— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 3/12/04
Eddie Izzard

Snillingur berst við lélega áhorfendur

Eddie Izzard er snillingur í uppistandi. Ég hef séð nokkrar myndir með honum og komist að þeirri niðurstöðu að hann er hreinlega með þeim bestu sem komið hafa fram síðustu ár.

Þess vegna var ég talsvert spenntur að fá að sjá hann loksins í holdi og blóði á sviði. Tveir íslenskir uppistandarar hituðu upp, þessi sem lítur út eins og Elton John og þessi sem er í KBbanka auglýsingunum. Þeir stóðu sig ansi vel.

Svo kom konungurinn sjálfur. Salurinn trylltist. Hann byrjaði að rausa eins og honum einum er lagið. Gamansemi hans byggist á oft absúrdískum hugleiðinum um hvað sem er, hvort sem það er saga, pólitík, dýralíf eða hvers konar. Einkenni á hans húmor er að manngera fáránlegustu hluti og spinna úr þeim furðuleg en afar fyndin samtöl. Það gerði hann á þessari sýningu með bráðfyndnum hugleiðingum um hákarla og smokkfiska. Að auki kom hann með mjög flott grín, tengdum íslenskum aðstæðum. Mér fannst hann ekki fara nógu mikið inn á söguleg og pólitísk umræðuefni en þar er hann oft hvað skemmtilegastur.

Hins vegar er ég ekki nógu sáttur við sjóvið í heild sinni. Það er ekki út af Eddie. Það er út af áhorfendum. Þeir floppuðu algerlega. Nú hef ég tvisvar sinnum farið á uppistand með frægum erlendum grínistum (sá fyrri var Pabló Fransiskó, sem stóð sig illa). Í bæði skiptin hef ég orðið var við að áhorfendur í salnum hlægja alveg afskaplega mikið. Alveg grunsamlega afskaplega mikið. Þeir skellihlægja að hverjum einasta brandara. Þetta finnst mér grunsamlegt. Það er ekki til sá grínisti sem er alltaf fyndinn á hverri einustu sekúndu á sýningu. Mig er farið að gruna að stór hluti íslenskra áhorfenda séu hreinlega að gera sér upp hlátur. Ég er ekki viss af hverju það stafar en er með nokkrar tilgátur:
[listi]
1) Áhorfendur skilja ekki ensku en vilja ekki svekkja fræga uppistandarann og hlægja því að hverju sem er til að vera örugg um að móðga hann ekki
2) Flestir áhorfendur eru í raun algerlega húmorslausir en eru óöruggir yfir því og hlægja því dátt að öllu, af ótta við að einhver komist að hinu skelfilega leyndarmáli sem gæti dregið úr því hversu 'kúl' eða 'hipp' þau eru.
3) Íslenskum áhorfendum finnst allt fyndið og eru þ.a.l. fífl.[/listi]

Af hverju er ég að básúnast út í of mikinn hlátur áhorfenda? Er hlátur á hlátursskamkomu ekki bara gott mál? Jú, það ætti ekki að koma að sök svona almennt séð en það gengur ekki þegar snillingar eins og Eddie Izzard eru á sviði.

Grínarar hafa mismunandi stíl. Sumir hafa skrifað brandara sína upp, lært þá utan að upp á staf, æft tímasetninguna á þeim og rétt kómískt hljómfall og þess háttar. Gott dæmi um svoleiðis grínara gæti verið Jay Leno, þar er mest skrifað þó impróið sé stundum notað eftir 'tilfinningunni' í salnum. Eddie er ekki svoleiðis. Hann virðist spinna miklu mun meira en aðrir þekktir grínarar. Hann talar kannski í kringum einhver þemu en er í raun bara blaðrandi á sinn óborganlega hátt út sitt sjóv, oft er hann eins og maður með athyglisbrest á afar háu stigi, ætlar að tala um eitt en leiðist síðan út í allt annað sem er líka bráðfyndið. Fyrir svona impróvíserandi grínara skipta viðbrögðin úr salnum mun meira máli. Eddie getur auðveldlega brugðist við salnum og impróvíserað í kringum það sem mælist best fyrir hjá áhorfendum.

