— GESTAPÓ —
krossgata
Heiðursgestur.
Saga - 3/12/06
Örsaga.

Örsaga, af því hún er frekar smá.

Hvað?

Það var allt grænt, þessi hreini græni litur grass eftir rigningu. Í sjálfu sér var alls ekkert undarlegt við það að allt væri grænt, þetta var jú graslendi. Grasið var nokkuð hátt og einhvern veginn var það róandi að horfa á það. Þar sem það bylgjaðist letilega öðru hvoru undan hægum vindi. Það var undarleg friðsæld yfir öllu umhverfinu. Meira að segja í hreyfingu grassins var friður, eins og ósýnileg hönd stryki blíðlega yfir það. Hún fann snertinguna á eigin húð í hvert sinn sem hún horfði á bylgju fara yfir grasið. Tilfinning öryggis og ólýsanlegs friðar fyllti alla hennar skynjun og hún lokaði augunum, dró andann djúpt. Þessi heimur var eins og draumaheimur hennar, sem hún hafði átt sem barn. Þegar hún lék sér fannst henni alltaf eins og allt væri grænt, sólríkt og friðsælt, í minningunni alla vega.

Þá var það eitthvað sem truflaði hana, friðsældin rann í burtu eins og vatn á milli fingra og kvíðinn nísti hana. Það var eitthvað sem ekki var rétt. Hún opnaði augun, ekkert var breytt. Þarna bylgjaðist grasið letilega, þessi hreini græni litur fyllti enn umhverfið. Hún hlustaði eftir hljóðum í umhverfinu og það rann upp fyrir henni hvað var að. Það voru engin hljóð, hún heyrði ekkert. Ekki í vindinum, ekki skrjáf í grasinu, ekki fuglasöng eða neitt annað merki um líf. Það flaug henni í hug eina augnabliksstund hvort hún væri heyrnarlaus, en hún var viss um að svo var ekki.

Hún starði yfir graslendið og sá að þarna var ekkert annað, en óendanleg víðátta af grænu, af háu grasi, sem bylgjaðist óendanlega undan óendanlegum vindi. Skyndilega fór þetta allt í taugarnar á henni. Þetta tilbreytingarleysi, óendanleiki af því sama. Öryggistilfinningin og friðurinn sem hafði gagntekið hana áður var á bak og burt. Hún öskraði, en það kom ekkert hljóð. Hún fann að hún öskraði og þráði ekkert heitar í öllum heiminum en að öskra, en það kom ekkert hljóð. Hún fylltist reiði yfir að geta ekki breytt neinu, geta ekki haft áhrif á neitt. Þessi græni heimur grass og hægs vinds var allt og ekkert hafði áhrif.

Hún opnaði augun aftur og horfði hatursfullum augum yfir græna friðsældina sem áður hafði fyllt hana öryggi. Þá sá hún að allt var að breytast. Allt umhverfið fjarlægðist og varð óskýrt eins og horft væri úr miklum fjarska. Hægt og letilega fjaraði það út, lengra og lengra og lokum sá hún það eins og lítinn hring í fjarska eins og hún horfði eftir löngu röri og gæna veröldin leystist upp fyrir augum hennar. Við tók alheimur fullur af engu. Það voru engir litir, ekkert ljós, ekkert myrkur, ekkert hljóð, engin lykt. Ekkert umvafði hana og það eina sem hún fann var hún sjálf. Hugsanir og tilfinningar sem hún átti var það eina sem var. Hún hugsaði að sig hlyti að vera að dreyma og fann til nokkurs léttis. Það myndi koma að því að hún vaknaði og allt yrði eðlilegt á ný.

En nú gat hún ekkert annað en horft út í tómið og fundið fyrir sjálfri sér. Vissulega fann hún fyrir sjálfri sér. Hún gerði sér grein fyrir að hún hafði ekki fundið fyrir sér fyrr. Hún hlaut að vera í svefnrofunum. Hún fann fyrir kulda, hún var köld og stirð. Hún gladdist yfir því að finna loks einhvern raunveruleika, eitthvað sem hún gæti haft áhrif á. Hún hreyfði hendurnar, teygði þær eftir sænginni. En fann bara kalt, hart umhverfið og nístandi sársauka sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Nístandi sársauka, sem heltók allan líkama hennar, alla hennar veru. Hún horfði í kringum sig, en sá ekkert. Áfram sama tómið, en hún heyrði. Þetta var eins og uppgötvun, uppljómun eins og hún væri fyrsta manneskjan í heiminum sem heyrði eða upplifði hvað hljóð var. Sú tilfinning hvarf jafnskjótt og hún kom fyrir sársaukanum sem heltók hana aftur.

