— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Dagbók - 6/12/03
Ein til borðs í útlöndum

Það er kunnara en frá þurfi að segja að einhleypingar í útlöndum eru ævinlega að leita að góðum matsölustöðum. Það er nefnilega nokkur kúnst að sitja einn að snæðingi á erlendri grundu, eins og þeir vita sem það hafa reynt. Skyndibitakeðjur á borð við McDonald’s gera beinlínis út á einmannakennd ferðalanga með því að bjóða hvarvetna upp á sama óspennandi matseðilinn, klæða starfsmenn sína um veröld víða í samskonar púkalegan einkennisklæðnað – og síðast, en ekki síst, halda klósettunum ævinlega hreinum. Matur hjá McDonald’s er eins og soðna ýsan á laugardögum í gamla daga, manni langar alls ekki í hann, en maður veit þó að hverju maður gengur og þarf ekki að fletja nefið út á gluggum veitingastaða til að finna hinn eina rétta.

Þessa dagana dvel ég í Kaupmannahöfn, fjarri fjölskyldu, ástvinum og mötunautum mínum, Mús-Lí, Mosu frænku og myndarpiltinum Þöngli. Að afloknu erfiðu dagsverki breytist ég úr tæknivæddu tölvukvendi í sísvangan safnara og legg af stað í leitina miklu að fæðu, skjóli og eldi að orna mér við. Verandi fremur löt að eðlisfari valdi ég dvalarstað minn af fyrirhyggju, steinsnar frá Nýhöfn, Kóngsins Nýjatorgi og Kristjánsborg, en á þessu svæði er ótrúlegur fjöldi veitingastaða og kjólabúða, þannig að ef svo heppilega vildi til að draumaprinsinn birtist við borð mitt, þá er stutt að fara í næstu brúðarkjólabúð. Illu heilli eru mörg veitingahúsin í hverfinu einmitt eins og brúðarkjólabúðir; maður fer þangað ekki inn einn og ótilhafður – og alls ekki án þess að gera boð á undan sér. Nýhöfn er undirlögð af ánægðum túristum; stórum flokkum síkátra Svía, bresku bisnessfólki í óþægilegum og óhentugum fötum, miðaldra, þýskumælandi hjónum, Japönum í jakkapeysum og ástföngnum, dönskum pörum. Veitingahúsin í Nýhöfn hafa engan áhuga á að krækja í aura af einstaklingum. Tálbeitur þeirra virða mig ekki einu sinni viðlits þó ég mæni löngunarfullum augum á matseðla þeirra, svo ekkert hefur orðið af viðskiptum við vertana þar.

Miklir kærleikar hafa hins vegar tekist með mér og bakaradrengjunum á litlum og látlausum pizzastað miðja vegu milli Nýhafnar og Holbergsgötu. Sveinarnir á Selina selja veitingar til opinberrar neyslu á staðnum, eða til einkanota í heimahúsum; hvoru tveggja góðir kostir. Rummungsstór flatbaka kostar um og yfir 50 krónur danskar, sem er vel innan við þúsund krónur íslenskar ef reikningskunnáttan bregst mér ekki, en að auki bjóða þeir uppá hamborgara og kebab. Staðurinn lætur lítið yfir sér að utan, en innan dyra er allt hreint og þokkalegt, þó augljóslega mætti leggja meiri rækt við smáatriðin. Pizzurnar eru bragðgóðar og hæfilega stór máltíð fyrir vel svanga manneskju og borgarinn sem ég borðaði var prýðisgóður, þó frönsku kartöflurnar væru ekki eins og þær bestar verða. Oftar en ekki má stytta sér stundir með því að glugga í blöðin sem oftast liggja frammi, en í síðustu ferð minni fylgdist ég spennt með ævintýrum Amy dómara og hins engilfagra Van Exel aðstoðarmanns hennar í sjónvarpinu rétt við borðið hjá mér. Eftir matinn er tilvalið að rölta í ísbúðina í Nýhöfn, þar sem snúðugur Ítali selur afbragðs ís með fýlusvip (sem þó spillir í engu bragðinu), ellegar koma við í kíosk Maríu og kaupa enn eina bragðtegundina af Tom’s súkkulaðinu til að maula fyrir svefninn. Eftir þrotlausar gönguferðir um bæinn þveran og endilangan á maður sannarlega skilinn lítinn súkkulaðimola.

Almennilegt kaffi hef ég enn hvergi fundið hér í bæ, nema á kaffihúsum Baresso keðjunnar. Ég (og allir aðrir íslenskir kaffiunnendur) yrði ævinlega þakklát hverjum þeim sem kæmi á fót útibúi heima á Frónni. Kaffið á Baresso er nefnilega óaðfinnanlegt, hrein upplifun og alsæla í einum litlum bolla.

Kveðjur frá Köben,

Júlía

   (36 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.