— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 6/12/03
Maddama, kerling, jómfrú og júngherrar

Herlegt hádegi

Nú er sumarið sannarlega gengið í garð og öflugt sumarstarf okkar stallsystra komið á fullt skrið. Ólíkt öðrum menntastofnunum sem alla jafnan losa sig við nemendur um þetta leyti árs höfum við opnað náðarfaðm okkar fyrir gömlum lærisveini, Vest-Lingi sem kominn er aftur úr Vesturheimi. Við höfðum því tvo til reiðar, ef svo má að orði komast, í hádeginu í dag. Mús-Lí hefur nýlega fjárfest í forkunnarfagurri bifreið af Tojóts-ættinni og til að geta nýtt hana sem mest og best flutti hún sig um set og hefst nú við í útjaðri borgarinnar. Við Mosa frænka urðum hins vegar þeirrar ánægju aðnjótandi að ferðast um í karlmannlegri, upphækkaðri jeppabifreið Þönguls* um öngstræti miðborgarinnar, því ferðinni var heitið á smurbrauðsstofu jómfrúr Jakobs í Lækjargötu.

Mús-Lí hafði af mikilli forsjálni pantað borð fyrir hópinn, því rétt eins og Jósep og Maríu forðum hefur okkur margoft verið úthýst úr sölum Jómfrúrinnar. Við fengum ágætt borð við glugga á reyklausu svæði og hófum að lesa hnausþykkan og fagurlega myndskreyttan matseðil staðarins. Þar sem margt girnilegt var í boði ákváðum við öll að panta okkur tvennskonar smurbrauðsneiðar hvert. Mosa frænka fékk sér laxatartar og beikon og camembert sneið, Vest-Lingur valdi roastbeef timbraða mannsins (enda eftir sig eftir þjóðhátíðina) og síld með eggi. Mús-Lí og Júlía höfðu báðar augastað á girnilegri sneið með lambasteik og völdu krabbasalat og karríblandinn kjúkling til að setja alþjóðlegri svip á pöntunina. Þöngull tók þá skynsamlegu ákvörðun að feta í fótspor okkar og panta lambasteik, en valdi hálfan Portúgala með, sem verður að teljast einkar viðeigandi, þar sem hann fylgist spenntur með átökum knattspyrnumanna þar syðra þessa dagana.

Fjölbreytilegt val, fágað fas og heimsmannslegt yfirbragð okkar olli því að þjónninn taldi okkur fjölþjóðlegan hóp heimsborgara (sem ekki er fjarri lagi), ómælandi á íslenska tungu en kjarnyrt tilsvör okkar leiddu honum brátt hið sanna í ljós. Bað hann okkur lengstra orða að sýna biðlund og þolinmæði, því eins og allar góðar húsmæður vita er seinlegra að smyrja tíu hálfar sneiðar en fimm heilar. Varnaðarorðin voru þó óþörf, því ekki leið á löngu uns Jakob sjálfur bar okkur fagurskreyttar sneiðarnar. Það er skemmst frá því að segja að allt bragðaðist smurbrauðið ákaflega vel og gladdi bæði augu og braglauka. Brauðmeti af þessu tagi er tilvalinn matur í hádeginu, enda er Jómfrúin með vinsælustu matsölustöðum borgarinnar og fjölmargir mæla sér þar mót við vini eða vinnufélaga í viku hverri.

Eftir matinn gæddum við okkur á snarpheitu og hressandi kaffi og mauluðum danskt konfekt af einkabirgðum Júlíu Þöngli til nokkurs ama, þar sem honum finnst óviðurkvæmilegt að taka með sér veitingar á veitingahús.** Síðan skildu leiðir á Lækjargötunni. Það var vel við hæfi að kveðjast undir fána með gamla, íslenska skjaldamerkinu, þar sem danska kórónan trónir yfir landvættunum.

Meira síðar,

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía, Þöngull (skósveinn) og Vest-Lingur (eilífðarstúdent)

*Af þessu mætti ætla að fjárhagur okkar litla hóps hefði vænkast allverulega á síðustu misserum. Betur ef satt væri!
**Þöngull hefur sannarlega nokkuð til síns máls. Gestir veitingahúsa skyldu aðeins í algerum undantekningartilfellum gæða sér á eigin gúmmelaði.

   (35 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.