Lesbók30.01.14 — Enter

Matur er okkur miklu meira en lífsbjörg í dag. Við borðum þegar okkur leiðist. Við borðum þegar við viljum hafa gaman. Við borðum í bílnum. Við borðum í sófanum. Við borðum meir að segja á meðan við horfum á annað fólk borða.

Við tölum um mat. Við lesum um mat. Við horfum á mat. Við ljósmyndum mat. Við rífumst um mat. Við keppum í mat. Við hugsum um mat.

Matur er afþreying.

Á meðan við tæmum hugsunarlítið ísskápa okkar og frystikistur horfum við á réttnærða töfralækna galdra fram eitthvað lystugra og heilnæmara en við orkum að koma á okkar eigin diska.

Í sjónvarpinu heldur heldur þetta fólk til — vel meinandi efalítið — og handleikur lík af ýmsum ónafngreindum en vissulega gómsætum skepnum.

Stundum sömu skepnum og við vorkennum þessi lifandi býsn að þurfa að lifa sínu stutta, excelútreiknaða ömurðarlífi við skelfilegar aðstæður — allt fram að því að við slátrum þeim og étum þau.

Ég veit ekki með ykkur, en heldur kýs ég að hírast í sólar- og sálarlausu umhverfi, ataður eigin vessum með kvalaóp í hlustum og dauðann fyrir vitum mér öllum stundum — fremur en að láta handleika mig af niðurskornum sjónvarpskokki, hamflettur, aflimaður, makaður kryddblöndum, sundursaxaður, steiktur upp úr brennandi rjóma — innan um bláókunnuga sveppi og annað skringimeti. Og loks étinn af tannhvíttum flissandi matgæðingum fyrir allra augum.

Aðferðin fest á bók og framkvæmdin sett á VOD-ið.

 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 180, 181, 182