— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 5/12/03
Raunasaga af Rossopomodoro

Varist að trúa frásögnum falsmiðlanna!

Á öðrum degi sumars mæltum við stöllur okkur mót við hinn föngulega Þöngul á nýjum ítölskum veitingastað til að fagna vetrarlokum. Mosa frænka var illu heilli fjarri góðu gamni, þannig að við féllumst góðfúslega á að setjast við lítið borð uppvið eldstó flatbökumeistarans. Af einhverjum ástæðum var okkur ekki vísað til sætis við gluggann, eins og venjan er þegar okkar litli hópur heiðrar matsölustaði með nærveru sinni – kannski vegna þess að þar virtist hvert sæti fullskipað. Okkar borð var fjarri áleitnu augaráði annara gesta og forvitinna vegfarenda, sem var í sjálfu sér gott, en hitt þótti okkur verra að varla var lesljóst við borðið þó sól væri í hádegisstað. Fyrir bragðið kættumst við mjög þegar skósveinn okkar, sem í sínu daglega lífi er allstöndugur viðskiptajöfur, tilkynnti okkur í gegnum talsímasamband að viðskiptafélagi hans og góðvinur, Vaðall, vildi slást í hópinn. Með lagni tókst okkur að hafa tal af þjónustustúlku sem vísaði okkur á annað borð svipaðrar gerðar þar sem sama myrkrið réði ríkjum. Sóma okkar vegna gátum við hvorki né vildum sitja einar til borðs með tveimur eftirsóttum ungkörlum í hálfrökkri og var því úr nokkuð vöndu að ráða. Í fjarska þóttist Mús-Lí eygja ljósglætu og eftir að hafa ráðfært okkur við enn eina þjónustustúlkuna fengum við að færa okkur yfir í upplýstan hluta matsalarins, sem var illu heilli einnig reykhluti hans.
Réttindabarátta reyklausra er Mús-Lí mikið hjartans mál en þar sem öngvir reykingamenn virtust í sjónmáli taldi hún það illskárri kost. Allt þetta vafstur tók dágóða stund og því vorum við orðnar allsvangar þegar karlmennirnir loksins birtust, glorsoltnir eftir erfiðan samningafund. Það tók því skamman tíma að gera upp hug sinn, en heldur lengri tíma að ná athygli þjónustustúlknanna, sem við höfðum löngu gefist upp á að greina að. Það er hvimleiður misskilningur veitingahúsamanna, að hádegisgestir hafi allan heimsins tíma og hafi ekkert þarfara að gera en bíða eftir að fá að bera uppi einföldustu óskir við starfsmenn.

Biðin eftir matnum virtist þó ekki löng, enda höfðum við um margt að spjalla. Júlía fékk sér heimilismat að hætti Napólíbúa; svínakótilettu með girnilegu salati og steiktum kartöflubátum, Mús-Lí valdi flatböku með skinku, sveppum, laufblöðum og þeyttum rjóma (sem maður sér alltof sjaldan notaðan sem álegg), Þöngull bað um pasta með zucchinepesto, beikoni, cacio osti, pipar og basilíku en Vaðall vildi fyllt canellone gratínerað með basilíku, ricotta, mozzarella, Napolíkjötsósu og parmesan osti.
Þöngull (sem er skarpgreindur á sumum sviðum) þóttist þegar greina ákveðið
mynstur eða stefnu sem væri ríkjandi á staðnum, á þá leið að það sem var bragðgott var naumt skammtað en það óæta var afar vel útilátið. Sú regla sannaðist hvað best á því sem Vaðall valdi sér; maturinn sjálfur var ljúffengur en ákaflega naumt skammtaður en diskurinn var aftur á móti flennistór en óætur. Þar sem Vaðall er mikill maður vexti, herðabreiður en miðmjór, vígur maður vel en þó hvers manns hugljúfi, þá aumkuðum við stöllur okkur yfir hann og deildum systurlega með honum af réttum okkar. Þöngull er hins vegar fastheldinn á fé og mat og sat einn að sínu pasta, sem þó fékk ekki góða dóma. Sú litla sósa sem kokkurinn hafði dreypt yfir hveitiskrúfurnar var ‘svosem altílæ’*, en pastað sjálf var ólseigt og allt að því vont og grunaði Þöngul, sem hefur ákaflega næma bragðlauka, að það væri keypt á tilboði í einni af verslunum hinn illa Baugsveldis**. Pizzan bragðaðist hins vegar ágætlega, sem og svínakótilettan.

Eftir matinn höfðum við hug á að dreypa á almennilegu ítölsku kaffi og kryfja heimsmálinn til mergjar, en það varð ógert af okkur. Hvorki fundum við lausn á ástandinu í Írak og Austurlöndum nær almennt, né tókst okkur að vekja athygli þjónustuliðsins, þrátt fyrir skark í hnífapörum, hóstakjöltur, hróp og allt að því ósæmilega hegðun (Þöngull á það til í hita leiksins að fækka fötum og bera karlmannlega bringuna).
Þar sem kaffitíminn nálgaðist óðfluga ákváðum við að gera upp reikninginn og leita ásjár hjá Sandholt bakara sem er til húsa skammt frá. Þar var okkur vel tekið með rótsterku kaffi, konfekti og kruðiríi svo við fórum sæl, glöð og sérdeilis vel vakandi aftur til vinnu.

Meira fyrr en varir,

Mús-Lí, Júlía, Þöngull (skósveinn) og Vaðall (viðhengi ellegar viðhald)

*Málskrúðsfræði er skósveini okkar ekki töm, enda orðvar maður og gagnorður.
**Þessi ummæli endurspegla f.o.f. skoðanir ríkjandi valdhafa, frekar en skoðanir greinarhöfunda.

   (43 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.