— GESTAPÓ —
krossgata
Heiðursgestur.
Dagbók - 3/12/06
Að kenna sparsemi

Hagfræðingar þessa lands fá bara ekki nóg af því að tuða yfir því að meðal-íslendingurinn kunni bara að eyða og við séum að steypa okkur í glötun með allri eyðslunni og við verðum að læra að spara.

Á heimili mínu er sæmilega stór baukur í alfaraleið í eldhúsinu. Í hann er gjarnan hent klinki því er til fellur svona dags daglega. Smátt og smátt fyllist hann og sonur minn fer með hann í bankann og leggur inn á agalega fínan sparnaðarreikning - framtíðarreikning. Það hefur allt gengið ljómandi vel og stoltur fylgist hann með reikningnum sínum fitna.

Svo var það um daginn að baukurinn fylltist og tími var kominn til að leggja inn. Farið er með baukinn í bankann og þar er tekið við honum og peningunum hellt í þar til gerða vél, sem telur fjársjóðinn. Svo kemur starfsmaðurinn að borðinu og rukkar krakkann um 100 krónur. RUKKAR BARNIÐ UM 100 KRÓNUR FYRIR TALNINGU!!!! Ég næ bara ekki upp í nefið á mér af hneykslun. Hann gat auðvitað bjargað sér með því að taka pening af þessari nýtöldu upphæð og greitt, en mér finnst þetta fyrir neðan allar hellur.

Ég sagði þessum banka (persónugeri bankann hérna) að framvegis myndi ég bara telja heima og leggja upphæðina inn. En... nei góða, það þarf að fara í gegnum talningarvélina og þú þarft að borga 100 krónur fyrir það. Ég bara samþykki það ekki, ef þeir endilega vilja telja þetta aftur þá geta þeir bara borgað sjálfir.

Mér finnst þeir geti rukkað verslanir, sjoppur og fyrirtæki fyrir talningu á klinki, en ekki börn sem eru að safna einhverjum smápening og eru að læra að fara með peninga. Þá hirða þeir, slefandi af græðgi, þessa óveru sem börnin eru að reyna að safna. Á meðan hrópað er úr hverjum fjölmiðli: "Íslendingar eru að steypa sér sjálfir í glötun af því þeir geta bara eytt en ekki sparað" sitja bankarnir og bíða eftir að geta sökkt klónum á kaf í krakkagrey og látið þau borga, eyða spenna. Sjálfsagt eru svo tekin færslu- og þjónustugjöld af því að leggja töldu upphæðina inn á reikninginn. Ég skoðaði það bara ekki sérstaklega.

Hér eftir mun ég telja peningana heima, skipta þeim úti í sjoppu og mæta með seðla. Það er enn nefnilega ekki rukkað fyrir að gjaldkerinn telji seðlana sem hún/hann tekur við.

   (15 af 26)  
3/12/06 12:01

Billi bilaði

Já, en bankarnir eru svo fátækir.

Er það ekki annars?

3/12/06 12:01

Offari

Bankarnir standa illa þessa dagana þetta er eitt þeim úrræðum sem þeir gerðu til að ná sér í aur. Enda ástæðulaust telja frítt fyrir börn sem ekki eru einu sinn byrjuð að borga yfirdráttarvexti.

3/12/06 12:01

krossgata

Ah! Einmitt, þeir eru örugglega að hefna sín á minni fjölskyldu því við höfum aldrei verið með eða notað yfirdrátt. Það er nú bara til að mergsjúga fólk.

3/12/06 12:01

Dúlli litli

Bankar eru fífl!

3/12/06 12:01

Útvarpsstjóri

Ég varð einu sinni vitni að því að gjaldkeri í banka neitaði að taka við klinkhrúgu af því að talningarvélin var biluð og hann sagðist ekki nenna að telja peningana. Það má fylgja sögunni að það var enginn að bíða eftir afgreiðslu í bankanum.

3/12/06 12:01

B. Ewing

Eina leiðin sem ég þekki til að losna við að vera rukkaður um þessa upphæð í dag, er að fara með klinkið í Landsbankann í Mjódd.
Áður en komið er með klinkið þarf að flokka það, (fimmkalla sér og tíkalla sér og krónur sér og fimmtíukalla sér o.s.frv.) Þar er bankinn með sérstaka vél sem tekur einfaldlega fjölda peninganna og fjöldanum er margfaldað með verðmætinu.

t.d. 400 fimmkallar = 2000 krónur og ekkert rukkað af því.