Svo heyrði hún aftur, “Fröken” og einhver ýtti við henni. Það sendi nýja bylgju nístandi sársauka gegnum líkama hennar. Hún stundi, hún heyrði sjálfa sig stynja. Hún heyrði raddir og reyndi hvað hún gat til að greina orðaskil. “....fröken”? Önnur rödd sagði: “...nú hvað á maður að segja við manneskju sem maður hefur aldrei séð og liggur á jörðinni?” Þetta var sama röddin og hún hafði heyrt þegar ýtt var við henni. Hún reyndi að sjá fólkið, en heimurinn var enn fullur af engu og hún fann að allt annað var að fjara út líka. Hún fann ekki nístandi sársaukann lengur, hann hafði liðið burt eins og reykur sem leysist upp. Hún fann ekki fyrir kulda og raddirnar voru að hverfa, eins og fólkið gengi hjá og fjarlægðist hana. Síðan þögnuðu þær líka.

“Hún er dáin”, sagði ungur maður við félaga sinn. “Ætli hún hafi dottið fram af bjarginu eða hent sér niður”? þeir horfðu upp eftir bjarginu, sem gnæfði yfir þeim dökkt, drungalegt og þverhnípt og síðan niður á konuna, sem lá þarna í stórgrýtinu. Hvorki bjargið né brostin augu hennar myndu nokkru sinni gefa þeim svar. Undrun virtist vera í svip hennar. Enginn myndi nokkru sinni vita hvað olli henni undrun á síðustu andartökum ævi hennar.

   (22 af 26)  
2/11/05 10:01

Mallemuk

Orðlaus.

2/11/05 10:01

Billi bilaði

Flott.

2/11/05 10:01

Regína

Já, en hún er svo löööng.

2/11/05 10:01

krossgata

[Undrandi]
Mér fannst hún svoooo stutt.
[Klórar sér í höfðinu]

2/11/05 10:01

Regína

þetta er góð saga, og miklu læsilegri eftir að þú settir línubil í greinaskilin.

2/11/05 10:02

krossgata

Það var ekki hægt að fá inndrátt í málsgreinarnar öðru vísi.... tók svolitla stund að finna út úr þessu. Það vantar kóða fyrir inndrátt.

2/11/05 10:02

Offari

Já. já takk.

2/11/05 10:02

Barnið

Jii .... hvað olli henni undrun?!

2/11/05 10:02

Herbjörn Hafralóns

Þetta var hálf ógnvekjandi, ég óttast að fá martröð í nótt.

2/11/05 10:02

Kondensatorinn

Dálítið sorglegur endir á þessari góðu sögu en vekur spurningar.
Takk fyrir.

2/11/05 11:00

Hakuchi

Þetta var glæsilegt.

2/11/05 11:00

Þarfagreinir

Sagan er alveg passlega stutt/löng. Hún er mjög áhugaverð líka.

2/11/05 11:00

Heiðglyrnir

Glæsilegt, Þakka fyrir mig.

2/11/05 11:00

Jóakim Aðalönd

Virkilega góð örsaga hér. Skál!

2/11/05 11:01

hvurslags

Hún er ágætlega skrifuð og með góðan endi(vel gerðan, þ.e.). Hún væri jafnvel enn betur skrifuð ef krosssaga myndi ef til vill útfæra betur þrár og langanir sögupersónunnar, maður fær á tilfinninguna að hún sé of upptekin af grasinu hérna eða friðsældinni þarna og svo framvegis. Það gæti gert söguna áhugaverðari ef maður læsi hana í annað skiptið _og_ vitað hvernig hún endaði, þ.e. hvernig í pottinn væri búið.

2/11/05 11:02

Vladimir Fuckov

Mjög gott og varð nokkuð óhugnanlegt er á leið. Skál ! [Sýpur á fgurbláum drykk]

2/11/05 13:01

Altmuligmanden

Ég er ekki búinn að lesa söguna en umsagnirnar lofa góðu

krossgata:
  • Fæðing hér: 20/11/06 10:54
  • Síðast á ferli: 1/2/22 11:03
  • Innlegg: 8534
Eðli:
Stend á krossgötum ráðandi krossgátur.
Fræðasvið:
Orðhengilsháttur og útúrsnúningar.
Æviágrip:
Mætti í heiminn fyrir þó nokkru með töluverðum flumbrugangi, það er töluverðu fyrir tímann og hef síðan velt því fyrir mér hvert halda skuli. Fór að tala fyrir tímann líka og varð læs fyrir tímann. Þetta fyrirtímabrölt hefur allt leitt mig að þeirri niðurstöðu að ég er greinilega á undan minni samtíð.Safnaði um tíma ambögum, en hef látið það vera um nokkurt skeið.

Örlögin höguðu því svo til að krossgata er vel kunnug staðháttum við Faxaflóa, þó undanskilið sé stór-Reykjavíkursvæðið. Hefur það aukið víðsýni hennar töluvert.