Lesbók25.11.16 — Enter

Ég svaf ekki mikið, var sveittur og þvalur,
svolítill hnútur í kviðsýrum reri.
Ég bylti mér ótt og ég blés eins og hvalur.
Beit mig í koddann og sænginni sneri.
Einkenni þessi þið ættuð að kenna
andsvítans pestin er býsna vel þekkt:
— Á svartföstudegi er verðið svo viðráðanlegt.

Við alfyrsta klukknapíp flaug ég á fætur
fréttablöð morgunsins sílspikuð gleypti.
Af allskonar tilboðum ilmurinn sætur
ærði minn hug — sem þau fyrirfram keypti.
Með uppblásnu prentletri öskraði til mín
hver einasta löngun mín, kaupfýsn og þrá.
— Á blakkföstudögum er billega díla að fá.

Útsöluþyrstur og afsláttargraður
ég æddi til byggða í kaupstjarfaleiðslu.
Auðkeyptur viljugur innkaupamaður
ærður af meðvirkri vörutilbeiðslu.
Ég varð bara að veita fíkninni farveg
í fjarska reis verslunarbiðstöðin glæst.
— Á fjárdegi stendur þér frábærust upplifun næst.

Um kauphallardyrnar ég klöngrast að lokum
með kortin á lofti í ilmsterkri þvögu,
ónothæft glingur í útbelgdum pokum
— einmana trúður í harmrænni sögu.
Sturlunin veitir mér velsældarfróun,
ég veit hún mun hverfa er kauprykið sest.
— Á þeldökkum föstara þarft þú að eignast sem mest.

Hjartsláttur! Afsláttur! Allt á að seljast!
Allt er á fáheyrðum geðveiluprísum.
Taumlausar hjarðir við hlaðborðin kveljast.
Hryllileg óhljóð frá margstungnum grísum
sem misstu af tilboði, magna upp ofsann.
Þetta minnir á Ansvítans innkaupaferð.
— Á surtsdegi finnur þú hagstætt og heiðarlegt verð.

Dagur að kveldinu kemst, seint um síðir.
þá kjaga ég burtu í algleymisvímu.
Með bílfylli óþarfans engu þú kvíðir
í ömurðarhversdagsins svartnættisglímu.
Uns hverfur í skyndingu höfgin og sælan.
þá höndlar þú sannleikans helbleiku nekt:
— Á svartföstu sýndist mér verðið svo viðráðanlegt.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182