— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 4/12/04
Gríngó í Mexíkó

Staður uppá þrjár og hálfa stjörnu

Eftir hina ágætu reynslu okkar af matargerðarlist mexí-kana á TexMex fyrir nokkru hafði áhugi okkar á suðrænni réttum aukist til muna. Hinn frán- og fagureygði Þöngull hafði á ferðum sínum um borgina rekið bláu augun í nafnið Red Chili við ofanverðan Laugaveg og dregið þá skarplegu ályktun að mexíkanar hefðu rekið gringóanna á Old West á brott.* Þaðan átti Þöngull dapurlegar minningar um tilþrifalítinn Roy Rogers-borgara, en hugsaði sér nú gott til glóðarinnar að gæða sér á bragðmikilli hvæsidillu ellegar asna, að fengnu leyfi okkar stallsystra.

Sólríkan vordag fengu Reykvíkingar enn og aftur að njóta aksturshæfni okkar ágæta skósveins sem þræddi flókið gatnakerfi borgarinnar með bros á vellöguðum vörunum, stýrði fimlega framhjá gömlum konum og barnavögnum (en tókst ekki að sveigja hjá eldri herramanni til fulls – enginn er jú fullkominn) og skiptist á gamanyrðum við Vest-Ling og Júlíu sem nutu þess að svífa um, hátt yfir malbikinu, í vel búinni jappabifreið Þönguls. Mús-Lí kaus að keyra sjálf á mótsstað.

Innandyra virtist allt óbreytt frá því að kúasmalar brenndu þar borgara en þegar betur var að gáð sást greinilega að nýir húsbændur réðu ríkjum og höfðu hengt upp væna kippu af pipar þeim er staðurinn er kenndur við. Illu heilli voru allir básar uppteknir svo við urðum að gera okkur að góðu borð úti á miðju gólfi. Eigendur staðarins eru augljóslega miklir umhverfissinnar því ekki varð betur séð en matseðill Westursins væri endurnýttur, lítt eða ekkert breyttur. Gamlir kunningjar á borð við Roy Roger-borgarann voru enn á boðstólnum, en matsveinar staðarins einskorða sig ekki við Ameríku, heldur leita innblásturs á Ítalíu (og jafnvel víðar í Evrópu), allt austur til Indlands. Slíkur samruni ólíkra menningarheima er ætíð gleðilegur, en fusion-matargerð getur þó snúist upp í alsherjar hringavitleysu. Við ákváðum því að halda okkur við þemað ‘réttir úr suðursveitum’. Mús-Lí, sem er mikil kjötæta, valdi beikonborgara, Vest-Lingur ákvað að gefa Roy Rogers annan séns og pipar-sveinninn Þöngull pantaði sjálfan Red Chili-borgarann. Júlía valdi af pólitískum ástæðum asna sunnan frá Mexíkó. Fljótlega kom vinsamlegur þjónn sem dagað hafði uppi frá tíma gamla vestursins, og tók við pöntunum okkar, sem hann sneri eins og ósjálfrátt yfir á enska tungu af gömlum vana, sjálfum sér til glöggvunar og okkur til gamans.

Þá tók við allöng bið, en umræðuefni skorti til allrar lukku ekki, frekar en fyrri daginn. Þó var undir það síðasta farið að reyna mjög á alkunna samræðusnilld okkar; heimsmálin rædd til þrautar, lausn fundin á vanda Vestfjarða, Ríkisútvarpsins, Gaza og Vesturbakkans, ástand og horfur Lindu P. ígrunduð, árshátíðir og önnur samkvæmi skipulögð – en ekki bólaði á matnum fyrr en að lokinni ýtarlegri lýsingu Júlíu á hannyrðaafrekum sínum frá frumbernsku til þessa dags.

Biðin reyndist ekki til einskis. Maturinn var vel útilátinn og lystugur á að líta, litskrúðugt og brakandi ferskt grænmeti gladdi augað (og jafnvel bragðlaukana) og frönsku kartöflurnar fengu hæstu einkunn. Roy karlinn hafði tekið sig verulega á og rann ljúflega niður, beikonborgarinn og ofnglóðaði asninn sömuleiðis, en mestum tíðindum sætti þó að eldpipar-borgarinn allur hvarf ofan í Þöngul, sem annars hefur sjaldan eða aldrei klárað matinn sinn.**

Staðurinn – og þó miklu fremur matsveinn hans - kom okkur öllum ánægjulega á óvart. Red Chili er ágætur staður - þó þjónustan beri um of keim af hæglæti sunnanmanna*** og sætin séu ósköp óþægileg.

Þökkum þeim er lásu,

Mús-Lí, Júlía, Þöngull og Vest-Lingur (skó- og lærisveinar)

*Hér verður ekki kafað dýpra niður í sögu átakamikilla sviptinga á veitingahúsamarkaði Reykjavíkur, en veitingastaðurinn Old West var áður til húsa þar sem Red Chili er nú.
**Ef frá er talin pylsubitinn góði í hinu sögulega barnaafmæli í Árbænum, sem áður hefur verið minnst á.
***Er hér einkum átt við íbúa í grennd við Vík í Mýrdal.

