— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 31/10/03
Skegg Charles Bronson

Yfirvaraskegg með karakter

Skegg Charles Bronsonar er án efa best heppnaða skegg kvikmyndasögunnar og skýtur öðrum frægum skeggjum ref fyrir rass. Er þá verið að tala um öndvegisskegg á borð við skeggið sem notaði Charlie Chaplin, hið fræga skegg sem réð Tom Selleck sem sýningarbrúðu, að ógleymdu hinu alræmda Burt Reynolds skeggi.

Skegg Charles Bronsonar fann hýsil í óþekktum leikara að nafni Charles Buchinsky, stóískum manni af litháenskum uppruna. Skeggið tók nokkur ár í að þróa Buchinsky og fullmóta sem kvikmyndastjörnu. Skeggið gaf honum eftirnafnið Bronson og á sjöunda áratugnum fór hagur skeggsins að vænka og á þeim áttunda var það orðið frægasta og vinsælasta hasarhetja hvíta tjaldsins (ásamt Charles Bronson).

Hér er skeggið, með Charles Bronson fyrir aftan sig, í þekktri kvikmynd. Gott ef þetta er ekki löðrandi klassíkin Mr. Majestyk:

Skeggið er einstakt í sinni röð sökum víddar þess og óbreytanleika. Það skapaði sig sem sígilt form sem hentaði þó einungis einni mannveru almennilega, téðum Charles Bronson. Takið eftir fagmannlega mótuðu skarðinu undir nefbroddi Bronsons, þetta skarð sker sig úr minniháttar skörðum og myndar heildarsvip þess með sérstakri skírskotun í Tómið í taóískri hugsun sem miðpunkt persónusköpunar, en Tómið er þá helgidagurinn sem myndast. Engu skeggi hefur náð að skapa eins áhrifaríka yfirlýsingu um kjarneðli tilvistar skeggsins.

Ekki má gleyma uppstreymisboganum sem myndast upp úr tóminu og nær undir nasir; ógleymanleg tilvísun til sigurs mannlegrar vitundar (straumurinn leiðir að heila) á ógleymi dýrsvitundarinnar. Verða þessi skilaboð þeim mun áhrifaríkari er haft er í huga þá kaldhæðnu staðreynd að leikarinn Charles Bronson lék yfirleitt rólyndismann sem lét þó dýrseðlið ná tökum á sér undir lokin og stútaði öllum vondu köllunum. Má gefa til kynna að skeggið hafi viljað afbyggja hugmyndir um hinn upplýsta mannshuga sem hafnar ofbeldi og skrykkjótta leið mannsins að friði, innra með sér og utan.

Höfuðeinkenni skeggsins er án efa mjóleiki þess og lengd. Skeggið hefur greinilega lagt mikið í að finna réttan einstakling með nógu langan munn til þess að henta því. Þessi ákvörðun skeggsins verður að teljast afar djörf og frumleg í ljósi þess að stór munnur getur hæglega haft skelfilegar afleiðingar. Ímyndi lesendur sér bara munnrisann Mick Jagger, ellegar Steve Tyler með svona skegg. Snilldarbragð Bronsonskeggsins var að finna mann sem var svo yfirvegaður og þögull að hann sagði aldrei nokkurn skapaðan hlut nema eina og eina setningu, þá helst áður en hann tortímdi andstæðingum sínum, þannig að áhorfendur höfðu um nóg annað að hugsa en stóran munninn talandi og um leið að grafa undan valdi skeggsins. Ennfremur verður að taka fram að mjóskegg eru yfirleitt mjög hættuleg fyrirbæri fyrir skegg sem leitast eftir svalleika í tilgangi sínum. Slík skegg eiga á hættu að verða það sem kallað er perraleg og gott ef ekki eilítið hallærisleg fyrir vikið. En þar kemur enn einu sinni fram hversu vandað val skeggsins var á hýsli. Engum manni á jörðu dytti í hug að Charles Bronson væri perralegur.

Að lokum er vert að benda á það framúrstefnulegasta í skeggi Bronsonar; örlítið sig skeggsins niður fyrir munnvik. Þetta er án efa einhver mesta uppfinning skeggsögunnar, með þessu eina skrefi tókst skegginu að breyta skeggstíl sem yfirleitt er réttilega talinn hallærislegur (oft nefnt hormotta) og breyta því í einn af hornsteinum "cool"-sins á sjöunda og áttunda áratugnum. Þess má geta að þessi munnvikaniðurfærsla var langt á undan sínum tíma og var án efa eitt það mikilvægasta sem gerði Charles Bronson að stórstjörnu.

Skegginu tókst nokkurn vegin frá upphafi sjöunda áratugarins að finna sína fullkomnun. Þó var það aldrei hrætt við að gera smávægilegar tilbreytingar af og til, þó alltaf sneri það aftur í sína kjörstöðu. Það var heldur ekki feimið við að prófa sig áfram með aðra hýsla og yfirgaf það stundum Bronson í leit að öðrum verðugum burðardýrum (minnkaði þá Bronson iðulega við brotthvarf skeggsins). Helstu afrek þess, utan Bronsons, var að setjast á sparkmeistarann Hwang Jang Lee sem við það fékk undrakraft sem gerði hann bæði að mesta illmenni kung fú myndasögunnar sem og að mest framúrskarandi sparksnillingum sem jörðin hefur alið. Má segja að skeggið hafi þarna verið að fá útrás fyrir myrku hliðina í sér því Lee lék einungis vonda kalla á sínum ferli, utan eitt eða tvö skipti, en þá var hann skegglaus. Fyrir áhugasama um hliðarferil skeggsins á Hwang Jang Lee má benda á meistaraverkin Hellz Windstaff, Drunken Master, Invincible Armour, Duel of Ultimate Weapons o.s.frv.

Hér er mynd af skegginu með Hwang Jang Lee sem pallbera. Takið eftir því hvernig það hefur lagað sig meistaralega að japönskum uppruna leikarans, með beinum tilvísum í kínverskt umhverfið:

Því miður varð skeggið og heimsbyggðin öll fyrir skelfilegu áfalli er leikarinn Charles Bronson lést fyrir skömmu. Skeggið ákvað þá, fyrst það fann engan verðugan arftaka, að setjast í helgan stein og býr nú í góðu yfirlæti í Miami, Flórída.

Það eina sem við getum gert nú, er að horfa á meistaraverk skeggsins á vídeó og vonað í einlægni að verðugur arftaki finnist, einhver sem er svo lærður í kúli að skeggið finni sig knúið til að snúa aftur.

Góðar stundir.

Hér í lokin er mynd af skegginu og Bronson að berja mann, blessuð sé minning hans (þ.e. Bronsons, ekki vonda kallsins):

   (58 af 60)  
Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.