— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 2/12/03
Tom með tárin í augunum

Það er fleira matur en feitt kjet

Er það tilviljun að hinn dvergvaxni Tom Cruise kaus að leika í mynd sem gerist í Japan?
Við stöllur fórum með elskulegum skósveini okkar, andfætling einum og unnustu hans að sjá Síðasta samúræjann í gær. Væntingum hópsins var mjög stillt í hóf. Þöngull, sem sjálfur er köttur liðugur og jafnvígur á allar austrænar bardagalistir, hafði heyrt hraklega dóma um myndina og engin í hópi okkar kvennanna hefur hingað til fallið fyrir töfrum hins knáa, en óneitanlega ansi smáa Cruise. Myndin kom því skemmtilega á óvart og ber það helst að þakka æsilegum bardagaatriðum, íburðarmiklum hjálmum, litskrúðugum brynjum og ómótstæðilegum þokka japönsku leikaranna, einkum eðaltöffarans sem lék síðasta samúræjann Katsumoto. Þar er á ferð maður sem gaman væri að sjá meira af. Tom skilaði sínu með sóma; minnti að vísu á miðaldra húsmóður þar sem hann sprangaði um á skósíðum sloppi, en margir í hópnum brynntu músum þegar tárin blikuðu á hvörmum hans. Sonur samúræjans fékk margt meyjarhjartað til að slá örar og illvígur andstæðingur Toms okkar höfðaði sterkt til Mús-Líar.
Hitt verður að nefna, að hr. Cruise má verulega taka sig á hvað varðar hreinlæti og almenna snyrtimennsku. Að sögn gestgjafans, japönsku ekkjunnar Töku (sem við höfðum enga ástæðu til að rengja) angaði hann eins og svín og var bæði órakaður og illa klipptur út alla myndina.
Að öðru leyti var saga síðasta samúræjans hin besta skemmtun og mun hvetja okkur til enn frekari afreka í austrænum bardagalistum.

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía og aikido-meistarinn Þöngull (skósveinn)

   (51 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.