Lesbók01.10.08 — Enter

Djöfull vorum við full í gær. Almáttugur minn einasti. Djöfull vorum við mökkflennihelluð og gersamlega útúr því.

Úff.

Þetta byrjaði svosum nógu vel. Allir í góðu stuði. Notaleg stemning. Allir til í að skemmta sér, lyfta sér aðeins upp. Kíkja í bæinn. Fá sér einn.

En svo bara gerðist eitthvað. Einhvern veginn. Við bara misstum það. Kannski vorum við bara of þreytt, eða drukkum of hratt – og of mikið. Blönduðum tegundum og slepptum okkur í skotunum. Hvað veit ég? Þetta fór bara úr böndunum.

Á einhverjum tímapunkti fórum við yfir strikið. Ég veit ekki hvenær. Kannski var það ekki fyrr en undir lokin. Kannski var það fyrr. Ég man það ekki. Við urðum bara algerlega ... hömlulaus. Reyndum við vitlaust fólk. Dönsuðum. Döðruðum. Splæstum. Og drukkum. Stíft.

Það var gaman. Ég ætla ekki að neita því. Það var ógeðslega gaman. Hjá öllum. Loksins. Við áttum heiminn. Við! Við sem aldrei áttum neitt. Við gátum allt og við máttum allt. Og við gerðum allt ... allt.

En svo var bara heimildin búin. Klippt á kortið. Þá vöknuðum við. Eða rönkuðum í öllu falli við okkur. Slöguðum heim, gleyptum í okkur bólgueyðandi og skjögruðum í bælið. Allt hringsnerist fyrir augunum á okkur, jafnvægið farið. Og sjálfsstjórnin.

Mundum síðast eftir okkur á hnjánum, spúandi. Öllu.

Já djöfull vorum við full í gær. Öll. Og guð minn góður hvað við erum timbruð í dag.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182