— GESTAPÓ —
Speisi
Óbreyttur gestur með  ritstíflu.
Dagbók - 1/11/06
Ævintýramaðkurinn

Hvalir eru svo gáfaðir að ekki má veiða þá, -segja sumir. Hvalir eru þó, skilst mér, lítt greindari en nautgripir og enginn virðist hafa neitt við það að athuga að þeim sé slátrað í gríð og erg, þeir hakkaðir í spað og bornir á borð í hveitibollu á McDonald's. Ég dreg því af þessu þá ályktun að greind hvala (og reyndar nautgripa) sé á einhvern hátt illmælanleg eða fyrir ofan minn skilning, -eins og á við um svo margt.

Úti er vosbúð. Slíkt þykir ánamöðkum gjarnan gott tilefni til að spássera um á yfirborðinu, þar sem þeir öllu jöfnu sjaldan láta sjá sig. Áðan átti ég leið hjá einum slíkum sem mjakaði sér af mikilli einbeitni eftir blautri gangstétt í áttina að malbikuðu bílastæði. Í fyrstu þótti mér þetta fíflaleg aðgerð en varð svo hugsað til greind hvalanna, sem ég skil svo illa, og ákvað að gefa þessu frekari gaum.

Maðkurinn var stór og mikill, hann bar ör liðinna bardaga og skartaði rauðum hring um sig miðjan, sem sennilega gefur til kynna sterka stöðu í valdastiga ánamaðkanna. Ég reyndi að setja mig inn í hugarheim maðksins til að áætla stefnu hans og fyrirætlan. Ferðalagið sem hann átti fyrir höndum yfir gangstéttina og malbikið þótti mér líklegt að væri töluvert stærra í sniðum en för Fródó með hringinn um árið og ekki síður háskalegt.

Mér hugkvæmdist að kasta bara kveðju á herrann, óska honum góðrar ferðar og láta hann óáreittann, en í síðustu andrá hafði frekjan í mér yfirhöndina og ég skóflaði kauða upp í lúku mína og plantaði í næsta blómabeð.

Maðkurinn hefur ábyggilega hugsað mér þegjandi þörfina fyrir þetta inngrip, en hugsanlega innst inni verið feginn því að ævintýrið varð ekki lengra að svo stöddu. Kannski getur hann sagt barnabörnunum að hann hafi nú eitt sinn lagt upp í hetjuför til að sanna sig fyrir slegtinni, en verið gripinn á miðri leið af jöklatrölli og fleygt aftur í öryggið.

En fall er fararheill segja líka sumir, kannski reynir jaxlinn bara aftur.

   (2 af 2)  
1/11/06 23:01

Andþór

Þessu hafði ég mjög gaman af!

1/11/06 23:01

Speisi

Gaman að heyra [Brosir út að eyrum]

1/11/06 23:01

Regína

Ertu jöklatröll?

1/11/06 23:01

Tigra

Híh. Gott hjá þér. Ef mikið af möðkum er á sveimi kemst ég heldur hægt áfram því ég finn mig knúna til að moka þeim öllum af gangstéttinni áður en þeir verða traðkaðir niður.

Með greind hvala veit ég svoem ekki mikið, en ég veit eitt að miklar rannsóknir hafa farið í að mæla og kanna svokallaðan hvalasöng, sem er víst mun líkari tungumáli en önnur hljóð sem flest dýr gefa frá sér.
Annars ætla ég ekkert að tjá mig meira um þetta. Ég hef engar heimildir í höndum og ætla því ekki að röfla um eitthvað sem ég ekki veit.

1/11/06 23:01

Speisi

Nei þarna greip óskhyggjan völdin. Ég ólst upp með jöklatröllum eftir að ég var skilinn eftir á jörðinni sem ungi og var alltaf strítt á því hversu væskilslega ég væri vaxinn.

Ég er samt alltaf að verða sáttari við það að vera frá öðru sólkerfi. Ég er allavega mun einstakari fyrir vikið en jöklatröllin, sem varla er nú hægt að þverfóta fyrir orðið!

1/11/06 23:02

Hakuchi

Fín skrif.

1/11/06 23:02

krossgata

Einstaklega skemmtilegt rit. Takk, takk.

1/11/06 23:02

B. Ewing

Mikið ertu góðhjartaður. Mér finnst sjálfum leiðinlegt að sjá uppþornaða maðka út um allt eftir rigningar.

2/11/06 00:02

Huxi

Næst ferðu að bjarga nautgripum og hvölum. Þetta stefnir allt í þá átt hjá þér. Megi Grænfriður geyma þig...

2/11/06 00:02

Jóakim Aðalönd

Ja hérna. Þetta var nú skemmtileg grein hjá þér geimjöklatröll.

2/11/06 02:01

Skabbi skrumari

Mjög fín frumraun... Salút...

Speisi:
  • Fæðing hér: 5/11/07 12:19
  • Síðast á ferli: 8/10/10 13:31
  • Innlegg: 97