í miðskóla í Bandaríkjunum og á sér stað í einhverju sólskinsríkinu. Eigi er gefin fyrri saga persóna heldur kynna þær sig sjálfar utan einstaka - afsakið slettuna - flash back, sem varpa kunna nýju ljósi á einstaka aðila.

Aðalpersónur eru tvær. Napoleon téður Dynamite og Chad bróðir hans. Báðir eru eðalnördar en jafn einstaklega ólíkir og þeir eru náskyldir. Chad er 33 ára tölvunörd sem eyðir dögunum á spjallrás að ræða við flottar skvísur og hefur ekki unnið handtak á ævinni. Napoleon er utangarðsmaður í miðskólanum og tekst á við lífið og tilveruna á sinn sérstæða máta.

Bræðurnir eru búsettir hjá ömmu sinni sem mjaðmagrindarbrotnar (sko ortopedia) og útskrifast alls ekki neitt af spítalanum (hmm, vel tryggð og svona), svo slepjulegur frændi sem þráir einna helst að komast aftur á áttunda áratuginn tekur að sér að líta eftir frændunum. Þar sem hann er aukanúmer man ég ekkert hvað hann heitir.

Þar sem frændi er mannslepja af gerðinni höstler með brúnku og í pastelbláum polyesterbrækum þarf Napóleon á allri þeirri hjálp að halda sem býðst.

Óvænt kemur til sögunnar samnemandinn og bakarameistarinn Carlos sem þekkja má af því að hann er eini maðurinn í myndinni með yfirvaraskegg. Hentugt.

Ung stúlka og ástarævintýri ásamt Jamariqui verða einnig á vegi Napóleons í leit af innri manni.

Myndin hefur tvö ris fyrir hvora aðalpersónu. Napóelon: Hið fyrra er miðskólaballið og hið síðara kosningarnar - þar sem innri maður Napóleons brýst fram með eftirminnilegum þætti. Chad: þegar hann hittir loks draumadísina af netinu og lyktir plastdolluævintýrisins mikla.

Eðalskemmtun fyrir unga og aldna. Fær þessi mynd meðmæli frá mér og slíkt er sjaldséð.

Sérstakar þakkir til Esperdítu fyrir að narra mig til að horfa á myndina.

Lifið heil.

   (9 af 29)  
2/11/05 02:01

Þarfagreinir

Fínn pistill. Þar sem ég er sjálfskipaður sérfræðingur um þessa mynd má ég þó til að benda á að bróðir Napoleons heitir Kip, en ekki Chad.

2/11/05 02:01

Heiðglyrnir

Einstaklega skemmtileg gagnrýni um afar skemmtilega mynd...

2/11/05 02:01

Jóakim Aðalönd

Skál!

2/11/05 02:02

Hakuchi

Þar erum við sammála Barbie. Minnir að ég hafi gefið henni 3 stjörnur en hefði hækkað upp í 3,5 ef það hefði staðið til boða.

Vertu annars velkomin aftur á lútinn. Þú mátt til með að sýna þig meira á þessum slóðum.

2/11/05 02:02

Bangsímon

Þetta er ein af mínum uppáhalds myndum.

2/11/05 03:01

Anna Panna

Ég sá hana líka án þess að vita mikið um hana og finnst hún afskaplega góð. Skál!

2/11/05 03:01

Golíat

Velkomin heim Barbie. Vona að staldrir svolítið við núna.

2/11/05 03:01

kolfinnur Kvaran

Fínasta mynd, þó fer í taugarnar á mér að það virðist vera einhverskonar cult að fíla þessa mynd í tætlur.

En það er þó vitaskuld ekki myndinni sjálfri að kenna.

2/11/05 04:01

Barbie

Æ já ég mætti nú alveg vera duglegri að heimsækja ykkur enda takið þið alltaf vel á móti mér hér. Þakka fögur orð í minn garð. Já hafði nú bara nokk gaman að þessari mynd. Er þó sammála Hakuchi (las þína rýni að sjálfsögðu yfir) að eigi er um tímalaust meistarastykki að ræða. En hún er skemmtileg. Og það er það sem skiptir öllu máli.

Barbie:
  • Fæðing hér: 17/4/04 09:53
  • Síðast á ferli: 11/5/20 08:37
  • Innlegg: 447
Eðli:
Ég er Barbie - það þekkja mig allir.
Fræðasvið:
Tíska, barneignir og bleikur. Mannslíkaminn. Hirðsiðir og sómi ungmeyja..
Æviágrip:
Fráskilin en ekki að vestan.