Lesbók07.11.05 — Enter

Þá er heimsbyggðinni ógnað enn eina ferðina, að þessu sinni hvorki af kjarnorkuvetri, loftsteina­hríð né ósonhvarfi - heldur nokkru enn skelfilegra - nefnilega flensu.

Ójá. Það er sannarlega herfilegt tilhugsunar að jarðvist okkar ófleygu hárleysingjanna skuli eftir allt púlið, alla okkar sigra, endanlega stefnt í voða af ógnvænlega illvígri ... flensu.

Úff. Hvað varð eiginlega um flottu sjúkdómanöfnin? Svarta dauða, ebólu, eyðni, kóleru, malaríu? Almennilegar plágur og drepsóttir með flott og krassandi nöfn. Alvöru pestir sem maður þarf ekki að skammast sín fyrir að smitast af.

Kommon. Jafnvel rauðir hundar og gubbupest hljóma illvígari en ... flensa.

Og svo kallast þetta fugla-flensa í þokkabót. Algerlega glatað. Það geta ekki verið sturlaðir úlfar, blóðþyrstir vampírar eða vænisjúk skordýr sem bera þetta með sér. Neinei. Hænsn og farfuglar takk fyrir.

Maður getur rétt ímyndað sér skelfinguna sem mun grípa um sig þegar fyrsta lóan rennur í hlað næsta vor. Kjallarar fyllast af dauðskelfdu fólki klyfjuðu dósamat sem skiptist á hryllingssögum af sýktum álftum og illviljuðum spóum sem laumast inn í hýbyli fólks að næturlagi og drita í seríósið.

Já það er víst eins gott að fara að birgja sig upp af lýsi og köttum, skríða ofan í kartöflugeymslu og hafa hægt um sig næsta áratuginn eða svo. Standa af sér hörmungarnar. Ég get hreinlega ekki afborið þá tilhugsun að falla í fuglaflensunni miklu.

Það er einfaldlega of niðurlægjandi.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182