Lesbók21.10.03 — Enter

"Þú meinar vegahandbókina," sagði hún og smjattaði á tyggigúmmíinu: "Hún er þarna í rekkanum hjá Andrésblöðunum." Afgreiðslustúlkan hlammaði sér aftur á bak við afgreiðsluborðið og blaðaði í einhverju bleiku og glansandi.

"Nei, ég meina bókina um veginn." Þetta þótti mér argasta ókurteisi, hún leit ekki einu sinni upp. Ég brýndi raustina eilítið: "Eftir Lao-Tse. Lítil bók. Með öllu í."

"Með öllu í?" skríkti hún og blés blárri tyggjókúlu út um annað munnvikið. "Hvers konar bók er það eiginlega?" Hún virti Brad Pitt gaumgæfilega fyrir sér.

"Þetta er ævaforn austurlensk heimspeki. Taó. Ekki að þú myndir vita hvað það er." Ég dæsti og fór að skoða strokleður sem lágu þarna í krukku á borðinu.

Nú leit hún loksins upp og sendi mér ógnandi tyggjókúlu: "Góði vertu ekki svona ánægður með þig. Þú þarft sko ekkert að segja mér um Kínverja." Hún benti ákveðin á mynd af Hr. Pitt þar sem hann ræddi með djúpspökum svip við smávaxinn eskimóa. "Þetta eru tómir fasistar þarna. Sérstaklega þessi Maó þinn."

"Taó," hvæsti ég og kreppti lófann um eitt strokleðrið. "...og þessi mynd er ekki frá Kína frekar en ég."

"Ég veit það vel - hún er frá Hollywood. Heldurðu að ég sé asni?" Hún starði reiðilega á mig - eins og hún vissi svarið.

"Og hverjum annars ekki er sama? Þeir gera ekki annað en að skjóta niður túrista þarna suðurfrá hvorteðer." Hún sökkti sér á ný ofan í heimildaritið sitt.

Ég var agndofa. Hvernig gat hún þetta? Ég tók tvö skref afturábak til að sogast ekki inn í þetta gapandi tóm sem hún nýtti til að misþyrma tyggjóplötum.

"Ætlarðu kannski að fá eitthvað annað?" Hún lét blaðið síga. Ég hlustaði á enn eina kúluna springa með tilheyrandi soghljóðum. Ég hallaði mér fram yfir afgreiðsluborðið eins ábúðafullur og ég gat - og hvíslaði: "Nei, ég ætla bara að fá hjá þér bókina um veginn."

Hún færði mér skakkt, hæðnislegt bros - hætti alveg að tyggja - og hvíslaði á móti: "Þessi bók þín - um vegginn - er bara uppseld." Ég kyngdi. "..en við eigum uppskriftabók fyrir hrísgrjón," hún hallaði sér sigri hrósandi aftur og fletti.

"Þú getur bara sjálf verið hrísgrjón! Hvernig geturðu sagt að hún sé uppseld þegar þú ert ekki einu sinni búin að gá að henni fyrir mig?" Ég var búinn að tæta í sundur strokleðrið.

Hún stundi yfirlætislega og lokaði blaðinu. "Sko, ég veit bara það að svona jógabækur seljast sama og ekki neitt. Þú getur örugglega fengið hana í heilsubúð eða apóteki - og keypt þér róandi í leiðinni." Hún virti ásakandi fyrir sér leifarnar af strokleðrinu.

"Ert þú að halda því fram við mig, blákalt, að ég eigi að kaupa bókina um veginn í apóteki!? Og hvað? Kóraninn á Grænum kosti og Biblíuna á Dominos!?" Mér var flökurt.
"Hvaða voða voða. Hvað liggur þér svona á þessari bók?" Nú var hún búin að finna grein um Leonardo diCaprio og mildaðist aðeins.

Ég andaði nokkrum sinnum djúpt: "Ég ætla að gefa þessa bók í afmælisgjöf."

"Strákur eða stelpa?"

"Frænka."

"Gefðu bara pening."

"Fyrirgefðu?"

"Ég held ég yrðekki brjáluð ef ég fengi einhverja súra kortabók." Hún brosti framan í Leo og setti stút á munninn.

Ég var bugaður. Gersigraður. Ég gerði lokatilraun til að bæta heiminn og muldraði: "Bókin um veginn fjallar um það að vera til."

Hún lagði blaðið frá sér og stóð upp. Hún var dálítið ógnandi. "Sko, þú kemur hérna askvaðandi og heimtar einhverja fúla skruddu um masorkisma..."

"Taoisma," muldraði ég máttleysislega.

"Rífst og skammast og æsir þig upp úr öllu valdi. Setur þig á bláan hest og talar við mig eins og einhvern hálfvita. Þú ættir bara að láta venjulegt fólk í friði og hundskast út."

Ég kinkaði dauflega kolli og sneri mér við. Fyrir aftan mig hvellsprakk enn ein tyggjókúlan: "Og borga þetta strokleður góði."

 
Enter — Saga
 
Enter — Saga
 
Myglar — Saga
 
Númi Fannsker — Saga
 
Myglar — Saga
 
Fannar Númason Fannsker — Saga
 
Myglar — Saga
 
Enter — Saga
 
Kaktuz — Saga
 
Kaktuz — Saga