Lesbók10.09.02 — Númi Fannsker

Ég brá mér í gær að skoða ítalskt herskip sem rak á fjörur Reykvíkinga í kjölfar kafbátaleitarkeppni NATO. Tók með mér þá Enter, Myglar og Kaktuz (sem vildi láta kalla sig "litla apa" þann daginn). Á móti okkur tók afar geðþekkur ítalskur hermaður, borðum prýddur og með derhúfu - að yfirmanna sið. Hann vísaði okkur út á þilfar, þar sem hann sagði okkur að skipið væri 130 metra langt og 27 metra breitt. Þetta kom okkur reyndar ekki á óvart, þar sem Kaktuz hafði tekið mál af skipinu - sjónrænt og sagði skipið reyndar vera 129,8 metra langt. Að þessu loknu sýndi hermaðurinn okkur fallbyssu skipsins - sem mun skjóta allt að 85 skotum á mínútu, ekki fannst okkur mikið til þessarar vatnsbyssu koma og sögðum við gestgjafa okkar að byssan á gamla Tý hefði nú verið öflugri en þessi. Firrtist hann nokkuð við það en hélt þó skoðunarferðinni áfram.
Meðan á skoðunarferð okkar stóð marséraði stúlka um fermingu eftir þilfarinu, vopnuð vélbyssu - í gallabuxum, skotheldu vesti og með hjálm. Hún virtist nokkuð sjóveik, þrátt fyrir að skipið lægi í höfn og fannst mér hún ekki til stórræðanna ef t.d. herstöðvarandstæðingar hefðu ráðist til atlögu við skipið.
Ferð okkar um skipið lauk svo með því að okkur voru sýndar tvær ratsjár í brúnni - já og stýrið. Er ekki ofsagt að við urðum fyrir nokkrum vonbrigðum með "skoðunarferð" þessa og hrópaði Myglar því á leiðinni niður landganginn (á óaðfinnanlegri ítölsku): "Þykist þið vera sjómenn, skepnurnar ykkar? Þið ættuð að halda ykkur við að þamba ólívuolíu og maula hvítlauk!" Varð þá mikil háreisti um borð og beindi sú nýfermda umsvifalaust hólki sínum að Myglari sem rak út úr sér tunguna og geiflaði sig í framan.
Eflaust má segja að við höfum sloppið bærilega frá þessari skoðunarferð okkar - en hitt er annað mál að ég myndi ekki vilja þurfa að stóla á ítalska sjóherinn á hættutímum. Þá myndi ég heldur treysta á áhöfnina á gamla Tý - eða Hafþóri, það voru sannar hetjur!

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182