— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Dagbók - 4/12/05
Skilað og skipt

Sú var tíðin að ég bjó alein og ánægð í vistlegri íbúð í Vesturbænum. Fátt raskaði sálarró minni, nágrannarnir voru til friðs, rúmdýnan var hæfilega hnúskótt og óhreinu diskarnir í eldhúsinu voru ágætur félagsskapur. Allt virtist harla gott og engin skynsamleg ástæða til að breyta einu né neinu – þó eðli málsins samkvæmt væru nokkur endurnýjun á óhreinu diskunum. Þetta taóíska ástand tók þó skjótan endi og fyrr en varði hafði ég látið undan kröfum samfélagsins og fest ráð mitt. Minn trausti hitapoki fékk nú að safna ryki niðri í skúffu með hnausþykku föðurlandinu og gömlum ullarsokkum (götóttum). Heilsusamlegar gönguferðir meðfram sjávarsíðunni, ísát og almenn ástúðlegheit komu í stað samviskusamlegs sjónvarpsáhorfs og allt var þetta harla gott.
Einni íbúð og ógnarháaum lánum síðar er þolinmæði mín mjög farin að þynnast. Spúsi minn er nefnilega hinn mesti gallagripur og hafa vandræði mín aukist hraðar en fasteignaverð hefur hækkað. Liðnir eru þeir ljúfu dagar þegar ég gat áhyggjulaus eytt síðkvöldum við sjónvarpsgláp, komið að stofunni í því ástandi sem ég skildi við hana og átt fullan skáp af hreinum og samanbrotnum fötum. Spúsi minn hefur yndi af stöðvaflakki og festir með engu móti hugann við framhaldsþætti. Hann virðist með öllu ófær og óviljugur að læra einföldustu aðgerðir í eldhúsinu. Aldrei bíður mín ætur matarbiti þegar ég kem þreytt heim eftir langan vinnudag (takið eftir, ég geri ekki einu sinni þá kröfu að maturinn sé heitur eða lystugur lengur), en oftar en ekki er brauði og áleggi af ýmsu tagi dreift yfir alla borðfleti en engin brauðsneið er ætluð mér. Sú list að setja í þvottavél virðist einnig vera ofviða mínum manni. Eftir miklar fortölur, bænaskjöl og almennt nöldur fæst hann til að brjóta saman fataplögg, jafnvel þau sem ekki tilheyra honum sjálfum og finna stað í skáp. Örsjaldan hefur jafnvel komið fyrir að fötin rati upp á snúruna, án þess að ég hafi þar hönd í bagga, en þó ekki án frýjuorða minna. Aldrei hefur heimilið orðið svo óþrifalegt að húsbóndinn sjái ástæðu til að taka sér tusku og ryksugu í hönd óumbeðinn. Undarlegust er þó tregða hans til að setja óhreint leirtau inn í okkar ágætu uppþvottavél, en hana tel ég nú með mínum allrabestu vinum.
Allur þungi heimilishaldsins hvílir því á mínum veiku herðum og hafa búsraunir nú gengið svo nærri mér að við verður vart unað lengur.
Því auglýsi ég hér með eftir kassavönum hvolpi, ellegar húsvönum heimilisföður í skiptum fyrir fordekraðan letihaug. Tveggja lítra kókflaska getur fylgt með í kaupbæti.

   (1 af 59)  
4/12/05 04:02

Haraldur Austmann

Verður þá ekkert konunglegt brúðkaup?

4/12/05 04:02

Isak Dinesen

Leiðinlegt að heyra hversu lélegu módeli hefur verið prangað upp á þig. Fékkstu ekki að taka hann með heim að prófa áður en þú keyptir? Það er víst mikið í tízku núna.

4/12/05 04:02

Bangsímon

En geturu ekki bara ráðið einhverja manneskju til að þrífa hjá ykkur og sjá um húsverkin? Þá mundi allir vera sáttir, fyrir utan kannski budduna.

