— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 2/11/02
Eivör - heima og heiman

Söngskemmtun í Kaupinhöfn og Kaffileikhúsi

Ég hafði hugsað mér að skrifa gagnrýni um tónleika færeyska söngfuglsins Eivarar Pálsdóttur í nýopnaðri menningarmiðstöð Íslands, Færeyja og Grænlands í Pakkhúsinu á Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn. Það sem helst stendur í vegi fyrir því er það, að ég fór ekki á tónleikana.
Fjarri veri mér að agnúast út í framámenn í utanríkisþjónustu Íslands, en hitt verð ég að segja að hið nýopnaða menningarhús er nokkuð úr alfaraleið, rétt eins og eyjarnar sem þar eru kynntar. Þrátt fyrir annálaða ratvísi mína og yfirgripsmikla þekkingu á samgöngukerfi Kaupmannahafnar tókst mér ekki að finna auðvelda og þægilega leið til að komast á staðinn (leigubíllinn sem ég hafði augastað á var upptekinn og aðrir slíkir ekki í sjónmáli), svo aðrir en ég verða að segja kost og löst á tónleikunum.
Hins vegar fór ég á tónleika með fyrrnefndri Eivöru í Kaffileikhúsinu í Hlaðvarpanum einhvern tímann í nóvember. Fyrir helbera tilviljun rakst ég á ýmis stórmenni þar, ber þar helst að nefna hinn virta stórsjarmör, ritstjórnarfulltrúa og heimsmann, Myglar, sem virtist skemmta sér hið besta, eins og aðrir tónleikagestir. Mátti ráða af orðum hans og æði að gagnrýni væri væntanleg innan skamms, en þar sem enn hefur ekki sést stafkrókur frá honum um söngskemmtun þessa, taldi ég mér (ef mig skyldi kalla) óhætt að skrifa um hana.
Í stuttu máli var þetta stórfengleg upplifun. Eivör hefur ótrúlega útgeislun og sviðsþokka, mikla og fallega rödd og náði að heilla áhorfendur upp úr skónum. Henni tókst jafnvel að fá mig og sessunauta mína til að skilja við fé í skiptum fyrir hinn stórgóða geisladisk hennar, Krákuna.
Fyrst ég komst ekki á tónleikana í Pakkhúsinu er aldrei að vita nema ég leggi í aðra og erfiðari langferð upp í Grafarvog nú á aðventunni; hef heyrt að hin færeyska Eivör muni syngja ásamt og með hinum ‘íslensku dívunum’ í guðshúsi þeirra Grafarvogsbúa í næstu viku. Það er mikið á sig leggjandi fyrir sönginn hennar Eivarar, jafnvel ferð í ytri byggðir borgarinnar.

   (56 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.