Einnig er ráð að hætt alfarið viðskiptum við viðkomandi banka og finna banka sem rukkar ekki börn fyrir að spara. Þann banka hef ég ekki fundið (og ekki leitað að ennþá).

3/12/06 12:01

Vímus

Ég er svo brjálaður út í bankana á þessari stundu að þessi lestur er aðeins til að auka á reiðina. Fyrir nokkrum mánuðum var ég mættur klukkan 10 mín fyrir fjögur í kofaskrífli sem er útibú Landsbankans í Grafarvogi. Þarna mjakaðist þjónustan áfram með hraða snigils. Þegar röðin kom að mér hálftíma síðar var ég krafinn um 150 kr vegna þess að klukkan var orðin korter yfir fjögur. Ég harðneitaði að borga þetta og hélt smá fyrirlestur um græðgi þessara glæpasamtaka og fólkið sem enn beið tók undir þetta og ég afþakkaði afgreiðsluna og gekk út en þá var allt komið í háa loft. Núna ætlaði ég að borga 180 þ. sem voru komin í vanskil hjá Spron. þessi upphæð var komin í 446 þ. á 10 mánuðum Ég sagði að ég gaæti borgað 400 þ. Daginn eftir var hringt í mig og sagt að 415 þ væri lámark.
Þvílík andskotans græðgi.

3/12/06 12:02

Kondensatorinn

Ömurlegir aurapúkar. Þeir munu einn daginn springa af græðgi.

3/12/06 13:00

Tina St.Sebastian

Ekki gleyma því að það kostar líka 100 krónur að færa fé á milli banka.

3/12/06 13:00

albin

Hefuru reynt við sparisjóðinn?

3/12/06 13:00

Jóakim Aðalönd

Að telja peninga er eitt af því sem ég framkvæmi ókeypis!

(Það eina sem hægt er að gera í þessu er að segja upp viðskiptum við bankann og færa viðskiptin erlendis. Ég er í viðskiptum við svissneskan banka og er hæstánægður með það.)

3/12/06 14:01

Nermal

Djöfulsins skítalabbar eru þetta. Ég er einmitt svona klinksafnari og hefur það gefið ótrúlega vel á stundum. Hvað koma þeir með næst? Undirskrifrargjald? Eða kanski rukka þeir fyrir littla miðan sem maður tekur. Við verðum bara að taka þetta út í kaffi þar sem það er hægt!!

3/12/06 15:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Mæl þú manna heilust.

Kemur mér nú í hug hið þjó(ð)kveðna:

Eniga meniga.
Ég á enga peninga.
Súkkadí búkkadí.
En ég get sungið, fyrir því.

3/12/06 17:01

Steinríkur

Ég þoli ekki klink - hendi því venjulega í stóra krukku þegar ég kem heim. Þegar hún fyllist er rölt út í banka og skipt í seðla. Þetta er gamaldags útgáfan af "Eigðu afganginn" sem Glitnir var að finna upp.

Gjaldkerinn þarf bara að ganga 4 metra, hella úr krukkunni, taka við útprentuninni og borga mér það sem sem stendur á seðlinum.
Af hverju erum við látin borgar meira og meira fyrir minni og minni þjónustu?

krossgata:
  • Fæðing hér: 20/11/06 10:54
  • Síðast á ferli: 1/2/22 11:03
  • Innlegg: 8534
Eðli:
Stend á krossgötum ráðandi krossgátur.
Fræðasvið:
Orðhengilsháttur og útúrsnúningar.
Æviágrip:
Mætti í heiminn fyrir þó nokkru með töluverðum flumbrugangi, það er töluverðu fyrir tímann og hef síðan velt því fyrir mér hvert halda skuli. Fór að tala fyrir tímann líka og varð læs fyrir tímann. Þetta fyrirtímabrölt hefur allt leitt mig að þeirri niðurstöðu að ég er greinilega á undan minni samtíð.Safnaði um tíma ambögum, en hef látið það vera um nokkurt skeið.

Örlögin höguðu því svo til að krossgata er vel kunnug staðháttum við Faxaflóa, þó undanskilið sé stór-Reykjavíkursvæðið. Hefur það aukið víðsýni hennar töluvert.