— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 9/12/04
Heyrðu snöggvast Snati minn

Um söngskemmtun Snoop Dogg

Fyrr í sumar varð ég þeirrar gleði aðnjótandi að hlýða á söngvaspjall hins geðþekka blökkumanns, Snoop Dogg. Snoop, eða Snati eins og ég kýs að kalla listamanninn, er hæfileikaríkur í meira lagi. Hin síðari ár hefur hann, auk tónsköpunar, framleitt og leikið í ófáum kvikmyndum. Enginn varð ósnortinn af túlkun hans á góðlega glæpaforingjanum Huggy Bear í gamanmyndinni Starsky og Hutch, og fágaður leikur í erótískum smámyndum hans ku einnig hreyfa við mönnum.
Ég verð að viðurkenna að þekking mín á tónsmíðum hans er brotakend og nær einkum yfir hans nýrri verk, sér í lagi samstarfverkefni með Íslandsvininum 50 Cent, en hvergi er betra að kynnast tónheimi músíkanta en á tónleikum. Því var ég fús að skilja við þann aur sem þurfti til að tryggja miða á tónleika Snata í Egilshöll 17. júlí síðastliðinn. Illu heilli var bróðir minn í rappinu vant við látinn þetta sunnudagskvöld, en með hæfilegum mútum og blíðmælgi tókst mér að kaupa mér glæsilegan fylgisvein, hávaxinn og vörpulegan.
Að venju voru minni spámenn og raularar látnir hita upp fyrir stórstjörnuna, að þessu sinni lítt þekkt rappsveit sem er að feta sín fyrstu spor á frægðarbrautinni (en hvurrar nafn enn hefur ekki fest í huga mér...Forgotten Lores?), reggísveitin sænskuskotna Hjálmar og Erpur Eyvindarson ásamt vinum og vandamönnum. Engin þessara sveita gladdi geð mitt, sú fyrsta, hvurrar nafn ég ekki man, fór þó sínu minnst í skapið á mér. Hjálma-meðlimir líta út eins og Róbínson og Frjádagur eftir dvölina á eyðieyjunni; innfallnar kinnar og átakanlegur skortur á sitjanda veldur því að mann langar að elda næringarríka máltíð handa þeim í skyndi og óhófleg hárspretta þeirra vekur upp brennandi þrá eftir sauðaklippum eða rúningsvél. Tónlist þeirra fór því að mestu fram hjá mér, með góðri aðstoð hljóðmanna Egilshallar, sem höfðu náð að stilla hljóðkerfið þannig að lítið sem ekkert heyrist í þeim sem á sviðinu voru hverju sinni. Um Erp og félaga er best að hafa sem fæst orð. Þeir fluttu sama þreytta prógrammið og í fyrra á tónleikum 50 Cent, nema hvað þeir höfðu skilið geðugu stúlkuna, sem bjargaði slökum ‘performans’ þeirra í fyrra, eftir heima. Það voru slæm mistök.
Eftir að þeir félagar höfðu í síðasta sinn ‘sungið’ um Kanamellur (það hugtak eitt og sér sýnir í hnotskurn aumkunarverða fordóma þeirra í garð íslenskra kvenna; fordóma sem e.t.v. voru að einhverju leyti skiljanlegir á hernámsárunum um miðbik síðustu aldar, en geta í besta falli kallast hlægilegir nú í upphafi 21. aldar) upphófst mikil bið. Æska landsins sem þarna var saman komin æstist mjög og tróðst um eins og fælnar skepnur. Léttklæddar smástelpur reyndu að komast nær sviðinu og smádrengir áttu erfitt með að hemja barnslega hrifningu sína yfir öllu þessu bera holdi. Snati lét bíða lengi eftir sér, svo lengi að útivistartími margra tónleikagesta var liðinn þegar fulltrúar kappans stigu á svið. Fyrstir og fremstir voru tveir sterklegir menn, sem minntu á meðalstórt norðlenskt fjall að sköpulagi, bæði hvað varðaði hæð og umfang. Báðir voru ábúðarmikilir í fasi og báru með sér alvörusvip þeirra manna sem eru tilbúnir að taka byssukúlu fyrir húsbónda sinn. Um leið minntu þeir á skrautsykur á kökum, sem er snotur, en þjónar engum tilgangi í sjálfum sér. Mér og hinum hávaxna fylgdarmanni mínum var orðið heitt í hamsi þegar þarna var komið sögu, enda höfðum við borist með ungmennastrauminum í fremstu víglínu fyrir miðju sviði þar sem súrefni var mjög af skornum skammti og persónulegt rými ekkert.
Skyndilega rak skarinn upp skræki og vein. Á risaskjáum beggja vegna sviðsins gat að líta hinn geðþekka Snata í félagsskap fáklæddra kvenna, sem létu vel hver að annarri. Skömmu síðar lallaði Snoop sjálfur letilega inn á sviðið, íklæddur mynstruðum samfestingi. Enginn, sem ekki er fullkomlega öruggur um eigin kynþokka og kynhneigð, gæti leyft sér að stíga á stokk frammi fyrir ríflega fimmþúsund manns í náttfötunum. Snati var öryggið uppmálað í blá-og hvítmynstraða samfestinginum sínum, lét sér nægja að skreyta sig með látlausum demantseyrnalokkum og litlu demantsmeni í byssulíki, enda ekki þörf á meira glingri, þar sem hárið var hans helsta prýði, fagurlega tekið saman í tvær snotrar fléttur að hætti fjögurra ára telpna. Snoop er raunar merkilega líkur Nelly úr Húsinu á sléttunni, og virðist sækja innblástur í hárgreiðslur hennar, sem er skynsamlegt, þar sem andlitsfall þeirra er áþekkt.
Svo virtist sem Snati hefði haft veður af því hvaða söngva ég þekkti, því hann spilaði nær eingöngu þau lög sem voru mér að góðu kunn (sem mundi vera um fimm prósent lagasmíða hans í gegnum tíðina). Því gat ég sungið með háum rómi þá sjaldan ég hafði orku til, en eftir því sem á leið hitnaði okkur sem stóðum í fremstu röð, svo mjög að flestir féllu í öngvit áður en yfir lauk.
Fyrirfram hafði ég óttast að hvert orð af munni Snata yrði argasta klám, óskiljanleg kvenfyrirlitning og almennt mannhatur. Sú var þó ekki raunin. Snoop er sannkallaður friðarpostuli, boðaði kærleik og vináttu manna á milli í hverju orði, mærði fegurð Íslands, lýsti yfir hömlulausri aðdáun á öllu hér og ást sinni í garð þjóðarinnar allrar, kvenna ekki síður en karla. Skiljanlega gladdi hólið okkur áheyrendur og lýstum við sömuleiðis yfir hlýjum tilfinningum í garð söngvarans snjalla, í mörgum orðum og fögrum. Svo mikill kærleikur myndaðist, að minnti helst á vakningarsamkomu í Suðurríkjum Bandaríkjanna og vafalaust hefur einhver hrópað ‘Hallelúja’ þegar leikar stóðu sem hæst. Öll þessi íslenska ástúð létti mjög brúnina á Snata, sem lofaði að þetta yrði fyrsta heimsókn sín af mörgum (mér skildist að hann hyggðist heimsækja land okkar ekki sjaldnar en sex sinnum fyrir árslok, en eitthvað gæti ég hafa misskilið hann, ellegar hann hafa lofað upp í ermina á sér í hita leiksins). Eftir lokalagið og ástúðlegar kveðjur kvaddi Snoop áheyrendur sína með virktum, dreif sig af sviðinu með allt sitt lið, bergrisana tvo og hina ægifögru og íturvöxnu dansara, skífuþeytara og aðra undirspilara, sem voru of margir til að tölu væri komið á. Ljósin voru kveikt og örlítið súrefni barst okkur vesalingunum upp við sviðið, sem enn vorum með meðvitund. Hver spjör var gegnblaut af svita og vatninu, sem öryggisverðirnir voru svo elskulegir að hella á okkur með jöfnu millibili (hjartans þakkir fyrir það). Ég raulaði ‘Beautiful’ í suddanum við Egilshöll og lét mig hlakka til næstu tónleika – nú hlýtur Eminem að fara að koma.

