— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 4/12/04
Í Húsi fljúgandi kuta

'Everybody was kung-fu fighting'

Í gærkveldi fór ég fyrir þrábeiðni ástvinar míns að sjá kínversku myndina Shi mian mai fu, eða House of Flying Daggers. Fyrirfram var ég full tortryggni og allt að því ólundar, því fátt leiðist mér meira en að horfa á kúng-fú kappa svífa um loftin með ópum og óhljóðum, að því er virðist í algjöru tilgangsleysi, frjálsir undan viðjum venjulegrar söguframvindu*. Ekki léttist á mér brúnin þegar aðrir bíógestir tóku að streyma inn í salinn. Mér virtist sem ég hefði í misgripum keypt mig inná Landsmót ofur-nörða og artí-fartí auðnuleysingja, ellegar stigið aftur í aldir, til þess tíma er menn létu eitt bað á ári duga, því allmargir gestir virtist með öllu ókunnugt um samspil hársápu og heita vatnsins. Ég huggaði mig við það að ég gæti altént fest blund svo lítið bæri á, svo fremi sem skrækjum sparkkappanna væri stillt nokkuð í hóf.

Síðan hófst myndin. Félagarnir Jin og Leo, leiknir af Takeshi Kaneshiro og Andy Lau, birtust á tjaldinu og samstundis vaknaði örlítill áhugavottur, því báðir eru þeir kumpánar glæsimenni og gleðja augað. Bagalegt fannst mér, að maðurinn fyrir framan mig skyggði á tjaldið lengi framan af, sem torveldaði mér mjög að lesa textann, en án hans átti ég í nokkrum erfiðleikum með að skilja hvað persónunum bjó í sinni, en þó tókst mér að skilja að þeir Jin og Leo væru löggæslumenn og hyggðust með klækjum komast inn undir hjá glæpaklíkunni Fljúgandi rýtingar, sem ógnaði mjög stöðugleikanum í þjóðfélaginu þá um stundir. Fyrr en varði var Jin komin í dulargerfi - þó ekki svo gott að ég þekkti hann ekki aftur - í gleðihúsið Rósagarðin, þar sem hin ægifagra, en staurblinda Mei (skv. IMDB, fannst hún heita eitthvað meira í myndinni) skemmti gestum með fögrum dansi. Svo glæsilegir og íburðarmikir voru búningar og umhverfi allt, að athygli mín var samstundis fönguð og ég sat heilluð það sem eftir var myndar.
Líklega var ég ánægðust allra bíógesta, því þó allmikið væri um vel stíliseraða bardaga og snotrar brellur, þá er Hús hinna fljúgandi rýtinga fyrst og fremst ástar- og örlagasagasaga. Fagurkerar ættu ekki að láta þetta augnkonfekt framhjá sér fara, búningar, leikarar og landslag eru ægifögur og hljóðvinnslan svo frábær, að meira að segja ég tók eftir hversu vel var gert.

Eini mínusinn voru mennirnir sem sátu fyrir framan mig - þeirra hárfegurð var sláandi lítið í samanburði við alla þá fegurð sem við blasti á tjaldinu.

*Hér vísa ég til kenninga Aristótelesar um eðlilega sögubyggingu með upphafi, miðju og enda.

   (8 af 59)  
4/12/04 11:01

Hakuchi

Smekkvísi þín á sér engan líka. Frábær mynd. Frábær gagnrýni.

4/12/04 11:01

Golíat

Frábær gagnrýni. Ég er svei mér ekki frá því að ég færi og sæi ræmuna ef félagheimilið og þar með bíósalurinn væri ekki löngu brunnið og 8 mm vélin með og Jónmundur húsvörður og bíóstjóri dauður og enn ekki afturgenginn.

4/12/04 11:01

Vamban

Þetta er snilldarmynd sem hvert mannsbarn ætti að sjá!

4/12/04 11:02

krumpa

Frábær gagnrýni og aldrei að vita nema maður víkki sjóndeildarhringinn á næstunni með smá kúngfúi - það hlýtur að vera eitthvað varið í það fyrst konungshjónin eru svona upprifin!

4/12/04 12:00

Isak Dinesen

Hnitmiðuð og skemmtileg gagnrýni. Það gæti bara vel gerst að maður sjái hana þessa.

4/12/04 12:00

Jóakim Aðalönd

Þrátt fyrir gagnrýni hina beztu, kemur ekki til greina að ég fari í bíó!

4/12/04 12:00

Skabbi skrumari

Afbragðs gagnrýni.. hver veit nema maður reyni að sjá gripinn...

4/12/04 12:01

Heiðglyrnir

Þegar Drottningin okkar ástkæra, tekur sig til við skriftir er yfirleitt ekki von á góðu...heldur frábæru!. Förum í bíó.

4/12/04 12:01

Vladimir Fuckov

Mjög athyglisvert, sjerstaklega eftir að vjer skemmtum oss vel yfir austurlenskri bardagamynd á DVD um daginn. Kannski vjer förum í bíó fljótlega. En hissa erum vjer á að sjá að eitthvert íslenskt bíó skuli sýna kínverska mynd.

4/12/04 12:01

Júlía

Undrist eigi, Vladimir, það er jú kvikmyndahátíð í borginni þessa dagana.

4/12/04 15:02

Vladimir Fuckov

Stórkostleg mynd, vjer litum á hana eftir að hafa sjeð að hún fjekk fullt hús stjarna í nokkrum af falsmiðlunum. Hollywood gerir því miður eigi svona myndir. Vjer veittum því síðan athygli að nokkur fjöldi bíógesta virtist tárast í lokin.

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.