— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 1/11/03
Þú skalt ekki stela

Erum við svona vond?

Að undanförnu hefur auglýsing verið í sýningu hjá kvikmyndahúsum borgarinnar þar sem vakin er athygli á því að niðurhal á kvikmynd er engu minni þjófnaður en að stela bíl eða dvd disk úti í búð. Ætli auglýsingin muni hafa áhrif?

Hvað mig varðar er þetta ósköp örvæntingarfullt hjá kvikmyndahúsaeigendum. Þegar ég sá auglýsinguna fyrst hló ég. Auglýsingin er hins vegar alls ekki illa gerð. Hún kemur máli sínu skírt til skila og bendir á nokkuð sem vill gleymast; að það er í raun enginn lagalegur eðlismunur á því að stela úr búð eða af netinu. Þetta atriði á það til að gleymast og er í raun verðugt umhugsunarefni af hverju fólk rænir og ruplar lögum, þáttum, leikjum og kvikmyndum án þess að blikka auga. Nokkur atriði koma til greina:

a) Efni sem tekið er af netinu felur í sér að engu efnislegu er stolið. Ekkert sem gert var í verksmiðju, flutt í búð osfrv. Fólk er hreinlega vant því að tengja efnislega hluti við eignarétt, sem er réttur sem yfirgnæfandi meirihluti fólks virðir. Kvikmynd er í raun ekki dvd diskurinn sem hún er á heldur er hún innihaldið, sagan og framreiðsla hennar á myndrænu formi er bundið eignarrétti. Möguleikinn á að fólk geti stolið hugverki er tiltölulega nýr og hefur fólk því ekki fengið skynbragð á að það er í raun miklu frekar þessi hugverkaþáttur sem gefur kvikmyndinni gildi sitt og eignarrétt en t.d. Dvd diskurinn eða vídéospólan sem hún er á (þó flest fólk ræni ekki slíku út af efnislegum eiginleikum þess forms).

b) Erfitt er fyrir framkvæmdavaldið að framfylgja lögum um höfundarétt. Möguleiki er á því að það þjófnaður sé svona mikill hjá venjulegu fólki (þ.e. ekki Löllum Johns þessa lands) af því erfitt er að ná því og viðleitni lögregluyfirvalda sama og engin. Samt ætti þetta ekki að vera eins stór þáttur og ætla mætti. Það fer að sjálfsögðu eftir siðferðislegu innræti hvers manns. En íhugið ef þetta væri eina ástæðan fyrir því að fólk tekur af netinu með bros á vör. Það fæli að vissu leyti í sér að allt þetta 'venjulega' fólk væri í raun gersamlega siðblindir sósíópatar. Þá mætti jafnvel ganga svo langt að álykta sem svo að fólk myrði ekki, nauðgi ekki, limlesti ekki, kveiki ekki í, keyri ekki á viljiandi eða geri nokkuð ólöglegt einvörðungu af því það óttast að verða fyrir refsingu. Þetta er öfgafullt dæmi og vissulega er til þess háttar fólk (þess vegna þurfum við að setja lög sem banna t.d. morð). En flest okkar höfum einhverja sómatilfinningu og erum ágæt inn við beinið, jafnvel út við það líka.

c) Nálægð. Það að við stelum ekki t.d. bíl nágrannans eða hljómdisk úr Skífunni hefur etv. eitthvað með nálægð að gera. Við erum að taka eitthvað úr okkar staðbundna samfélagi, þar sem fólk hefur sitt orðspor að verja (neyðarlegt að vera böstaður í verslun t.d.) og þjófnaður spyrst fljótlega út til vina og kunningja, nú eða eigandans sjálfs. Hugverkaeign er miklu fjarlægari. Hún nær í raun, með einföldun, til þess sem skapaði verkið. Þegar einhver stelur Bod Dylan lagi af netinu þá er maður í raun og veru, að stela frá Bob Dylan. Ég efast um (en vildi gjarnan vona) að Bob Dylan banki upp á hjá fólki og saki fólk um að hafa stolið frá sér og hótar málsóknum. Þessi fjarlægð gæti auðveldað þjófnaðinn, samviskulega séð.