Annars er þetta ágætis staðfesting á því að það sé bara betra að vera piparsveinn. Já, ég held það bara svei mér þá.

4/12/05 04:02

Hakuchi

Ó ungfrú Júlía, þér var nær að fara á brott með garðyrkjumanninum Carlos. Þessir latnesku letihaugar eru vita gagnslausir. Komdu heldur heim í höllina í sællífið. Ég lofa að losa mig við kvennabúrið.

4/12/05 04:02

Skabbi skrumari

Ljótt að heyra... Carlos virðist hafa lofað svo góðu... en þetta lagast allt saman...
P.S. Júlía ég er með flottari innleggjatölu en þú... hehe...

4/12/05 04:02

Vladimir Fuckov

Hvaða verkalýðssinnuðu vetnisoxíðætu datt eiginlega í hug að veita þjónustufólki í Baggalútíu verkfallsrjett ?! [Ógildir lög þau er það leyfa og setur herlög í forsetahöllinni. Byrjar að tína saman allskonar drasl]

Í anda Skabba bendum vjer að lokum á að innleggjatala vor verður flottari eftir 14 innlegg í viðbót og miklu flottari eftir 614 innlegg í viðbót [Fer í Hvað dettur þjer í hug].

4/12/05 05:00

albin

Illa er hann upp alinn, er enginn skilafrestur á svona gripum??

4/12/05 05:00

Golíat

Alltaf er nú gaman að sjá eitthvað eftir þig Júlía, þér bregst ekki stílfimin. Sennilega er þinn stærsti löstur (ef eitthvað er að marka þig) að hafa takmarkað vit á hinu kyninu og vera ófær um að finna þér maka við hæfi.

4/12/05 05:00

Ugla

Skítablindur ósjálfbjarga slóði sem kann ekki á þvottavél...

Eitthvað finnst mér ég kannast við þessa lýsingu!

4/12/05 05:01

Gaz

Þetta er það sem maður fær þegar maður gerir eða fær sér eitthvað af vitlausum ástæðum.

4/12/05 05:01

Nermal

Engin er fullkominn, en ég er fullkomnari en margur annar. Norðlenskt sjarmatröll

4/12/05 05:01

Offari

Var konan mín að biðja þig að skrifa þetta?

4/12/05 05:01

Nætur Marran

Ég er nú svo heppinn að síðri helmingur minn hefur látið sjá til sín með uppþvottabursta í annari og ryksugu í hinni en hann gerir þó mesta lagi 10% heimilisverka. Betra en ekkert

4/12/05 05:01

Nornin

Oh, kæra drottning. Ég kannast við þetta vandamál þitt og ég tók á það ráð að skila viðkomandi aftur til föðurhúsana (móðurhúsana eiginlega, því hans helsti galli var óklipptur naflastrengur).
Reyndar hafa nokkrir komið og farið síðan þessi slúbert var og hét, misgóðir jú, en flestir skárri.
Daginn sem ég rekst á fullkomið eintak verður sennilega daginn sem ég verð sjálf fullkomin! [glottir]

4/12/05 05:02

Jarmi

Hann kann sumsé ekki trixin...

Brenna gat á peysuna þína við straujun, brjóta diska við uppvask, ryksuga upp sokkana sína og stífla vélina, setja rautt með hvítu í þvott, fara í búðina og kaupa bara ólívur & egils-pilsner, þrífa speglana og skilja eftir svakaleg tuskuför, elda handa þér máltíð og salta hana margfalt of mikið, etc. etc. ... allt auðvitað óumbeðið.

4/12/05 05:02

hlewagastiR

Ég held að það sem þig vanti sé góð lesbía.

4/12/05 05:02

krumpa

Heittelskaður er fullkominn! En þú færð hann ekki.

Eða sko...hann setur setuna alltaf niður og kemur nærbuxunum sínum af gólfinu og í vélina. Er það ekki sirka fullkominn karlmaður?
Varðandi stöðvaflakkið þá er það eitthvað meðfætt - mæli með að þú skerir af honum fingur, tær og nef. Eða felir batteríin...þeir eru yfirleitt ekkert alltof skýrir þessar elskur.