Mælikvarði á árangur grínara er hlátur. Hvað gerir grínari ef hann stendur frammi fyrir því að allt sem hann segir er fyndið? Hvernig á hann að spila með salinn og finna leiðina að hinu Fyndna ef hann getur ekki heyrt mun á einhverju sem er raunverulega ekki fyndið og það sem áhorfendum finnst raunverulega fyndið? Þannig voru íslensku áhorfendurnir. Maður sá greinilega á Eddie að honum var farið að finnast þetta vera frekar fáránlegt. Hann eyddi ótrúlega löngum tíma í að herma eftir hljóði sem myndast við að draga frá tjaldi. Alltaf var hláturinn gríðarlegur þegar það var deginum ljósara að þetta var ekkert fyndið, kannski fyrst en eftir smilljón skipti; nei. Það var augljóst á svipnum á honum að honum fannst þetta vera nokkuð asnalegt og var lengi að leika sér að þessu, kannski bara af því honum fannst þetta hreinlega furðulegt.

Íslendingar þurfa greinilega að læra listina að hlægja. Miðað við allar þær standöppmyndir sem ég hef séð virðist þetta ekki vera vandamál erlendis. Ef grínisti segir lélegan brandara þá er annað hvort ekki hlegið eða gefinn svona kurteisishlátur. Þetta er afar mikilvægt tæki til að segja grínistanum hvernig hann stendur sig. Ef honum gengur illa, þá reynir hann náttúrulega að bæta sig. Hlátur er merki. Þess vegna var Izzardinn langt frá sínu besta því hann fékk engin déskotans merki! Það þótti allt fyndið!

Þið asnar sem haldið að það eigi að hlægja óskaplega að öllum bröndurum frægra grínista. Hættið því. Það er misskilningur. Þið móðgið engann með því að sleppa að hlægja eða hlægja bara kurteisishlátri þegar lélegur brandari flakkar út í loftið. Þvert á móti bætið þið sýninguna með því að hlægja 'heiðarlega' þegar brandari er fyndinn. Grínistinn fær tilfinningu fyrir því hvert hann á að halda í gríninu og sjóvið verður miklu betra.

Eddie fær fimm stjörnur fyrir að vera snillingur. Íslenskir áhorfendur fá mínus þrjár fyrir að eyðileggja fyrir snillingi með glórulausum hlátri, óháð gæðum grínsins.

   (31 af 60)  
3/12/04 13:02

Ég sjálfur

Mjög góð lesning sem skal höfð í huga. Ég hef að vísu ekki farið sjálfur á svona 'standöpp' en hef séð nokkur í sjónvarpinu. Þar er greinilegt að t.a.m. Bandaríkjamenn 'kunna' að hlægja. Þeir hlægja ekki stanslaust út í gegn eins og þú lýsir hér að ofan. Þar er hlegið að því sem er fyndið. Oft er grínistin að byggja upp brandarann og undirbúa 'pöntslænið'. Þá á ekki að hlægja að öllu sem hann segir á meðan, heldur leyfa honum að gera sitt. Uppkreistur hlátur er ekki skemmtilegur.

3/12/04 13:02

Tina St.Sebastian

Ég fór á báðar sýningarnar og hló að því sem var fyndið. Það sem skemmdi fyrir mér seinni sýninguna var stúlkan á svölunum, sú sem stöðugt var að kalla fram í. "We only have bad wasps in Iceland!" "Winnie the Pooh!" Oj bara hvað ég þoli ekki svona.

3/12/04 13:02

Stelpið

Já, sammála ofanrituðu... ósköp langaði mig mikið til að hrinda þessu kófdrukkna stelputrippi fram af svölunum. Oj henni.
En Eddie var góður. Hvernig var það, var mikill munur á fyrri og seinni standöppi hjá honum?

3/12/04 13:02

Tina St.Sebastian

Ekkert voðalega mikill, þó fannst mér seinni sýningin ívið betri (fyrir utan framíköllin, auðvitað). Upphitararnir voru líka fyndnari á seinni sýningunni.