Að auki má bæta við einu atriði. Andstjörnufílíngur. Ein helsta afsökunin sem fólk veitir er að, það er í raun að stela frá moldríku fólki sem veit ekki aura sinna tal. Það myndi hins ekki réttlæta að ég færi að stela Hömmernum hans Björgólfs Thors, svo dæmi sem tekið. Það að stela frá stórstjörnum í fjarlægu landi, í raun öðrum heimi, er einhvern veginn...ótrúlegt. Það auðveldar stuldinn til muna, samviskulega séð.

Enn annað atriði sem má bæta við er smæðin. Fólk réttlætir oft fyrir sér að það sé nú bara að stela einu lagi/disk/mynd sem selst hefur í smilljóna upplagi. Að stela/ekki borga fyrir eitt svona skipti engu máli. Eftir stendur glæpurinn engu að síður. Svona 'baunaglæpur', það að vera nú bara að taka svosum eina hálf verðlausa baun eða svo er fjandi algeng afsökun fyrir hugverkaþjófnaði.

d) 'Menningarleg viðmið' Þetta á kannski helst við um Ísland. Íslendingar eru líklega mestu hugmyndaréttarþjófar á jörðinni ásamt með Kínverjum. Nú þekki ég ekki mikið til Kínverja en get ímyndað mér að gengdarlaus kommúnismi hafi sljóvgað eignarréttartilfinningu fólks eitthvað. Ég þekki þó betur til Íslendinga, þar sem telst víst vera slíkur. Hér á landi hefur, frá upphafi tölvualdar, verið stundaður sá frómi siður að stela helst öllum hugbúnaði sem hægt er að ná til. Ekki er nóg að einstaklingar stunduðu (og stunda) þetta heldur voru jafnvel stór og virðuleg fyrirtæki á fullu í hugverkaþjófnaði. Engum virðist hafa dottið í hug að nokkuð væri athugavert við þetta atferli. Þessi hefð var orðin rótgróin þegar tæknin bauð upp á að hægt væri að hala niður tónlist og kvikmyndum í miklum mæli undir lok 10. áratugarins. Hér er því verið að fylgja gamalli og góðri íslenskri hefð.

Ég er ekki viss um af hverju menn voru svo graðir í að stela hugbúnaði hér í upphafi tölvualdar (fyrir almenning og fyrirtæki) á 9. áratugnum. Hugsanlega hefur það eitthvað að gera með eftirlitsleysi hugbúnaðarfyrirtækja. Ísland var og er einfaldlega það lítill markaður að þau hafa ekki beint sjónum sínum að landinu, fyrr en á síðustu árum. Auk þess voru það yfirleitt búðir sem voru að selja tölvur, en ekki hugbúnað, sem hentu inn hugbúnaði (stundum stolnum) en höfðu í sjálfu sér engan hag á því að vera að huga eitthvað að hugbúnaði í tölvum.

Í það minnsta. Vandamál hagsmunaaðila nú til dags virðist aðallega vera fólgið í því að fólk hefur ekki tilfinningu fyrir einhverri huglægri 'eign' á borð við tónlist eða bíó. Í það minnsta ekki í sama mæli og hvað varðar eitthvað sem hægt er að þreifa á. Þessi auglýsing kemur þessu til skila á góðan hátt en ég efast um að fólk muni linast eitthvað í afstöðu sinni þrátt fyrir þetta.

(sjá nánari umræðu hér: http://www.baggalutur.is/viewtopic.php?t=3432&start=25)[/i]

   (34 af 60)  
1/11/03 22:01

Goggurinn

Eitt langar mig að vita, hvað er stúlkukindin að nota til að niðurhala kvikmyndinni?

1/11/03 22:01

Sverfill Bergmann

Einhverja dellu sem líklega er ekki til og hún virðist vera með ljósleiðaratengingu miðað við hraðann...

1/11/03 22:01

Heiðglyrnir

Þetta eru orð í tíma töluð, en sjálfsagt verður margnum ekki ljóst um hvað er verið að tala, og á hverju er verið að ala, fyrr en þeir eiga hugverk sjálfir sem gæti verið í þessum háska.

