Lesbók01.01.09 — Enter

Við áramót er þakklæti efst í huga mér.

Ég er þakklátur fyrir kreppuna og öll hennar samþjappandi samlegðaráhrif. Þakklátur fyrir þennan óvænta, en hressilega, löðrung sem hefur vakið heila þjóð af doða og dauðyflishætti.

Ég er þakklátur fyrir allar erlendu skuldirnar, öll lánin og alla vextina sem við þurfum að borga um ókomin ár. Það kennir okkur að öllu gamni fylgir alvara – og að maður þarf jú alltaf að hreinsa upp eftir gæludýrin sín, sérstaklega ef þau sleppa inn á annarra manna lóðir.

Ég er þakklátur fyrir öll hálfkláruðu flennihýsin, hverfin og glerhallirnar sem minna okkur á að fara gætilega næst þegar við, eða afkomendur okkar, hafa tök á að stækka við sig.

Ég er þakklátur fyrir verðbólguna, okurvextina og blessaða verðtrygginguna, sem heldur jú lífinu í gamla fólkinu, þrátt fyrir að virðast agnarponkupínulítið ósanngjörn fyrir okkur hin.

Ég er þakklátur fyrir hetjurnar okkar hugumprúðu sem komu þjóðinni á vonarvöl og kenndu okkur enn og aftur að við eigum ekkert erindi af þessu skeri. Ég vona að þær hafi haft það gott um jólin og svelgst sem allra minnst á kampavíninu og trufflunum.

Ég er þakklátur fyrir öll krosseignatengslin, klíkuskapinn og spillinguna, sem halda þjóðfélaginu þrátt fyrir allt saman. Því hvað er mikilvægara en að menn standi saman á erfiðum tímum, rækti vináttu- og fjölskyldubönd og sjái um sína?

Ég er þakklátur fyrir öll innantómu loforðin, hughreystingarnar og innistæðulausu stóryrðin sem ekkert eru og engum gagnast. Því þó þau deyfi ekki sársaukann þá sýna þau að stjórnvöld eru þó með einhvers konar lífsmarki.

Ég er þakklátur fyrir allt bloggið, allar aðsendu greinarnar, allar nafnlitlu athugasemdirnar, allt tuðið og allt kvabbið. Öll harðorðu innanhússmótmælin, heilögu stofureiðina sem enginn þarf að þrífa upp eftir, enginn þarf að andlitsúða með piparsýru og enginn þarf að leysa lúpulega úr varðhaldi.

Ég er þakklátur fyrir allt ónýta fjármálaeftirlitið, yfirgengilegt dugleysi þess og vanmáttinn, sem minnir okkur á að vera ekki sífellt með nef ofan í hvers manns koppi. Sér í lagi ekki demantsskreyttum gullkoppum sem við gætum sjálf fengið að krossmíga í einn daginn.

Ég er þakklátur fyrir Seðlabankann okkar, sem skyndilega er ekki lengur bara kuldaleg grafhvelfing útbrunninna stjórnmálamanna – heldur hefur fengið nýtt hlutverk sem líkbrennsluofn krónunnar.

Ég er þakklátur fyrir verkalýðsforingjana okkar pattaralegu, djörfung þeirra og fórnfýsi. Megi sem flestir molar falla af bakkelsissveigðum samningaborðum þeirra á nýju ári.

Ég er þakklátur fyrir allt atvinnuleysið, allan tímann sem fólk fær þannig á silfurfati til að hugsa sinn vanagang, vera með fjölskyldunni og bollaleggja landflótta.

Já og ég er innilega þakklátur fyrir ráðamenn þjóðarinnar, meintan sóma okkar uppblásin sverð og pappaskildi. Ég vona sannarlega að viðvarandi óbragðið í munninum hafi ekki spillt hátíðarmatnum fyrir þeim.

Takk fyrir ekkert.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, 4 ... 180, 181, 182