3/12/04 13:02

Hakuchi

Stúlkan á svölunum er sérkapítuli út af fyrir sig. Skelfileg manneskja. Hins vegar er slíkt fólk alþjóðlegt vandamál og hafa grínarar oft nokkur vopn til að taka á þeim. Eddie tók vel á þessari. Eftir stendur að ég tel að óstöðvandi hlátursorgía yfir öllu efninu hafi komið niður á gæðum sýningarinnar. Engu að síður er Eddie snillingur. Ekki spurning

3/12/04 13:02

Skabbi skrumari

Ég komst ekki á þetta sjóv... en efast ekki um að Kóngurinn hafi rétt fyrir sér...

3/12/04 13:02

Tigra

Það var nú líka fólk með frammíköll á fyrri sýningunni.. einmitt svona Winnie the Pooh náungi.. og fleiri asnaleg comment.

3/12/04 14:00

Hermir

Hverjir hituðu upp segiru? Hvernig komu þeir út? Var hlegið jafn gróflega mikið af þeim? Eru þeir ekki mælikvarðinn á það sem íslendingar eru vanir? Er þá ekki eðlilegt að það sem er 1000 sinnum betra efni fái 1000 sinnum meiri hlátur?

En hvað segiru? Hverjir hituðu upp?

3/12/04 14:00

Vamban

George Carlin á klakann!

3/12/04 14:01

Hakuchi

Hermir: Það var svipuð hlátursroka hjá þeim íslensku, hvort sem það var fyndið eður ei. Elton John heitir Pétur Jóhann, að mig minnir, þessi sem var í 70 mín, með gleraugun. Hinn er gaurinn úr fóstbræðrum, þessi sem kom einna síðastur inn í hópinn ásamt fitubollunni.

3/12/04 14:01

Tina St.Sebastian

Þorsteinn Guðmundsson. "Ég er ekkert sellát þó ég hafi leikið í einhverjum auglýsingum fyrir KB-banka...ég meina, það er góður banki. Örugglega. Ég hef aldrei komið þar inn..."

3/12/04 14:01

Hakuchi

Aaakkúrat, Þorsteinn. Hann var fínn kallinn. Betri en Pétur, því hann virðist alltaf vera með sömu rulluna (ég er svo ljótur; sem er svosum satt).

3/12/04 14:01

Ugla

Eddie var allavega æðislegur.
Hinir tveir voru bara hrein og tær skelfing. En það eru alltaf einhverir sem hlægja að typpi, píka og ríða bröndurum.

3/12/04 14:01

Hakuchi

Pétur Jóhann var með svoleiðis brandara, og var mun síðri. Ég man ekki eftir að Þorsteinn hafi verið með neinn slíkan brandara. Hann kom með fínnt komment á Bubba, KB banka og sjálfan sig.

3/12/04 14:02

Steinríkur

Fór á seinni. Pétur Jóhann fannst mér ekkert spes frekar en á fyrri uppistöndum, en Þorsteinn átti marga góða punkta.

Izzard kann alveg að skipta yfir í eitthvað fyndnara ef salurinn er ekki sáttur, en þegar allir hlægja yfir öllu er svolítið erfitt að koma fram.
[Faðmar 4 diska Izzard-safnið sitt]

3/12/04 15:01

Hakuchi

Nákvæmlega Steinríkur! Við erum á sömu bylgjulengd hvað þetta varðar.

[Horfir á meistaraverk Eddie frá uppistandi í San Fransiskó - þar sem fólk kann að hlægja.]

3/12/04 16:00

Tina St.Sebastian

"Exchanging drugs money for favours...and drugs probably"

3/12/04 16:01

Litla Laufblaðið

úúú hvað var nú samt gaman, hann er svo yndislega fyndinn... var einmitt að horfa á circle um daginn og hef verið með eftirfarandi á heilanum síðan "guns don't kill people, people do! ...and monkey's do too (if they have guns)"

4/12/04 02:01

Nornin

Ég er svo aftarlega á standup comedy merinni að ég kynntist Eddy í síðustu viku [Roðnar upp fyrir haus]. Var í heimsókn fyrir norðan og fékk að sjá 2 spólur með hans efni. Tær snilld!
Verð ekki söm.

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.