Lesbók22.03.05 — Enter

Jæja. Þá er búið að mata þjóðina á nýjasta Eurovision smellnum. Prýðislag, jájá. Dillandi balkandiskósamsull - mátulega laust við annan íslenskan stirðbusagang og skammdegismærð. Gott og vel.

En við salatskál aldraðarar ömmu andskotans – hvað átti meðfylgjandi myndskeið eiginlega að fyrirstilla?

Þarna hleypur hún Selma blessunin , þessi annars geðuga stúlka, um Vesturbæ Reykjavíkur á eftir einhverjum hæggengum strákræfli – með morðglampa í augum, íklædd blóðrauðri hempu og vopnuð allvígalegum veiðiboga. Undir markvissum slætti dynjandi diskóbumbnanna verður hún sífellt æstari og hleypir af boganum í allar áttir, brýtur bílrúður og annað smálegt í einhvers konar sjúklegri leiðslu – ellegar diskóæði.

Þessari tryllsku lýkur svo með því að hún króar fórnarlambið af, dregur ör á streng og myrðir það með köldu blóði.

Allt í gamni auðvitað.

Mikið ægi- og afskaplega held ég að þær þjóðir Evrópu sem helst hafa þurft að horfa upp á blóðsúthellingar og önnur skemmtilegheit út um stofugluggann hjá sér á undanförnum árum eigi eftir að kunna vel að meta þessa stílfærðu útgáfu okkar friðelskandi þjóðar á samskiptum kynjanna.

Máske Serbarnir springi hreinlega úr hlátri? Hver veit?

Gott ef við fáum ekki bara 12 stig fyrir smekkvísi – og skilning á mannlegu eðli.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, 4 ... 180, 181, 182