— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 5/12/03
Tælenskir töfrar

Alsæl - aldrei þessu vant!

Í liðinni viku klifum við stallsystur upp í fjallabíl Mús-Líar með dyggri aðstoð hins traust skósveins Þönguls (hvern hefði grunað að hann væri nýtilegur sem trappa?) og héldum niður að höfn. Ætlunin var að leggja mat á Hamborgarabúlluna á Geirsgötu en almúginn virtist hafa fengið veður af fyrirætlunum okkar, því heilu bílfarmarnir af hungruðum karlmönnum troðfylltu þröng húsakynni búllunnar svo okkur þótti óráðlegt, öryggis okkar vegna, að freista þar inngöngu. Veður voru nokkuð válynd þennan dag, allhvass vindur og úrhellisrigning ógnuðu heilsu okkar og óaðfinnanlegu útliti allverulega svo við gengum eins rösklega og skótauið leyfði í átt að Kvosinni í leið að vænlegum veitingastað. Mosa frænka stakk upp á að við leituðum skjóls í lágreistum húsakynnum tælenska veitingastaðarins Krúa Thai og bar staðnum vel söguna. Júlía hefur af einhverjum ástæðum lítið dálæti á austurlenskri matargerð enda mikill unnandi stórsteikur, en féllst góðfúslega á að brjóta odd af oflæti sínu, enda orðin hrakin og köld.

Um leið og stigið var yfir þröskuldinn var ljóst að við höfðum tekið mikið gæfuspor. Veggir staðarins eru málaðir í hlýjum og glaðlegum rauðgulum lit sem eykur á matarlystina og blómstrandi plöntur gera staðinn enn vistlegri.Ylur færðist um líkama okkar og sálu þegar við mættum hinum brosmilda og elskulega afgreiðslupilti sem tók við pöntunum gesta við skenkinn. Það er sjaldgæft að mæta svo hlýju og einlægu viðmóti annarsstaðar en hjá sínum nánustu. Þessi glaðlegi og geðugi ungi maður tók á móti sérhverjum matargesti með björtu og fallegu brosi, sem bræddi ungmeyjarhjörtu okkar algerlega og náði jafnvel að verma Þöngli, sem ekki er allra, um hjartaræturnar.

Krúa Thai er tilvalinn hádegisstaður. Þar eru ekki þjónað til borðs á hefðbundinn hátt, heldur koma gestir óskum sínum á framfæri við þann sem stendur við skenkinn en hann sér um að koma þeim boðum áfram til þeirra sem standa yfir pottum og pönnum í eldhúsinu. Allt þetta tekur örskamma stund og minnti okkur á bernskuárin, þegar mamma skammtaði mat við eldhúsborðið. Við ákváðum öll að panta okkur rétt dagsins, sem samanstóð af fjórum mismunandi réttum; djúpsteiktum fiski, kjúkling, svínakjöti og steiktum núðlum. Við komum okkur vel fyrir við rúmgott borð og eftir skamma stund bar elskuleg og móðurleg kona okkur hraukaða diska af tælenskum kræsingum.

Vissulega kann hið einstaklega ljúfa viðmót starfsfólksins að hafa haft áhrif á okkur, kannski var það hlýlegt umhverfið eftir óveðrið út, kannski var bara óvenju auðvelt að gera okkur til geðs þennan daginn. Hver sem ástæðan var, þá þótti okkur maturinn bragðast sérlega vel, jafnvel þó við finndum ýmsa smávægilega galla. Mosu frænku þótti svínakjötið full þurrt og Mús-Lí og Júlíu fannst of mikil sojasósa með núðlunum, en samt var þetta afbragðs máltíð. Fiskurinn bráðnaði í munni og var með því allra besta sem við höfðum bragðað á hérlendum veitingahúsum, gerólíkur þurrlegum bræðrum sínum sem við neyddumst til að borða (alltof oft) í bernsku. Ekki tókst okkur að ljúka við allt það sem var á diskunum, enda slíkt þrekvirki varla á færi annara en hraustustu hafnarverkamanna og sjógarpa. Þöngull varð að játa sig sigraðann eftir karlmannlega baráttu við kúfaðan diskinn en við stallsysturnar fylgdumst með í þögulli aðdáun.

Rétti dagsins fylgir kaffi. Allnokkrar vangaveltur voru fyrirfram um gæði þess, Þöngull hafði talsverðar efasemdir um að það væri drekkandi og Mosa bjóst allt eins við að te væri í kaffikönnunni, Júlíu til ómældrar skelfingar. Kaffið á Krúa Thai kom okkur því öllum skemmtilega á óvart. Það reyndist prýðisgott, snarpheitt og ilmandi; hið fullkomna íslenska kaffi í öllu sínu látleysi og einfaldleika. Þetta er kaffi sem yljar manni inn að beini á köldum degi, bregður birtu á hversdaginn og á fullkomna samleið með kleinum og jólakökusneið – sem því miður var ekki í boði. Meðan við náðum okkur í kaffi hafði móðurlega konan hreinsað borðið fljótt og vel, svo óhreinir diskar spilltu ekki ánægjunni.

Það er alltof sjaldan sem maður uppgötvar staði á borð við Krúa Thai. Eigendur staðarins og starfsfólkið allt á heiður og lof skilið fyrir frábæra gestrisni og hlýtt viðmót, sem aðrir ættu að taka sér til fyrirmyndar. Staðurinn er lifandi sönnun þess að það er ekki sérhönnuð innrétting, umfjöllun í glanstímaritum eða ofskreyttir réttir sem gera góðan veitingastað. Bragðgóður matur, hröð og lipur þjónusta, vingjarnlegt viðmót og látlaust umhverfi gerir Krúa Thai að þeirri perlu sem hann er í veitingahúsaflóru borgarinnar.

Bravó, bravó! Kærar þakkir fyrir okkur!

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía og Þöngull (skósveinn)

P.S. Krúa Thai fær fjóra og hálfa stjörnu - eini ókosturinn er nafnið sem erfitt er að muna.

   (41 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.