— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 9/12/03
Nærbuxnaskólp og vindlingar

Koffein og nikótín sem samskiptamiðlar

Ekki líkar mér við kaffi og þaðan af síður sígarettur. Þó er mynd sem hyllir þetta tvennt í Háskólabíói þessa dagana bara fjandi góð.

Myndin heitir Coffee and Cigarettes, eftir Jim Jarmusch og er í raun engin mynd. Þetta er samansafn stuttmynda sem hann hefur dundað sér við að taka síðustu tuttugu árin eða svo. Allar hafa myndirnar sömu uppsetningu. Fólk á kaffihúsi að drekka kaffi og reykja sígarettur. Leikendur eru fólk sem hefur verið að vinna með Jim í gegnum tíðina eða bara vinir og kunningjar. Margir frægir koma við sögu, stundum leika þeir sjálfa sig, eða einhverja í líkingu við sjálfa sig.

Ætli heildarmyndin sé ekki í raun lágstemmd stúdía á hvunndagslegum samskiptum á félagsheimilum fullorðna fólksins; kaffihúsunum. Oft þekkja karakterarnir ekki hvora aðra og hafa í raun ekkert annað að tala um, annað en kaffi og sígarettur. Og það er gott. Þarna eru þessi tvö ávanabindandi fyrirbæri sýnt sem eitthvað meira og merkilega en þau eru í raun; eins konar efniviður í sammannlega reynslu sem tveir ókunnugir geta tengst við og verið sammála um að njóta. Minna getur oft orðið upphafi af fagurri vináttu.

Myndirnar heppnast misvel. Sumar eru sprenghlægilegar, aðrar hálf vandræðalegar. Stundum er leikið með ímynd þeirra stjarna sem leika í myndunum. Það kemur hvað best fram í myndinni með Iggy Pop og Tom Waits, þar sýna þessir frábæru töffarar á sér skemmtilega og heldur óvænta hlið á sér, þó þeir séu ekki að æpa þær hliðar upp í von um hlátrasköll. Það kemur vel út. Þátturinn með Bill Murray og Wu Tang Clan frændunum RZA og Hrmmftmmf (man ekki hvað hann heitir) heppnaðist líka afar vel sem og lokaþátturinn með gömlu köllunum. Breski þátturinn með Alfred Molina og Coogan er sprenghlægilegur (þar er siðprýðin og menningin upp á sitt besta því þeir drekka te).

Sumir þættir missa marks eins og White Stripes þátturinn þar sem systkynin/elskendurnir (eða whatever) sötra kaffi og pæla í rafmagni. Það eina sem stóð upp úr þeirri mynd var glæsilegt málverk af Lee Marvin sem hékk fyrir ofan þau. Lee, steindauður og á lérefti, lék systkynin langleiðina út af tjaldinu. Djöfull langar mig í þetta málverk. En málverkið er án efa tilvísun í leynilegt samfélag sona Lee Marvin (SOLM) sem Jim Jarmusch, Tom Waits, Nick Cave og fleiri eru taldir eiga aðild að.

Allt í allt; mistæk en góð mynd. Fín afslöppun. Kannski ég fái mér kaffi og sígarettu og reyni að vera kúl.....naaahhh, þetta er nú bara bíómynd.

   (41 af 60)  
Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.