1/11/03 22:01

Skabbi skrumari

Að stela eða ekki stela ... ég sé þetta sem góða leið til að ná til baka eitthvað af peningunum sem Skífan og önnur íslensk fyrirtæki eru búin að mergsjúga úr buddum landsmanna, óvíða er lagt meira á tónlist og finnst mér það vera meiri glæpur að selja tónlist (og dvd-diska) á eins háu verði og þessi fyrirtæki gera. Að ná sér í lag á netinu sem þú myndir aldrei kaupa, en gætir hugsanlega haft gaman af finnst mér ekki vera glæpur... svo styrkir maður þessa peningagráðugu aurapúka annað slagið og kaupir einn og einn disk... út af umbúðunum og gæðunum.

1/11/03 22:02

Skabbi skrumari

Skildist það sem ég var að segja... ekki skil ég það... Skál

1/11/03 22:02

Vladimir Fuckov

Eigi er þetta einfalt mál og e.t.v. að hluta til vítahringur. Okurverð er á diskum, a.m.k. hér á landi og þekkt að allskyns milliliðir (útgefendur o.þ.h.) hirði nær allan gróðann og flytjendur fái lítið í sinn hlut. Svo hafa útgefendur verið afar seinir að taka við sér í takt við tækniþróun (netið o.fl.) og þess í stað barist gegn henni með kjafti og klóm. En það er bara svo miklu þægilegra að sækja þetta á netinu, tekur ekkert pláss og hægt að útbúa allskyns lista í tölvunni með lögum héðan og þaðan í stað þess að þurfa sífellt að skipta um CD-disk. Og eigi má gleyma MP3 spilurum. Einnig er alþekkt að 'stela' einhverjum lögum af netinu og kaupa disk í kjölfarið - disk er annars hefði aldrei verið keyptur (þetta kom t.d. fyrir oss nýlega). Síðan stuðla viðbrögðin við þjófnaði e.t.v. að meiri þjófnaði - þ.e. hin fáránlegu Stefgjöld, diskar er eigi er hægt að spila í tölvum o.s.frv. Við þeim þjófnaði verða svo frekari viðbrögð sem þýðir enn meiri þjófnað.

1/11/03 22:02

Finngálkn

Þetta er einn helvítis vítahringur! Nero er selt með tölvunni sem þú kaupir þér í næstu verslun. Passaðu þig bara á því að gera bara eintak handa sjálfum þér af myndinni þinni! - Þetta er bara rökleysa og rugl. Nú virðast allir vera búnir að gleyma kassettunum og videóinu já og minidiskinum. Hvað eru útgefendur að pípa?

1/11/03 23:00

Barbie

Kannski er lausnin að selja bara eintök til niðurhals á netinu. Þau gætu verið svona 50% ódýrari og með öllu því aukaefni sem listamanninum hugnast. Eða einhverri annarri gulrót.

3/12/06 14:01

Carrie

Stofna hér laumupúkaþráð vegna áhrifa þessa félagsrits á ýmislegt sem fram kemur í fjörinu. [Skál]

3/12/06 20:01

krossgata

Jæja, félagi Carrie!! Til hamingju með laumpúkaþráðinn þinn. Hann er ljómandi smekklegur.
[Sýpur á kóbaltbættum laumupúkadrykk]
Skál!

4/12/06 16:01

Carrie

Skál, félagi í laumupúkun. [Sýpur á asnahanastéli]

4/12/06 17:01

krossgata

Skál! Fínar innréttingar hérna. Verður ekki að stofna varðveislufélag sem gætir þess að þeim sé ekki breytt?

5/12/06 04:00

Carrie

Laukrétt, og ég tilnefni þig sem yfirkonu varðveislufélags innréttinga á fyrsta laumupúkaþræði Carriear.
[Vígir Krossu í það embætti og þar sem hún á ekki sverð notar hún trjágrein til að leggja á sitthvora öxl Krossu]

5/12/06 04:01

krossgata

[Setur upp skilti]
.
.
____________
| Ekki snerta |

6/12/06 07:00

Carrie

Farðu varlega í sumar kæri laumupúkaþráður.
[Skálar í asnahanastéli]

9/12/06 07:02

krossgata

Hann er alveg í ljómandi standi.
[Ljómar upp]

3/12/07 09:00

krossgata

Klukkan er 01:26 og 9. mars er runninn upp og allt er með feeeeeelldu!!!!

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.