— GESTAPÓ —
krossgata
Heiðursgestur.
Pistlingur - 1/12/06
Stjörnuspeki

Nú eigum við okkar eigin Brangelinu eða Brennifer eða hvað það heitir allt það ágæta fólk.

Það verður aldrei af okkur íslendingum skafið að við erum langbest miðað við höfðatölu og bara öll önnur viðmið. Hafi eitthvað gerst í útlöndum, svokölluðum, þá eigum við okkar fulltrúa á staðnum ef það sama hefur bara hreinlega ekki gerst hér. Siðir og venjur í öðrum löndum berast okkur fljótt og við tökum þá upp í skyndingu.

Það er alkunna að í Bandaríkjasveit býr á einum bænum, ef ekki fleirum, þvílík ógrynni af stjörnum. Það er líka öllum lýðum ljóst að maður þarf að vera vel að sér í stjörnuspeki. Sannast það best á allri þeirri umfjöllun er þessar stjörnur fá. Það er einnig alvanalegt þar í sveit að gefa út opinberar yfirlýsingar um sín einkamál í þeim tilgangi, að því er virðist, að biðja sótsvartan almúgann um að vera ekki að hnýsast í þessi sömu einkamál. Við vitum náttúrulega öll að raunverulegur tilgangur er einmitt að vekja athygli á sér og sínum einkamálum.

Við getum nú glaðst einu sinni enn yfir því hvað við erum einstaklega nútímaleg og fylgjumst svo vel með stefnum og straumum að það nálgast að vera framúrstefnulegt. Magni okkar eigin alþjóðlega stór-rokkstjarna er nú að skilja við konu sína. Ekki nóg með það, heldur er þetta svo faglegt hjá honum að þau skötuhjúin gefa út opinbera yfirlýsingu um skilnaðinn í fjölmiðlum. ‹Gefur frá sér vellíðunarstunu› Rétt orðalag um einkamálin og allt. Bara svo við hin þessi venjulegu getum nú haft stjörnuspekina á hreinu. Við getum þá líklega kallað þau að hætti dægurmálastefnu og stjörnuspeki: Magnrún eða Eymagn og fyrst sögusmetturnar eru að tala um að annað samband sé í fæðingu, Magndíll.

Ég vil svo enda þetta á nokkrum molum eða stjörnuspeki um stjörnurnar á Baggalút. Við getum ekki verið þekkt fyrir annað en hafa stjörnuspekina á hreinu líka.

Númi Fannsker:
Lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum á sínum tíma og cand.jur.-prófi frá HÍ

Enter:
Fæddist í Líbíu um miðbik síðustu aldar. 4 ára kom hann til Íslands og hefur dvalist hér með hléum síðan

Spesi:
Er talið að hafi búið með köttum um tíma og lifað sem einn þeirra til að geta betur skilið líf og tilfinningar kattarins

Myglar:
Er líklega þekktastur fyrir spádóma sína, en þeir hafa verið þýddir á fjölmörg tungumál auk þess sem þeir eru afar vinsælir til fermingargjafa

Kaktuz:
Hann er afar vinsæll á austurlandi og einnig í Færeyjum þar sem hann hefur hlotið ýmiskonar viðurkenningar fyrir störf sín á sviði menningartengsla

Dr. Herbert H. Fritzherbert:
Hann varð snemma munaðarlaus og ólst upp í mikilli fátækt á stofnun fyrir ofgreinda vandræðagemlinga

Vona ég að þetta hjálpi þeim sem lesa til að þurfa ekki að standa á gati í stjörnuspekinni.
Góðar stundir.

   (20 af 26)  
1/12/06 05:02

Offari

Hér ræður Litaspekin.

1/12/06 05:02

krossgata

Litaspekin er af spámannlegum toga. Stjörnuspeki þessi er viskumolar og upplýsingar um stjörnur sérðu til og hefur ekkert með spádóma að gera.
[Blikkar blítt]

1/12/06 05:02

Regína

Skyldi Offari hafa látið duga að lesa bara tiltilinn? Mjög vel skrifað hjá þér krossgata.

1/12/06 05:02

Nermal

Ekkert um mig???

1/12/06 05:02

krossgata

Ég var jafnvel að hugsa um að gera pistlingabálk um stjörnuspeki og auðvitað yrðir þú ofarlega á blaði Nermal kær. Kannski mér endist sköpunargáfa til að gera alvöru úr þeirri hugsun.

1/12/06 06:00

Barbapabbi

En hvað með stjörnuspikið?!? sagt er að atgeirinn hún Britney hafi fitnað á meðgöngu nýafsprengdri.

1/12/06 06:00

Salka

Í alvöru? Eru þau að skilja? Útaf Dilana? Eru hún og Magni orðin par?
Tja hérna Krossa þú flytur aldeilis fréttir.

1/12/06 06:01

Skoffín

Titillinn á ritinu lofaði svo góðu!
[kjökrar í nýaldarmussuna og strýkur kristöllunum]

1/12/06 06:01

Dula

HÍHÍHÍ Já ekki er öll vitleysan eins.

1/12/06 06:02

Kargur

Hvur er þessi Magni?

1/12/06 07:00

Þarfagreinir

Magni var að gera það gott þarna í Amríkunni þar sem þú ert, Kargur. Skrýtið að þú hafir ekkert hitt hann meðan hann var þarna.

krossgata:
  • Fæðing hér: 20/11/06 10:54
  • Síðast á ferli: 1/2/22 11:03
  • Innlegg: 8534
Eðli:
Stend á krossgötum ráðandi krossgátur.
Fræðasvið:
Orðhengilsháttur og útúrsnúningar.
Æviágrip:
Mætti í heiminn fyrir þó nokkru með töluverðum flumbrugangi, það er töluverðu fyrir tímann og hef síðan velt því fyrir mér hvert halda skuli. Fór að tala fyrir tímann líka og varð læs fyrir tímann. Þetta fyrirtímabrölt hefur allt leitt mig að þeirri niðurstöðu að ég er greinilega á undan minni samtíð.Safnaði um tíma ambögum, en hef látið það vera um nokkurt skeið.

Örlögin höguðu því svo til að krossgata er vel kunnug staðháttum við Faxaflóa, þó undanskilið sé stór-Reykjavíkursvæðið. Hefur það aukið víðsýni hennar töluvert.