   (6 af 59)  
9/12/04 00:02

Gísli Eiríkur og Helgi

Elsku Júlia frábær texsti og ég skildi næsumþví alt
á timum símskeytana þegar borgað var fyrir hvert orð hefði ég farið á hausin . off the record
var þettað þess virði?

9/12/04 00:02

Hakuchi

Einstaklega skemmtilegur pistill. Skrif ungfrú Júlíu eru í sérflokki. Ævinlega vönduð, hnyttin og glögg skrif. Það er hlutlaust mat mitt í það minnsta.

9/12/04 00:02

Gísli Eiríkur og Helgi

Elsku júlía til að koma í veg fyrir misskilning ég meina voru tónleikarnir og það sem þú fékst út af þvi í samræmi við þau útgjöld og þá fyrirhöfn sem tónleikar þessir ollu þér.

9/12/04 00:02

Heiðglyrnir

Drottningin hefur skrifað..!..

9/12/04 01:00

Júlía

G. E. og H.; svona þér að segja var gaman, en ekkert ofboðslega gaman, ef þú skilur hvað ég á við. Skemmti mér betur á 50 Cent tónleikunum í fyrra.

9/12/04 01:01

voff

Þessi 3. flokks eymingi kemur vondu orði á hunda um allan heim. Þykist vera rosaharður en er svo bara kjafturinn innantómur.

9/12/04 01:01

Hakuchi

Svona eins og góður chiuaha hundur...

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.