Lesbók11.01.06 — Enter

Þá hafa flenniletrandi landeyðurnar á DV endanlega grafið til botns í gröf sinni. Loks hafa þeir gert svo ríkulega upp á bak, og langt upp fyrir höfuð að allur sápuþvottur heims nær ekki að uppræta dauninn og skola af þeim hroðann.

Vei þeim.

Nú hellist heilög reiði úr barmfylltum skálum yfir rauðröndótta sóðasnepillinn sem hingað til hefur fengið að þruma óáreittur yfir þjóðinni þar sem hún stendur í mesta sakleysi í bónusbiðröðum sínum kokfyllt skynörvandi styrjaldafyrirsögnum.

Nú rísa menn á fætur allir sem einn og bölva bleðilinum froðufyllta þar sem hvers kyns óáran, viðurstyggð og öfugeðli hafa fengist úthrópuð með stríðsletri læsilegu jafnt stautfærum leikskólabörnum sem nærsýnustu öldungum. Já nú er mælirinn fullur.

Og réttilega. Maður rústar ekki líf fólks með illígrunduðum ótuktaruppslætti í skjóli ímyndaðs sannleiksþorsta. Maður treður ekki æru manna og atgervi í svaðið með einu pennastriki og stimplar sig svo út. Maður rekur ekki fólk í opinn dauðann til að selja eitt andsvítans blaðsnifsi í einn dag.

En nú skal réttlætinu fullnægt, mannskemmandi blaðasnápum smalað saman og þeir stjaksettir, úrbeinaðir og brenndir til ösku. Svört hjörtu þeirra negld á veggi blaðamannafélagsins - öðrum til vítis - og ævarandi varnaðar. Því miður er það bara of seint.

Allt of seint.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182