   (9 af 59)  
4/12/04 08:02

gunniglaepon

jag har i åratal efter mitt könsbyte. från EFNILEGUR UNGUR MADUR.Till Gammall svensk hagga letat efter súrur hrútspungur med gunnars majones her i sviitiod finnes baearens bestu pungur i stureplan
.

4/12/04 08:02

Smábaggi

Viðbjóður. Hvað þurfa svona menn að senda mörg ógeðfelld innlegg til að hægt verði að loka á þá?

4/12/04 08:02

gunniglaepon

kaeri smábaggi firigefdu mer thetta ógedfelda inlegg kanski aldurin ? kanski bjórinn? firirgef mér .en hefuer thú eitthvad ad seja sjálv ? puss och många kramar från sverige

4/12/04 09:00

Jóakim Aðalönd

Aldrei brext yður bogalistin í veitingahúsagagnrýni yðar, frekar en öðru sem þér takið yður fyrir hendur kæra frú Júlía. Ég fór á þennan sama stað um daginn og hann kom mér skemmtilega á óvart, enda fengum við sæti í bás.

4/12/04 09:00

Órækja

Glæsileg umfjöllun að venju hjá Júlíu. Ég vona að þú fáir borgað fyrir þessa matardóma þína, því eftir þennan lestur hef ég sannfærst um að eiga matarviðskipti við Sílí Pipar í dag.

4/12/04 09:01

Lómagnúpur

Fékk mér einmitt áðurnefndan sílaborgara í gær. Hann var glæsilegur og vel útilátinn og ekki slæmur en mér fannst hann ekkert sérstaklega sílalegur. Sjálfsagt hefði ég átt að skella mér á hvæsidilluna.

4/12/04 09:01

Heiðglyrnir

Úrvals hráefni. Vel framreitt. Glæsilegt ***** 5 stjörnur.

4/12/04 09:01

Hakuchi

Pistlar ungfrú Júlíu er án efa það vandaðasta og jafnbesta efni sem birtist í félagsritum. Frábær pistill.

4/12/04 09:02

hundinginn

Heyr heyr!

4/12/04 10:01

Júlía

Illu heilli fæ ég ekki krónu fyrir þrotlaust og óeigingjarnt starf mitt (og félagar mínir ekki heldur, mér vitanlega).
Það gleður mig þó að þið nennið að lesa þessar langlokur og farið jafnvel eftir ráðleggingum - en vissulega væri nú betra að fá væna summu inná reikning.

4/12/04 10:01

Hakuchi

Þú átt sannarlega skilið fúlgur fjár fyrir þrotlaust starf þitt í þágu neytendamála. Aðhald þitt í gagnrýni hefur haldið niður verðum og haldið uppi þjónustu á veitingahúsum borgarinnar.

Reyndar skil ég ekki af hverju ritstjórar Baggalúts hafa ekki fyrir löngu komið upp sér síðu fyrir gagnrýni þína. Hún á sannarlega skilið að vera á áberandi stað á forsíðu Baggalúts. Þannig myndi aðhald að slúbbertum í veitingabransanum aukast til mikilla muna.

Ég skora á Baggalútsmenn að gera sér síðu fyrir gagnrýnina og jafnvel gefa dómana út á prenti. Gagnrýni ungfrú Júlíu gæti hæglega orðið e-k Michelin leiðarbók Íslands.

4/12/04 10:01

Limbri

Nú er svo komið að ég og frú mín leggjum leið okkar í síauknum mæli í miðbæ Odense í von um að eiga huggulega kvöldstund á einhverjum að hinum fjöldamörgum veitingastöðum sem bærinn býður upp á. En þar liggur einmitt vandamálið. Fjöldinn er slíkur að við eigum í hinum mestu vandræðum með að velja og hafna.
Væri kannski hægt að fá þig, elsku Júlía, til að gera nákvæma úttekt á eins og 10 stöðum hér í bænum. Það myndi létta mér lífið svo um munar.

-

4/12/04 10:01

Júlía

Fegin vildi ég gera vandaða úttekt á vertum Óðinsvéa (sem er sérlega snotur bær, ef mig misminnir ekki, og skemmtilegur heim að sækja).
Legg ég til að Bagglýtingar og landsmenn allir efni til samskota svo við stöllur getum heimsótt Gammel-Dansk með skósveinum okkar og þannig leiðbeint Limbra og hans ágætu frú um refilstigu fjónskrar matarmenningar.

4/12/04 11:01

Vladimir Fuckov

Vjer leggjum hjer með opinberlega til að Júlía & co fái greiðslur fyrir úttektir þessar úr digrum sjóðum baggalútíska heimsveldisins (vantar ekki ráðherra neytendamála í Baggalútíu ?). Eigi er nefnilega heppilegt að hafa hjer sama fyrirkomulag á slíkum greiðslum eins og illar tungur segja að tíðkist stundum í tengslum við gagnrýni; þá væri hætta á tortryggni er snerist um að stjörnufjöldi endurspeglaði greiðslugetu og/eða greiðsluvilja viðkomandi staðar en eigi gæði.

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.