— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 9/12/03
Hollusta í hádeginu

Askur og American Style á einum bás

Þrátt fyrir andúð okkar á hinni hættulegu hernaðar- og heimsvaldastefnu Bandaríkjanna nú um stundir höfum við stöllur ekkert á móti amerískri matarmenningu með íslenskum blæ. Síðustu vikur höfum við því einbeitt okkur að hamborgaraáti, þó ekki í óhófi eða af offorsi, heldur tekið okkur hálfsmánaðar hlé milli borgara.

Fyrir tveimur vikum mæltum við okkur mót á hinum rótgróna veitingastað Aski við Suðurlandsbraut. Þar var okkur strax skipað á bás og fenginn matseðill í hendur.* Við stöllur og Vest-Lingur vorum fljót að ákveða okkur en fengum ærið tóm til að skipta um skoðun oft og mörgum sinnum, því þokkapilturinn Þöngull lét bíða eftir sér. Um það bil þegar við höfðum gefið upp alla von um að njóta nærveru hans (og fá far aftur til baka) birtist hann með bros á vör og blik í bláu augunum, sársoltinn og reiðubúinn að kljást við rummungs hamborgara. Mús-Lí pantaði steikarsamloku en Vest-Lingur og Júlía hamborgara. Enginn þarf að þola þorsta á Aski, því stórt glas af gosi ætti að nægja meðalstórri fjölskyldu á þurrkasvæðum í Afríku í rúmar tvær vikur, ef nægilegt vatn er drukkið með. Maturinn er heldur ekki skorinn við nögl. Hamborgararnir minntu á potthlemma og steikarsamlokan líktist björgunarfleka. Frönsku kartöflurnar voru afbragð og salat með e.k. súrsuðum lauk jók enn á hollustuna og bragðgæðin. Þrátt fyrir mikla matarlyst, mikinn vilja og víð föt tókst okkur ekki að klára matinn, sem bragðaðist sérlega vel. Gráðostaborgari Júlíu var hreinasta sælgæti, enda er kunnara en frá þurfi að segja að gráðostur gerir allan mat góðan**, Askur Special-borgarinn bragðaðist sömuleiðis vel að sögn piltanna, með og án heitu ostasósunnar og Mús-Lí var ljómandi ánægð með samlokuna sína, þ.e.a.s. þann part sem hún náði að torga. Askur er einn af sígildum veitingastöðum borgarinnar. Staðurinn er vistlegur og þægilegur og þjónustan hröð og góð. Kokkarnir eru kannski ekki mjög frumlegir eða ævintýragjarnir en þeir kunna svo sannarlega sitt fag; að elda góðan mat – og mikið af honum.
Það brakaði í bekkjunum og reyndi verulega á buxnastrengina að máltíð lokinni og svo mjög var af Júlíu dregið að hún hafði ekki einu sinni lyst á eftirrétti. Eftir drjúglanga stund þótti sýnt að fæturnir mundu bera okkur (naumlega þó) svo við stauluðumst með herkjum og hléum að kassanum og gerðum upp skuldir okkar áður en við röltum yfir á Café Copenhagen í kaffi og konfekt.***

Matreiðslufólkið á American Style kann sömuleiðis sitt fag. Í hádeginu lögðum við leið okkar í útibú keðjunnar í Kópavogi þar sem alla jafna má finna bílastæði rétt við bæjardyrnar. Okkur Mús-Lí hefur vaxið svo ásmegin undanfarið að við treystum okkur til að höndla þrjá óstýriláta karla; Vest-Ling, Þöngul og Vaðal, sem áður hefur fengið að njóta návistar okkar yfir matarborðum. Eins og eðlilegt er á þessum árstíma tók allnokkurn tíma að safna öllum sauðunum í hús, en ekki væsti um forystusauðina því við fundum sérlega þægilegan setkrók fjarri forvitnum augum almúgans, þaðan sem við gátum auðveldlega fylgst með mannaferðum á ‘prívasíið’ (sem er nú raunar enginn sérstakur kostur). Steikarar Stælsins eru hamhleypur til verka og hafa fyrir löngu uppgötvað þann einfalda sannleik, sem hefur farið framhjá alltof mörgum starfsbræðrum þeirra í miðbæ Reykjavíkur, að fólk hefur takmarkaðan tíma til að bíða eftir matnum í hádeginu. Við vættum kverkarnar með ísköldum kóladrykk, sem aldrei þraut, frekar en mjöð einherja í Valhöll í den meðan við biðum eftir borgunum, en biðin var hæfilega löng (þ.e. stutt). Hamborgararnir á American Style eru án nokkurs efa með þeim allra bestu sem íslenskir skyndibitastaðir bjóða uppá. Frönsku kartöflurnar eru sömuleiðis margfalt betri en gerist annarsstaðar, þykkar og matarmiklar og áreiðanlega meinhollar, rétt eins og borgararnir sem eru stútfullir af fersku grænmeti og fyrsta flokks nautakjöti. Það eina sem má verulega finna að staðnum (og á það jafnt við um öll útibúin) er óþægileg lýsing sem sker í augu á undarlegan hátt og varpar undurfurðulegum bjarma á neðri hluta andlitsins, sem er afar óheppilegt ef menn borða á ógeðslegan hátt. Eins væri mjög til bóta að bjóða gestum uppá kaffibolla og sælgætismola eftir góða máltíð, þó slíkt gæti hvatt gesti til þaulsetu sem sjaldnast er litin hýru auga á skyndibitastöðum.
Eftir matinn ákváðum við að fylgja Mús-Lí á kaffihús í Hamraborg, en hún er ein þriggja núlifandi Íslendinga sem ratar um völundarhús gatnakerfisins í Kópavogi, bæði að nóttu sem degi. Það var fagurt að horfa yfir á höfuðborgina í glampandi sólskini og sötra gott kaffi. Við vorum því endurnærð og ánægð eftir vel heppnaða heimsókn og tókum heilshugar undir með galgopanum Gunnari Birgissyni: Það er gott að vera í Kópavogi!

*Af einhverjum ástæðum veitir básinn Íslendingnum mikla öryggiskennd. Básinn er eins og tengiliður við horfinn tíma, þegar Búkolla og Huppa jórtruðu sælar á sínum básum undir baðstofuloftinu og veittu yl og angan í skammdeginu.
**Slátur, svið og sigin grásleppa eru einu undantekningarnar sem vitað er um.
***Ótrúlegt hvað hressandi göngutúr, þó ekki sé nema örfá skref, getur haft örvandi áhrif á matarlystina.

   (24 af 59)  
31/10/03 02:02

hundinginn

Það verður nú einhver að leggja orð í belg hjá þér kæra Júlía. Ég mun öldungis lesa þetta, þegar að rennur af mér. Þú ert hreint út sagt ágæt!

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.