Lesbók03.05.16 — Spesi

Þegar Númi Fannsker tók við sem formaður húsfélagsins í fjölbýlishúsinu þar sem við félagarnir bjuggum í Breiðholti fyrir rúmlega hálfri öld, 30. apríl 1961, urðu tímamót í sögu hverfisins. Aldrei áður höfðu íbúar hússins notið jafn góðs aðhalds í þeim sameiginlegu verkefnum sem sneru að sameign húss og lóðar, svo sem þrifum og viðhaldi. Númi sá til þess að enginn gleymdi skyldum sínum í þeim efnum, var duglegur að ganga á eftir þeim sem virtust ætla að gleyma sér og vílaði til dæmis ekki fyrir sér að banka upp á með áminningar ef með þurfti, hvenær sem var sólarhringins.

Og Númi lét sig ekki aðeins varða sameiginlegu rýmin. Eitt sinn komst hann á snoðir um að einn íbúanna hafði um nokkurt skeið haldið kött í íbúð sinni, en allt gæludýrahald var stranglega bannað samkvæmt reglum húsfélagins. Númi brást skjótt við, fangaði kettlinginn og kom honum í hendur viðeigandi yfirvalda. Og það sem meira var, lét sem vind um eyru þjóta mótmæli og harmakvein barna kattareigandans sökótta. Augljóst er að þetta atvik varð til þess að engin brot voru framin á húsfélagsreglunum á meðan hann sat í embætti.

Margt eftirminnilegt má nefna úr formannstíð Núma, demantanámurnar sem hann fann í kjallara fjölbýlishússins og nýttust okkur til ýmissa framkvæmda, fallegu tónverkin hans (sem nokkrir óknyttapiltar frá Liverpool stálu og létu sem þeir hefðu samið), regnbogann sem iðulega myndaðist upp frá fjölbýlishúsinu okkar í hvert skipti sem hann brá sér á salernið og ýmislegt í þeim dúr. En ég læt hér staðar numið í upprifjun minni á þessum upplitsdjarfa alþýðupilti, vini mínum til hálfrar aldar og félaga í ritstjórn Baggalúts. Megi hann lengi lifa; húrra, húrra, húrra, húrra!

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182