Þegar betur er að gáð þá hljómar kókflaska reyndar vel. Er þetta ekki dæet?

4/12/05 06:01

Útvarpsstjóri

Ég skal láta þig fá þrjá kettlinga ef ég má nota manninn í þrælkunarvinnu.

4/12/05 06:01

B. Ewing

Ef hann er meira en 4ra ára þá lærir hann varla mikið úr þessu. Mæli með að byrjað verði á því að gera hann kassavanan. Reyna síðan smám saman að kenna honum ýmiskonar "trikk" : Sitja, standa, velta sér, sækja prik, heilsa með loppunni og ýmislegt annað. Stöku göngutúr hefur bara góð áhrif þó hann þráist við að fara til að byrja með og má jafnvel búast við að ekki líði á löngu uns hann dregur þig af stað í staðinn.

Það er allt hægt með miklu aðhaldi og gríðarlegri þolinmæði. Bara setja skýrar línur á alla hluti.

4/12/05 06:01

feministi

Það var tvennt sem kom upp í huga minn við lestur þessa félagsrits. Í fyrsta lagi fór ég að hugsa um það hvort minn ástkæri letihaugur gæti lifað tvöföldu lífi og byggi einnig með þér. Í öðru lagi datt mér í hug sú lausn að þið gætuð fengið ykkur góða og duglega konu/mann sem sæi um þessi verk. Það er jú alrangt að þriðji aðilinn í hjónabandi sé alltaf til bölvunar. Og mikið er gaman að þú skulir komin aftur til ritstarfa hér. [Færir Júlíu blómvönd og viskíflösku]

4/12/05 06:01

Dr Zoidberg

Karlmaður að þvo þvott? [Frussar út úr sér ákavíti af hlátri]

4/12/05 06:02

Jóakim Aðalönd

Ég held að Bangsímon hafi hitt naglann á hausinn:

,,Annars er þetta ágætis staðfesting á því að það sé bara betra að vera piparsveinn. Já, ég held það bara svei mér þá."

4/12/05 07:01

Kargur

Það væri munur ef hægt væri að kaupa uppfærslupakka í svona eymingja.

4/12/05 07:01

Glúmur

Skref 1. Takið sjónvarpið og hendið því í ruslið
Skref 2. Annað ykkar sér alfarið um þvottinn, hitt um leirtau og potta
Skref 3. Veriði góð við hvort annað, jafnvel þótt ykkur sárni og verðið reið. Ekki grípa til særandi eða þjóstugra ummæla.
Skref 4. Veriði hamingjusöm fjandinn hafi það! Eða þið hafið mér að mæta lúsablesarnir ykkar!

4/12/05 08:02

víólskrímsl

Sæl kæra Júlía og velkomin heim.
Glúmur hefur hér lög að mæla sem oft áður. Best er að gera hreina og beina samninga um verkaskiptingu innan heimilisins. Skriflega, ritaða með blóði við fullt tungl.

5/12/07 01:00

Jóakim Aðalönd

Laumuþráður?

5/12/07 01:01

Álfelgur

ÉG er til! [Skálar í ákavíti]

9/12/07 01:01

Vladimir Fuckov

[Laumupúkast og ljómar upp]

9/12/07 19:01

Billi bilaði

<Hóstar laumulega>

1/11/07 01:00

Jóakim Aðalönd

[Laumar hóstulega]

1/11/08 01:00

Jóakim Aðalönd

Árs afmæli!

5/12/09 01:02

Fergesji

Svo virðist sem Júlía hafi horfið í Gestapóskjálftanum mikla sumarið 2006.

5/12/10 01:01

Ívar Sívertsen

Jæja, nú er ár síða Fergesji lét orð í belg hér. Þessu verðum við að halda gangandi.

8/12/19 11:01

Fergesji

Og nú er um áratugur frá því Ívar lét sjá sig. Verður næsti orðabelgur eftir öld?

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.