— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 1/12/05
Íslandsvinir

Um lágmörkun misvísandi umfjöllunnar erlends frægðarfólks

Íslendingar virðast hafa einstaklega mikinn áhuga á að spegla sig í fögrum ummælum frægra útlendinga um land og þjóð. Hvert orð hvaða Íslandsvinaslúbberts sem hefur afrekað meira en tvo dálksentímetra í erlendum stórblöðum er rannsakað gaumgæfilega eftir að hann hefur heimsótt þetta Séðogheyrtsker og þau greind niður í kjölinn með tilliti til áhrifa þeirra á ímyndarlega stöðu þjóðarinnar á erlendum grunni. Ef viðkomandi fræðgarhöldi verður á þau mistök að segja ranga hluti sem varpa bletti á spegilmynd íslensku smásálarinnar verður allt spinnegal. Oft skiljanlega. Og þó.

Umræðan um blaður erlendinga um Ísland er drepleiðinleg. Því er það allra hagur að hún verði sem minnst. Ein leið væri að banna frægum útlendingum að koma hingað en þá væri ekki hægt að monta sig yfir að hafa séð þennan og hinn frægan á Laugaveginum, hvað þá að fá af sér mynd í faðmlögum með viðkomandi í Séð og Heyrt. Það væri alveg skelfilegt.

Stafþrykkir vill því koma á framfæri tillögu sem ætti að geta lágmarkað hættuna á æsingi almúgans yfir ummælum frægðarfólks, sem og forðað sælubretum frá því að vera grýttir af íslenskum þjóðrembumúgi ef þeir dirfast að láta sjá sig á skerinu á ný.

Tillagan felur í sér að málsmetandi aðilar og stofnanir í ferðaiðnaði myndu taka saman leiðbeinandi tilmæli fyrir frægt fólk um hvernig það eigi að fjalla um Ísland eftir heimsókn sína. Þar verði leiðbeiningar um að tala um Íslendinga og drykkjukapp þeirra á jafnréttisgrundvelli, þeir eigi að mæra íslenska hestinn og Jónas Hallgrímsson, dást að íslenskri náttúru og fjalla um dúlúð hennar og kynngimagn, umræða um meint lauslæti íslenskra kvenna yrði bönnuð ellegar fjallað um skækjuhátt karla til jafns við konur, fjalla eigi um íslenska matargerð á glettinn en virðingarverðan hátt, mæra bláa lónið og Þingvelli, minnast á hreina loftið og smekklegar lopapeysur, stórkoslegt ferskt fiskmeti, undur íslenska lambsins og að lokum lofa harðgerða íslenska þjóðarsál sem hefur lifað af á þessu skeri alla þessa tíð og draga fram hversu sérstök, frumleg og æðisleg þessi þjóð er í raun og veru.

Í bæklingnum þyrfti líka að koma fram að ef viðkomandi aðili fer út fyrir mærðarpredikunina eigi hann á hættu að sármóðgaðir, froðufellandi íslenskir þegnar, hvar sem er í heiminum (og þeir eru alls staðar), myndu að öllum líkindum ganga bersersgang á viðkvæmustu líkamshlutum viðkomandi.

Gangi tillagan eftir og takist að sannfæra frægu útlendingana um að fylgja leiðbeiningum verður tal þeirra um land og þjóð staðlað og engar nýjar upplýsingar sem gætu stuðað ímyndarnæma þjóðina koma fram og verður því engin ástæða fyrir umræðu Íslendinga um umræðu erlendinga um Íslendinga.

Einfalt.

   (11 af 60)  
1/12/05 08:02

Offari

Ísland best í heimi. Trú engu öðru en góðu upp á landið mitt, Tillagan er góð en betra væri að heilaþvo þá þannig að þeir væru jafn sanfærðir og ég. Takk

1/12/05 08:02

Kroppinbakur

Eftir að hafa komið til 16 þjóðlanda í 3 heimsálfum þá skil ég ekki þessa ótrúlegu sjálfsánægju meirihluta þess fólks sem norpar hér á þessu útnára skeri norður í rassgati veraldar. Vil bara láta ykkur vita að ef að þetta sker sykki í sæ í nótt og ekkert yrði eftir þá myndi það ekki hafa nokkur minnstu áhrif á veröldina. Yrði kannski frétt í 1 dag á bls. 6 í einhverju erlendu bæjarblaði en svo væri þetta gleymt um leið.
Offi minn þú verður að fara að skreppa út úr hreppnum svo þú farir að átta þig á að veröldin er svo svo miklu merkilegri en þetta vindbarða skítasker sem er stjórnað af glæpamönnum sem eru kosnir af fæðingarhálfvitum sem halda með stjórnmálaflokkum eins og fótboltaliði. Alveg sama hve oft lýðurinn er tekinn þvers og kruss í þurrt rassgatið, alltaf skal hann skreiðast aftur í kjörklefann og krossa ,,rétt". Enda er ég að safna dollurum til að eyða því sem ég á eftir ólifað erlendis. Þar ætla ég að drekka og dópa mig í hel svo ég geti gleymt þeirri ógæfu minni að hafa fæðst hér.

