— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 6/12/03
Bláskógar

Paradís á jörð

Í gær var einmuna blíða. Ég ákvað að ég gæti ekki þolað að eyða deginum innandyra og tók því allt mitt hafurtask (teóríu og léttmeti) og hélt til hinna fornu Þingvalla. Þangað hafði ég ekki komið síðan síðasta sumar. Eins og ég var þarna oft sem krakki, það liggur við að ég hafi verið kominn með samviskubit yfir fjarverunni.

Þingvellir eru langtum meira en Öxarárfoss, Valhöll og Nikulásargjá (plebbar kalla hana peningagjá). Ég brunaði því fram hjá túristarútunum á þeim stöðum í leit að frið og næði. Ég fann bæði. Ég lagði skammt frá Vatnskoti, þó hinum megin við huggulega veginn sem liggur í gegnum garðinn, fjær vatninu. Labbaði þaðan beinustu leið út í buskann í leit að afvikinni og skjólsælli laut. Landið er þakið trjágróðri og feikinóg af lautum og hvers kyns dældum. Þess vegna leið ekki á löngu þangað til ég hafði fundið glæsilega afvikinn stað, laus við ágang túrista og útilegumanna.

Veðrið var einstakt, nokkur háský á himni en ekkert meir, Sandey sást í fjarska og leit út eins og miðjarðarhafseyja í blíðunni. Það var afar heitt en svöl og þægileg golan lék við mann.

Lunkanum úr deginum var síðan eytt í lautinni, lesið í teóríu og hlustað á vel valda tónlist þess á milli. Hrossagaukurinn tók undir með sólói Dizzie Gillespie í einu bossa nova lagi og allt var í harmóníu. Fyrir utan 3 F-15 flugvélar sem flugu yfir garðinn. Þær eru þá ennþá á vellinum, rellurnar a'tarna.

Allt í allt yndælt allt saman. Ég þarf að fara oftar til Þingvalla, taka með mér bók Björns Th. og stúdera staðinn nánar. Þarna er hvert strá stórmerkilegt og rígbundið sögu þjóðarinnar. Ekki slæmt að dotta á svoleiðis stað. Alls ekki.

   (48 af 60)  
31/10/05 12:01

Texi Everto

Virkjum Öxará, stíflum Almannagjá! [Glottir eins og fífl]

3/12/06 04:02

Hakuchi

Það ætti að eitra fyrir þér eins og rottan sem þú ert, föðurlandssvikarinn þinn.

3/12/06 13:02

krossgata

Mér er nokk sama hvar þeir virkja meðan þeir láta Dettifoss í friði og Þingvelli. (svona í bili)

3/12/06 16:00

Hakuchi

Þingvellir eru þegar virkjaðir og er vatnið uppistöðulón. Þannig drápu þeir hinn fagra silung í vatninu. Skíthælar.

3/12/06 19:01

krossgata

Þeir eitruðu með .... var það ekki PCP fyrir mýinu þegar sogsvirkjanirnar voru í byggingu. Síðastliðin ár virðast áhrif þess vera að minnka og nú er svakalegt mý á sumrin, svo kannski fer hin víðfræga þingvallableikja að taka við sér aftur.

3/12/06 20:01

Hakuchi

Það vona ég innilega. Ég vona líka að Sogsvirkjun verði lokað, þó líklega gangi ekki að rjúfa stífluna úr því sem komið er. Virkjunin leikur sér með vatnshæðina sem hefur víst skaðleg áhrif á stofninn. Blessunarlega er verið að reyna að koma bleikjunni á laggir á ný með nokkuð markvissum aðgerðum.

3/12/06 20:02

krossgata

Ég man eftir að hafa séð 3-4 stórbleikjur úr vatninu og borðað þær. Að minnsta kosti eina veiddi afi undir Skinnhúfuhelli.

3/12/06 21:00

Hakuchi

Ég hef fátt veitt annað en murtur. Enda lélegur veiðimaður og hef oftast verið á við Vatnskot, sem virðist vera algert murtusvæði.

3/12/06 21:00

krossgata

Afi bjó við vatnið og veiddi gjarna í net. Það gera gjarna bændur við vatnið. Hann átti það til að veiða á stöng, en undir Skinnhúfuhelli fer maður bara á bát. Murta finnst mér fín og finnst fínt að gera t.d. "túnfisk"-salat úr henni.

4/12/06 00:01

Hakuchi

Ég hef aldrei verið svo lánsamur að fara á bát á vatnið. Mig hefur alltaf langað til þess.

Þá tel ég ekki með árabátana sem voru við Valhöll í gamla daga.

4/12/06 00:01

Hakuchi

Ég hef aldrei verið svo lánsamur að fara á bát á vatnið. Mig hefur alltaf langað það.

Þá tel ég ekki með árabátana sem voru við Valhöll í gamla daga.

4/12/06 01:00

krossgata

Maður fór og "vitjaði um" með afa hér í den. Það gat verið gaman í góðu veðri. Annars er gaman að horfa á landið frá vatninu og landið í vatninu líka.

4/12/06 02:02

Hakuchi

Því trúi ég heilshugar.

4/12/06 04:00

krossgata

Gljúfrið fyrir neðan stífluna fannst mér alltaf og finnst enn ævintýrastaður.
[Hverfur á vit minninganna]
Fyrir utan annars bannsettar krossköngulærnar í gljúfurveggjunum.

4/12/06 15:01

Hakuchi

Ég hef ekki farið þangað.

Þarf að fara þangað einhvern daginn og leika mér.

4/12/06 18:00

krossgata

Spennan fólst meðal annars í því að búast við því að hleypt yrði frá meðan maður væri á slæmum stöðum í gljúfrinu.
[Flissar]
Það gerðist aldrei.

1/12/07 14:01

Álfelgur

Lifi virkjunin!

3/12/07 09:00

krossgata

Hún er alla vega ekki dauð.

4/12/07 04:00

Álfelgur

En kannski full! Skál!

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.