Lesbók09.09.02 — Enter

Öll ætt ungskálda er viðurstyggileg, en hörmulegust er þó ættkvísl ungra tónskálda.

Ég brá mér í sakleysi út á land um helgina. Nánar tiltekið í Skálholt, en það er sá staður sem ég met einna mest á þessu landi. Magnþrungin sagan er þar svo alltumlykjandi, andrúmsloftið svo sefjandi og upphafið að jafnvel kýrnar sýnast þar vísar og spakar.

Margt var um manninn þegar mig bar að. Var ég glaður í bragði að sjá við kirkjudyrnar hóp ungmenna og fylltist ég eitt augnablik trú á komandi kynslóð. Það varði stutt.
Fyrir dyrum stóðu tónleikar ungra tónskálda frá Norðurlöndunum. Ég fylltist þegar í stað hryllingi þegar hokinn og hornefjaður, krumpskyrtaður piltur tjáði mér þetta og hugðist þegar í stað forða mér. Ég sá mig þó um hönd og ákvað að gefa þessu tækifæri - hugsaði sem svo: hversu slæmt gæti þetta verið?

Já, hversu slæmt getur eitthvað yfirleitt orðið? Hér voru í það minnsta slegin nokkur norðurlandamet.

Fyrstur kjagaði upp á svið akfeitur Finni og sagðist ætla að bjóða okkur í ferð. Hann ræsti því næst segulbandstæki sem baulaði út úr sér glefsum úr tilhugalífi sjávarspendýra - og eina ferðin sem mér kom í hug var graftarblandin útferð.
Næst stigu hnípinn á þennan gapastokk ómenningarinnar tvö íslensk ungmenni sem fluttu - guð sé þeim náðugur - danskt verk. Hlustarverk. Viðlíka bévítans óþverri hefur mér ekki boðist og hef ég þó bæði matast á hollenskum veitingastað og hlýtt á makedóníska óperu. Ekki var nóg með að danaskrattinn hefði þarna að háði og spotti blásaklausa áhorfendur heldur niðurlægði hann listamennina og hljóðfæri þeirra og svívirti svo hrottalega að mér var skapi næst að negla ófétið á næsta kross. Ég hélt þó aftur af mér. Lét mér nægja að gefa þeim heiðingjum illt auga sem voguðu sér að klappa lófum í þessu helgasta musteri þjóðarinnar.

Þá var komið að framlagi Svía. Var nú tekinn heill kór hvítklæddra engla og hann stjaksettur í kirkjuskipinu. Var tálklædd höfundarglyðran svo ósvífinn að taka hér ljóð Steins vinar míns Steinarr, Haf - og tónsetja það með tilheyrandi uppskafningu og vanmætti ungskáldsins; krúsídúllum og mannskemmandi ómstríðu. Til að maka tjöru ofan á svart var kvæðið sungið á sænsku, máli djöfulsins!

Að þessum skrípaleik enduðum var mér loks nógsamlega misboðið. Ég reis á fætur og gekk hljóður út. Á hæla mér gengu liðnir biskupar, fremstur fór Ísleifur, þá Gissur og síðan koll af kolli - allir grátandi.

 
Kaktuz — Saga
 
Kaktuz — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
        1, 2, 3 ... , 180, 181, 182