— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 4/12/04
Bjarmalandsför

Á morgun hefst ferðalag. Takkakýlir mun ferðast á einhvern stað sem heitir „Norðurland.“ Handan Esjunnar segja sumir. Fyrir borgarbarnið, sem stafþrykkir er svo sannarlega, er þetta óvissuför. „Norðurland“ er yfirrituðum hulin ráðgáta. Einungis óljós minning úr æsku. Sírenan sem kallar rafritara út í óbyggðir hefur hughreyst hann og lofað að villilendurnar geymi engar hættur af nokkru viti. Borgarbarnið er ekki sannfært, hafandi heyrt hryllingssögur um tröll, skrýmsl og útilegumenn á stöðum eins og Breiðholti, Selfossi og Akureyri.

Sjálfur getur ritari staðfest að fyrir nokkrum árum neyddist hann, sem aumur handlangari múrara, til að vinna við sementsburð í eymdarbæli sem kallast Mosfellsbær. Sá bær er á jaðri siðmenningar. Ónot og hrollur fór um borgarbarnið á þeim vanhelga stað og gekk dagbókarritari ekki um án vopna. Til öryggis.

Engu að síður verður stálvagninn búinn til farar á morgun og haldið í þessa nokkurra daga för út í óvissuna. Samkvæmt leiðbeiningum ber höfundi að finna eitthvað sem ber heitið „þjóðvegur 1.“ Án efa goðsagnakennd slóð til heljar. Skjáskrifari vonast einungis til að finna leiðina af þeim veg glötunarinnar. Vopnum hlaðinn; með vígt vatn, Vídalínspostillu, skotvopn, kasthnífa og sjúkrabirgðir heldur blekberi á vit ævintýranna í stríðsvagni sínum, reiðubúinn til að mæta hverju sem er. Megi borgaraleg dyggð skjalskríbents haldast hrein í barbaríinu.

   (30 af 60)  
4/12/04 02:00

Heiðglyrnir

Góða ferð kæri Konungur og komdu heill heim.

4/12/04 02:00

Hermir

Þetta félagsrit er "Baggalútus Extractus".

BRAVÓ!

4/12/04 02:00

Gvendur Skrítni

Ef þú lendir í klóm radarvopnaðra vegkantsskrímsla mæli ég með því að beita vígða vatninu á þau og ef það virkar ekki, kasthnífunum.

4/12/04 02:01

Ívar Sívertsen

já, eða bara því að hér sé aðallinn á ferð og hljóti að njóta þess að mega bruna sem fljótast til þegnanna.

4/12/04 02:01

Haraldur Austmann

Ef þú nefnir ekki Egil Helgason á nafn, muntu hólpinn verða.

4/12/04 02:01

Hexia de Trix

Berðu hulduverum landsins kveðju mína, og þær munu ekki angra þig.

4/12/04 02:01

Fíflagangur

Þú ert velkominn í kaffi og kleinur á leiðinni. Eða bara páskalambið ef þú verður um kvöldmatarleitið.

4/12/04 02:01

Nornin

Útálandi er nú ekki alslæmt.
Og ekki skemmir ef maður fær boð um kaffi og meðí á leiðinni.

4/12/04 02:02

Rasspabbi

Skál Haki... megi ákavítisflaskan þín aldrei tæmast!

4/12/04 02:02

Ég sjálfur

Stórskemmtileg lesning.
Góða ferð og komdu heill heim.

4/12/04 02:02

Vladimir Fuckov

Eigi eru horfur á hálku en ef það breytist getum vjer látið setja plútóníum í viðeigandi vegi í hvelli sje þess er óskað. Að öðru leyti: Góða ferð og skál ! [Sýpur á fagurbláum páskadrykk]

4/12/04 03:00

B. Ewing

[Blandar gulum lit í drykkinn hjá Vladimir til að gera hann páskalegri]
[Vegna bláa litarins sem fyrir var verður drykkurinn hinsvegar grænn]
Nú... [læðist hljóðlega á braut]

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.