Lesbók18.01.07 — Enter

Nýlega barst mér, fyrir tilviljun, eintak af nýrri íslenskri kvikmynd. Kann ég því miður lítil deili á tilurð myndarinnar, sökum þess að upplýsingum á hulstri er verulega ábótavant. Ekki er tekið fram hver leikstýrir, hvað þá að handritshöfunda, leikara og annarra hlutaðeigandi sé getið. Aukinheldur sárvantar titil verksins.

En myndin stendur engu að síður fyrir sínu sem ein hressilegasta „rúmstokksmynd“ sem ég hef séð lengi. Megintemað er svokallaður munalosti, að vísu með kitligirndar- og drottnunarívafi.

Áferð myndarinnar ber þess glögglega merki að hún hefur verið gerð af miklum vanefnum. Lýsingu er verulega ábótavant og hljóðmynd er í molum. Búningar eru þó til fyrirmyndar og sviðsmynd er haganlega leyst - og öll umgjörð raunar einkar erótísk.

Minnir verkið um margt á verk gömlu ítölsku meistaranna, t.d. Luigi De Sado og Count Sexuello og eru margar vísanir í frægar eldri drottnunarmyndir, sem gaman er að rýna í fyrir þá sem þekkja til þessa menningargeira. Höfundur er augljóslega undir sterkum áhrifum frá brautryðjanda íslenskrar kvikmyndaerótíkur, Hrafni Gunnlaugssyni - en einnig má sjá ákveðin minni úr kvikmyndinni Húsinu, sem margir hafa nefnt fyrstu íslensku munalostamyndina.

Handritið er þó full brotakennt fyrir minn smekk - og óþarfa subbuskapur, sérstaklega undir lok myndarinnar, gefur heildarmyndinni full klúran blæ.

Leikarar standa sig með mikilli prýði og er innlifun þeirra á köflum slík að maður fyllist ósvikinni aðdáun og finnur virkilega til með karakterunum. Allt eru þetta, eftir því sem ég kemst næst, óþekktir leikarar - en eiga - sérstaklega þó aðalleikkonan - án efa framtíðina fyrir sér á þessu sviði. Aðra eins leikni með sleipiefni og ýmis konar unaðstól sér maður ekki á hverjum degi.

Á hinn bóginn er persónusköpunin nokkuð einhæf. Aðalkarlleikarinn nær sér aldrei upp úr fari „hins undirgefna“ og síendurteknir drottnunartilburðir aðalleikkonunnar verða til lengdar full einhæfir, þó vissulega séu þeir afar krassandi á köflum.

Hefði myndin, með „kjötmeiri“ fléttu og ögn sterkari persónusköpun, auðveldlega komist í hóp með bestu myndum íslensku „klámbylgjunnar“, sem svo hefur verið nefnd - en því miður missir hún dampinn undir lokin og áhorfandinn nær ekki að „kreista“ jafn mikið út úr henni og væntingar gáfu tilefni til í upphafi.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182