— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 4/12/04
Kaldaljós

Dauði og drungi í leiðinlegum dans við eymdarinnar ömurleik

Ég ákvað að gefa íslenskri kvikmynd séns í gær og horfði á Kaldaljós. Ég sé innilega eftir því. Þetta er átakanlega ömurleg bíómynd. Innantómt og stefnulaust frat, plús snjóflóð sem virðast vera í tísku hjá 'kvikmyndagerðarmönnum' á Íslandi.

Allt við þessa mynd er ömurlegt. Handritið er ömurlegt, samtölin dæmigerð í íslenskri handritatilgerð og persónusköpun er nákvæmlega enginn. Aðalpersónan er leiðinlegasta og litlausasta persóna sem ég hef lengi séð (var þó skömminni skárri sem barn í myndinni). Leikarar stóðu sig allir illa nema aðalpersónan sem krakki, hann var ágætur, hafði snefil af sál.

Hvað er þetta með íslenska leikara? Geta þeir aldrei yfirgefið 'þeaterleik' þegar þeir stíga fyrir framan myndavélina? Ég heyrði allt of oft 'tóninn' í myndinni. Ég á bágt með að útskýra þennan tón en það er svona tilgerðarlegur 'lesa af handriti' tónn sem virðist vera einstaklega algengur hjá íslenskum leikurum í bíómyndum. Kannski eru þetta bara lélegir leikarar. Eða lélegt handrit. Eða bæði.

Sá hluti sem gerist í æsku aðalpersónunnar er nokkuð betri en samtíðarhlutinn en dramatískum mómentum er algerlega klúðrað í meðförum leikstjóra. Þetta hefði auðveldlega verið hægt að byggja upp þunga sálardramaspennu þar sem hægt og rólega afhjúpast hvað er að gerast í höfði krakkans og tengsl þess við það sem gæti verið að gerast en neeeeii, leikstjórinn missir algerlega taktinn í spennuuppbyggingu. Hann er eins taktlaus og hvítt tölvunörd á diskódansgólfi. Asni. Fífl.

Sem sagt, enn ein ömurleg íslensk landsbyggðarþunglyndismynd sem safnast saman í ört stækkandi hóp lélegra íslenskra bíómynda.

Hvað er þetta með kvikmyndagerðarmenn og landsbyggðina? Eru þeir virkilega svona innilega sannfærðir að lífið sé svona eymdarinnar ömurlegt fyrir utan 101? ‹(sjá t.d. Hafið, Kaldaljós, Ingaló, Nói Albínói)› Nú er ég borgarbarn dauðans en 'kamm onn', jafnvel ég geri mér grein fyrir því að landsbyggðin getur ekki verið svona skelfileg.

   (29 af 60)  
4/12/04 05:01

B. Ewing

Nú er ég borgarbarn dauðans en 'kamm onn', jafnvel ég geri mér grein fyrir því að landsbyggðin getur ekki verið svona skelfileg.
Því miður þá er landsbygðinni rétt lýst í myndinni samkvæmt nýlegri ánægjuvog Gallups. Kópavogur átti sín augnablik í þessarri mynd meira að segja. [Leggst í skítug borgarstrætin, kyssir ljósastaurana takk, faðmar að sér ólaufguð trén, veltir sér í nýbrenndri sinunni og hrópar dámsemdarorð til bílana á Miklubrautinni]

4/12/04 05:01

Júlía

Íslenskar kvikmyndir eru áróðurstæki. Allir þeir útlendingar sem sækja um atvinnuleyfi á Vestfjörðum, Austfjörðum ellegar hálendinu eru látnir horfa á snjóflóða-trílógíuna og heildarverk Hrafns Gunnlaugssonar. Því næst eru þeir spurðir hvort þeir vilji örugglega fá að starfa á Íslandi.
Er það tilviljun að hingað flykkjast helst borgarar landa sem hafa mátt þola eymd og hörmungar? Fáum við mikið að glaðsinna Írum til starfa á Íslandi?
Nei, Útlendingastofnun stendur að baki íslenskri kvikmyndagerð.

4/12/04 05:01

Haraldur Austmann

Löngu hættur að gefa íslensku kvikmyndum sjens.

4/12/04 05:01

Vestfirðingur

Nói virðist ætla að eldast best af þessu. Þokkalegt handrit, svona blanda af trega og húmor. Fín taka og lýsing í mörgum senum líka.

4/12/04 05:01

Hakuchi

Ja hér. Skiljanleg og öfgalaus orð úr ranni Vestfirðings. Ótrúlegt. Gott ef hann hafi ekki bara rétt fyrir sér líka. Enn ótrúlegra. Það mætti halda að hann hafi fengið vitið aftur. Gott er ef satt er.

4/12/04 05:01

Skabbi skrumari

Jamm, varð fyrir miklum vonbrigðum með þessa mynd, eins og ég hafði heyrt góða dóma um hana...

4/12/04 05:01

Nornin

Ég missti áhugann þegar strákurinn fór í heimsókn til Álfrúnar með myndina.
Bókin var betri.

4/12/04 05:02

Ugla

"Dauði og drungi í leiðinlegum dans við eymdarinnar ömurleik."
Stórkostlegt!