1/12/05 08:02

Vladimir Fuckov

Afar fróðlegur pistlingur. Þó gleymist eitt vandamál: Fyrst þarf að ná opinberri samstöðu um hvaða mynd skuli sýna útlendingum af landinu. Um þetta er eins og er mikill ágreiningur, sbr. þá staðreynd að Flugleiðir/Icelandair/FL Group (eða hvað það nú heitir á nákvæmlega því augnabliki er þetta er ritað) hafa sýnt mikla viðleitni til að breiða út þá mynd af landinu er nú er verið að hneykslast á (graðar, blindfullar og fagrar konur) í kjölfar ummæla Tarantinos. Síðan þarf að koma á strangri ritskoðun og ákæra alla er gefa útlendingum aðra mynd af landinu fyrir andíslenskan áróður, þ.e. svipaðar aðferðir og beitt var í Sovjetríkjunum á sínum tíma. Refsingin gæti í samræmi við það t.d. verið löng vist á illa búnu geðveikrahæli.

Allir útlendingar er hingað koma, eða a.m.k. þeir er frægir teljast, fá síðan fylgdarmenn/konur (jafnt einkennisklædda sem óeinkennisklædda) er fylgja þeim hvert fótmál og sjá til þess að ekkert er svertir ímynd Íslands komi fyrir augu þeirra eða eyru. Sömuleiðis þarf að stjórna því nákvæmlega hvaða heimamenn þeir fá að hitta.

Aðferðum sem þessum hefur verið beitt með afar góðum árangri í Norður-Kóreu og því lítið um óæskilega gesti þar.

Eina vandamálið er að þetta kemur eigi í veg fyrir að gestir þeir er hingað koma breiði út lygar og óhróður um Ísland er heim er komið. Því þarf að finna áhrifaríkar leiðir til að hindra slíkt og eru þar með öll vandamál leyst. Liður í slíku gæti verið að taka á laun upp öll orð og athafnir gesta er hingað koma svo unnt sje að kæra þá fyrir lygar og meiðyrði ef á þarf að halda.

Síðan má auðvitað banna alfarið komu útlendinga hingað en sú leið hefur í huga vorum ýmsa afar stóra ókosti og kemur því alls ekki til greina.

1/12/05 08:02

gregory maggots

Já, almennilegt skítkast lýsir upp hvers manns sál.
Annars er ég sammála Hakuchi.

1/12/05 08:02

Ugla

Mér leiðist bara þetta ömurlega gaspur um lauslæti íslenskra kvenna. Aftur og aftur þarf maður að hlusta á þetta röfl. Lauslæti er orð sem er einhverra hluta vegna aldrei notað nema um konur og það skil ég ekki. Eru þessar "lauslátu" konur að sofa hjá hvor annarri eða er eitt stykki "lauslátur" karlmaður oftast skammt undan?

1/12/05 08:02

Ívar Sívertsen

Fræga útlendinga ber að líta á sem stórhættulega hryðjuverkamenn þangað til þeir hafa gefið landinu góða einkunn. Þessa aðila þarf að taka í sér tollskoðun þegar þeir koma til landsins. Þeim sé talin trú um að verið sé að koma í veg fyrir nákvæma skoðun en í leiðinni mætti hlaða þá gjöfum og afhenda þeim upplýsingar þær sem Hakuchi hefur tíundað hér. Reynist þeir svo brjóta gegn þeim lífs- og umgengnisreglum sem þeim eru settar skal gerð út sveit manna til að leiðrétta ummæli þau sem fræga liðið lætur út úr sér. Þetta gæti virkað vel og losað okkur við „DIRTY WEEKEND - Bankok norðursins“ stimpilinn.

1/12/05 08:02

Hakuchi

Varðandi ummæli Vladimírs um samræmda skoðun á hvaða mynd útlendingar eiga að hafa af landi og þjóð vísa ég til þess að í tillögunni er farið fram á að hagsmunaaðilar komi sér saman um slíka lýsingu.

Mér líst vel á tilskipaða fylgimenn/konur. Þeir gætu leitt fræga útlendinga á rétta staði sem gefa rétta mynd af landi og þjóð. T.d. hefði verið hægt að fara með Tarantino í útreiðatúr og fara síðan með hann í heimsókn til hinnar íslensku kjarnafjölskyldu í Grafarvoginum þar sem honum hefði verið boðið upp á vel eldaðan fisk í raspi. Tilvalið. Hægt væri að láta sérstaka stofnun sjá um slíka fylgdarþjónustu með rétt völdum einstaklingum sem eru þjóðinni til sóma.

