— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 1/11/03
Allir voru að kúng fú slást

36 Deadly Styles

Ég horfði á kvikmyndina 36 Deadly Styles. Hér er um að ræða myglaða kúng fú mynd. Plottið er hefðbundið kúng fú plott. Illur kúng fú kall ætlar að drepa aðra góða kúng fú kalla og er með hækjumenn með sér til að ná því fram. Eldri meistari, góður, þarf að berjast við hann og er með ólátabelg sem lærisvein og þarf hann að þroskast og eflast til að geta drepið vonda kallinn.

Myndin ber með sér marga frábæra kosti gamalla kúng fú mynda. Myndgæðin eru arfaslæm, hljóðið ömurlegt og talsetningin alveg yndislega fáránleg. Reyndar er talsetningin óvenjulega illa samræmd við talið og er það gott. Kvikmyndatónlistin er að sjálfsögðu stolin frá öðrum Hollywood myndum samvkæmt góðri Hong Kong hefð. Það dirfskuspor er meira að segja tekið að nota Bleika Pardusarlagið.

Leikendur. Tja eina ástæðan fyrir því að ég leigði þessa mynd var snillingurinn og ofurfólið Hwang Jang Lee (sjá mynd, takið eftir stórkostlegu og fólskulegu skegginu. Hann var alltaf með þetta skegg og er það fólskulegasta skegg kvikmyndasögunnar)

Hwang leikur vonda kallinn og skarar fram úr með snilldartöktum enda er hann mjög líklega eini Sparkguðinn á þessari vetrarbraut. Nóg er af slagsmálum í myndinni en þau eru ekki sérlega vel kóreógröfuð. Stíllinn er heldur hægur, í anda Shaw mynda, en ekki nærri því eins hraður og vandaður og hann var orðinn undir nýrri kynslóð í lok áttunda áratugarins (þökk sé Sammo Hung, Yuen Woo Ping, Jackie Chan ofl.) en þessi mynd er gerð 1980.

Ung kona í myndinni stóð sig líka mjög vel í slagsmálum en hún mun heita Jeanie Chang. Það var líka stórkostlegt að sjá sjálfan Bolo Yeung sem einn af aðal hækjumönnum illmennisins en hann er með einhverja fáránlegustu hárkollu sem sögur fara af í þessari mynd. Hárkollan er einhvers konar hnýtt/dreadlock/skúringarkústuskolla. Ótrúlegt alveg. Fyrir þá sem ekki vita er Bolo Yeung vöðvafjall með kúng fú kunnáttu en hann fékk aldrei neina virðingu í Hong Kong. Í flestum myndunum sem hann gerði þar lék hann vondan kall sem heldur að hann sé bestur út af þykkum vöðvum sínum en er síðan laminn í spað af hetjunni. Hong Kongar bera enga virðingu fyrir vöðvum, þeim mun meiri fyrir tækni og hraða. Bolo fór varð hins vegar nokkuð vinsæll í amerískum B-myndum á 9. og 10. áratugnum. Kaninn er sökker fyrir steravöðvum.

Allt í allt er þetta meðalgóð mynd. Plottið er hefðbundið. Hwang Jang Lee er listamaður og flottur að vanda. Bardagar eru heldur illa sviðsettir, fyrir utan einn bardaga sem var virkilega flottur en hann var klipptur inn í mitt aðalbardagaatriðið og var með mönnum sem komu myndinni ekki nokkurn skapaðan hlut við (ég elska hong kong myndir, kæruleysið er svo yndislegt). Við fáum að sjálfsögðu klassískan Hong kong endi á myndina þegar myndin endar svo til einni sekúndu eftir að aðalvondikallinn er sigraður. Það er alltaf kúl, enginn fjandans eftirmáli, um leið og gamanið er búið...the end.

Myndin fengi tvær og hálfa stjörnu en sjáflvirka kerfið gefur ekki kost á því og er hún því námunduð upp í þrjár af virðingu við meistara Hwang.

   (35 af 60)  
1/11/03 13:02

krumpa

Áhm.Það næsta sem ég hef komist Kúng fú mynd er að horfa á karate kid II og það var bara af því að, eins og Frelli orðar það, Ralph Maccio = æði.

Hins vegar, eftir að hafa lesið þennan fína pistil, er aldrei að vita hvað gerist í næstu heimsókn minni á Dalveginn.

1/11/03 13:02

krumpa

Eða er það Dalbraut ? Er rugluð á þessum tíma dags og á að auki að vera að lesa eitthvað annað en Baggalút...Jamm, sennilega Dalbraut !

1/11/03 14:00

Hilmar Harðjaxl

Verð að sjá þetta. Fær toppforgang.

1/11/03 14:00

Hakuchi

Bendi í framhjáhlaupi á gamlar kúng fú myndir í hærri gæðaflokki: Prodigal Son, Warriors Two, Drunken Master, Magnificent Butcher ofl.

1/11/03 14:00

Hilmar Harðjaxl

Ég er eiginlega meira að leita að einhverju í hina áttina.

1/11/03 14:00

Goggurinn

Ef þú vilt sjá alvöru kung fu mynd bendi jeg þjer hiklaust á Kung Pow: Enter the Fist.

1/11/03 14:00

Hakuchi

Æ nei. Kung Pow var svosum fín en hún er alger óþarfi. Gömlu góðu mygluðu kúng fú myndirnar eru svo yndislega lélegar að það þarf ekki að gera grín af þeim. Þær eru grín í sjálfu sér, plús yfirleitt góð slagsmál. Gerist ekki betra.

1/11/03 14:01

Limbri

Já þetta kalla ég sko gagnrýni. Afar gott og vandað hjá þér Hakuchi. Endilega meira af þessu.

-

3/12/04 09:02

Magnús

Ekki skil ég hvernig þú nennir að hanga yfir þessum myndum, þær geta verið skemmtilegar í svona tvær sekúndur en svo verða þær þreytandi. Ég skil ekki Kung Pow, það eina sem þessar gömlu hafa er að það getur verið fyndið hvað þær eru lélegar en Kung Pow reynir að vera fyndin á nákvæmlega sama hátt, bara viljandi. Alveg hryllilega heimskulegt, fyrir utan það að Kung Pow er ein sú lélegasta mynd (í hvaða skilningi sem er) sem gerð hefur verið.

3/12/04 13:02

Hakuchi

Þú skilur bara svo lítið Magnús minn.

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.