4/12/04 05:02

Vladimir Fuckov

Vjer ættum e.t.v. eigi að viðurkenna þetta en... það gleður oss mjög að lesa gagnrýni þessa. Vjer vorum nefnilega alvarlega að hugsa um að horfa á umrædda mynd en ákváðum að nenna því eigi, m.a. sökum gruns um að myndin væri eins og hjer er lýst. Já, það getur verið gaman að hafa rjett fyrir sjer þó það hafi í för með sjer staðfestingu á að margar íslenskar bíómyndir sjeu ömurlegar.

4/12/04 05:02

feministi

Kaldaljós Vigdísar, þ.e. bókin fannst mér virkilega góð á sínum tíma. Ég las hana þegar hún kom út fyrir þónokkrum árum og hún hafði mikil áhrif á mig. Í gær fannst mér þetta ekki vera sama sagan. Hvað var það eiginlega sem við reyktum þarna í gamla daga?

4/12/04 06:00

Ísdrottningin

Það er nefnilega málið Femínisti.
Ég held ég fari niður í geymslu og sæki bókina því mig minnti að mér hefði þótt hún góð.
Kominn tími á endurmat...

4/12/04 06:00

Ívar Sívertsen

Í guðsbænum ekki fara að rifja eitthvað upp sem búið er að gera vonda mynd um. Það er kominn tími til að líta fram á veginn!

4/12/04 06:01

Fíflagangur

takmarkalausir leiðindapúkar getiði verið. Þetta var ágætismynd. Ekkert stórvirki, en fín lágstemmd rólegheitamynd. Leikararnir voru líka upp til hópa fínir.
Gallinn er bara sá að við erum vönust því að horfa á myndir á öðrum tungumálum en okkar eigin tungu. Þá fyrirgefum við alla litlu feilana sem leikarar gera, einfaldlega vegna þess að við skynjum ekki fínustu blæbrigði eins og við gerum á eigin tungu.

Reyndar var Helga Braga óþolandi, en það kemur leik ekkert við.

4/12/04 06:01

Lómagnúpur

Ég held að menn séu bara svon vanir því að sjá vanleik. Fólk að leika sjálft sigt. Eins og í Íslenska draumnum. Það er ósköp lítill metnaður í því að labba bara á milli og þylja upp einhverjar runur. Það er það sem er munurinn á dramatík og smokkasjálfsölum.

4/12/04 06:01

Hakuchi

Reyndar kemst Íslenski draumurinn næst því að sýna frambærilegan bíómyndaleik, svona almennt séð. Í þeirri mynd leit þetta út fyrir að vera fólk að leika...tja..fólk. Þannig fékk maður jafnvel á tilfinninguna að myndin væri um persónur. Kaldaljós t.d. er illa leikin því þar er ekki hjá því komist að sjá leikara vera að Leika og kemst maður því aldrei hjá því að taka eftir að hér eru lélegir leikarar á ferð sem eru að rembast við að Leika persónu.

Lómagnúpur má telja sér trú um að fyrrnefnda dæmið sé voðalega ómerkilegt en ég er á öndverðri skoðun. Góður leikur er leikur þar sem þú tekur ekki eftir leiknum. Það er smilljónfallt erfiðara að ná fram slíkum áhrifum en að taka sér gleiða stellingu fyrir framan myndavélina, benda annarri höndinni til himins og með hina höndina upp við hjarta og þylja handritstexta eins og það sé argasta sjeikspírþeater. Íslenskir leikarar hafa sýnt það margoft að þeir eru hreinlega lélegir leikarar því þeir geta ekki hægt að Leika.

Frænka mín vinnur við leikhús (ekki sem leikari) og varð vitni að því að virtur erlendur leikstjóri var að leikstýra stykki hérna. Hann var að verða brjálaður út af leikurunum og sagði í sífellu: For god's sake stop Acting!

En ef þið haldið virkilega að Gunnarseyjólfsonarleikstíll sé í alvörunni góður leikstíll, þá er ykkur velkomið að halda það. Persónulega vil ég fá alvöru leik hér á landi og ég bíð enn eftir honum.

4/12/04 06:01

Lómagnúpur

Hakuchi vill sjónhvervingar, ekki leik. Gott og vel, ef til vill er okkur um megn að framkvæma sjónhverfingar með þeim hætti sem um ræðir, búa til sýndarveruleika sem gleypir mann um stund. En það er eins og að streða við að láta sjeneverinn líkjast vatni á bragðið meir og meir. Það er nefnilega ekki til bara góður og vondur leikur, heldur allskonar, og óþarfi að steypa allt í sama mótið.

4/12/04 06:01

Hakuchi

Jæja, njóttu þá þessara stórkostlegu íslensku mynda í friði væni. Við höfum greinilega óásættanlegar skoðanir á leik.

4/12/04 06:01

feministi

Ég hef oft séð góðan leik á sviði á Íslandi en einhvern veginn finnast mér Íslensku bíómyndirnar ekki góðar. Hvort það er leikurinn eða eitthvað annað veit ég ekki. Ég játa einnig fúslega að mér finnast flestar bíómyndir leiðinlegar. Og í guðs bænum ekki láta mig byrja að tala um ameríska sjónvarpsþætti.

4/12/04 06:01

Lómagnúpur

Jú, svona! Byrjaðu að tala um ameríska sjónvarpsþætti.

4/12/04 06:01

Hakuchi

Í guðanna bænum hlífðu okkur við því. Hér erum við að tala um ömurleik íslenskra bíómynda.

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.