1/12/05 09:00

feministi

Sko, sem fulltrúi s.k. lauslátra drukkinna íslenskra kvenna, langar mig að koma því á framfæri að ykkur, sómakæra karlmenn og fræga útlendinga, að við ætlum allar (flestar eða í það minnsta sumar) að mæta á djammið á næstu helgi og haga okkur vel, hvað sem það annars er.

1/12/05 09:00

Jarmi

Ugla: Kannski (og taktu eftir 'kannskinu') er bara lítill hópur karlmanna sem er að sofa hjá öllum þessum lauslátu konum. Ef það er þannig er ekki hægt að segja að íslenskir karlmenn í heild séu lauslátir.

En ég vil endilega fá sem mest af QT-um, þeir skapa umræðu á þessu annars dauða skeri.

1/12/05 09:00

Kondensatorinn

Líst vel á þessar tillögur. Það er ekki gott að erlendir menn fái að hnýsast og valsa hér um eftirlitslaust misjafnlega drukknir uppfullir af ranghugmyndum. Hver veit nema þeir hafi jafnvel meðferðis farsíma sem gerir þá enn hættulegri fyrir vikið. Útlendingastofnun hefur hér ærið verk að vinna svo stöðva megi óhróður og lygar útsendara hinna illu afla.

1/12/05 09:01

Jóakim Aðalönd

Ugla: Hvenær ætlarðu að skilja að konur sem sofa hjá mörgum körlum eru ,,pútur", meðan karlar sem sofa hjá mörgum konum eru töffarar.

1/12/05 09:02

B. Ewing

Hvaða Sveita Jón sagði að nýumræddur OT hafi áhuga á að segja frá hvað landið er fallegt og fólkið kurteist og vatnið gott og hve dásamlegt það væri að allir sæju dýrðina sem allra allra fyrst?
Hann fær ekkert fyrir það segja þessa hluti. Í henni Ameríku verður að halda áhorfendum við skjáinn með nógu krassandi og subbulegu efni. ÞESSVEGNA var bara talað um lauslæti og partýstand Íslendinga í þessum Kónan þætti. ÞESSVEGNA vildi Ópra ekki heyra neitt um hvað konur væru gáfaðar og sjálfstæðar á Íslandi. ÞESSVEGNA eru Kanagreyin enn sannfærð um að vera best og klárust í öllum heiminum og ÞESSVEGNA var umræðan sett í þann farveg sem heldur sjónvarpsglápururnum í Kanalandi frá fjarstýringunni, nógu krassandi og subbulegt er málið.

1/12/05 09:02

Nermal

Ég sæki kanski ekki réttu staðina, eða þá að ég er bara svona skelfilega óspennandi, en ég hef ekki mikið orðið var við allar þessar lauslátu íslensku konur. Á hvaða stöðum eru þær eiginlega??

1/12/05 09:02

Hakuchi

Þær eru ekki inni í fataskápnum þínum Nermal minn.

1/12/05 10:01

Holmes

Íslendingar hafa bara minnimáttarkennd...

...Oft þá bestu í heimi

1/12/05 10:01

Vladimir Fuckov

Eins og lesa má úr athugasemd vorri ofarlega í 'þræði' þessum er það einmitt það sem B. Ewing nefnir sem flóknast er að koma í veg fyrir. Auk þeirra möguleika er vjer nefndum þar (að taka á laun upp öll orð og athafnir gesta svo hóta megi lögsókn fyrir meiðyrði og/eða hóta birtingu óþægilegra atriða úr þeim upptökum) kemur til greina að múta einfaldlega gestunum til að breiða eingöngu út hina opinberu mynd af landinu. Hliðstæðar aðferðir eru stundum notaðar vestra, t.d. mun Bush-stjórnin (og eflaust fleiri ríkisstjórnir hjer og þar) stundum hafa borgað frjettamönnum undir borðið fyrir að spyrja 'rjettra' spurninga. Í því ljósi kemur einnig til greina að múta þáttastjórnendum.

Til viðbótar þessu þarf strangt eftirlit með innflutningi gesta á ýmsum tækjum, t.d. farsímum, myndavjelum o.s.frv., líkt og Kondensatorinn nefndi.

1/12/05 11:02

Kargur

Ég skil ekki hvaða áhyggjur þið hafið af hvað aðrar þjóðir halda um ykkur. Hér í Bandaríkjasveit er öllum nákvæmlega sama hversu lauslátar Íslenskar konur eru, eða hversu greind, falleg og skemmtileg þið eruð öll.

4/12/05 00:01

Kiddi Finni

Ég fór vist á röngum stöðum þegar ég var á Fróni og missti af þessum lauslátum konum. Nei, reyndar voru nokkrar í verbúðum hjá okkur en þær voru það vel undir lögaldri að maður um þritugt lét þær bara eiga sig. En burt séð frá því, Hakku og Volodja eru alveg á réttri línu. Upp og áfram með mannorð Íslands. Þó er öllum ekki alveg ljóst að hvernig fólk íslendingar eru, sumir telja að þar séu eskimóar...

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.