Lesbók02.03.05 — Enter

Þessi flugvöllur þarna í Vatnsmýrinni. Þessi á bak við Umferðamiðstöðina. Er hann alveg að dansa?

Nú hef ég í sjálfu sér ekkert á móti því að hafa flugvöll þarna, svona í prinsippinu. Fínt að nota plássið undir eitthvað gáfulegra en að fylla það af KR-ingum. Svo er auðvitað ómetanlegt að geta skellt sér í fallhlífarstökk án þess að þurfa fyrst að paufast til Keflavíkur.

En þá er það líka upptalið - og það er akkúrat það sem ég hef dulitlar áhyggjur af. Nefnilega notagildi þessa ágæta vallar.

Nú þykist ég vita að megnið af utanlandsferðum Íslendinga fari gegnum flugstöð Leifs Eiríkssonar. Eins get ég nokkuð örugglega bölvað mér upp á að þeir ferðamenn sem hingað eru narraðir fari í gegnum þá sömu stofnun, sem er auðvitað ekki nokkur hemja.

Eða finnst ykkur það? Að bjóða þessu ágæta fólki uppá að lenda þarna í miðju hrauninu, dauðþreytt eftir fleirihundruðtíma flug. Það er bara ómannúð­legt - í besta falli andstyggilegt.

Á meðan stendur Reykjavíkurflugvöllur, þessi fíni völlur, eins og illa gerður hlutur, auður og yfirgefinn. Hvernig væri nú að brúka hann undir eitthvað af öllum þessum rellum sem hingað streyma? Ha? Sletta smá málningu á miðasölu­skúrinn, selja makkintoss og kenna starfsfólkinu dönsku. Fá doltið líf í tuskurnar í þessum svokallaða miðbæ, sem allt lifandi drepur.

Það er auðvitað út í hött að hafa allt þetta malbik þarna og nota það svo ekkert. Eða það finnst mér í það minnsta.

---

Mér skilst reyndar - til að gæta hér sanngirni - að völlurinn sé stundum notaður til að koma Mogganum og Fréttablaðinu „út á land“, eins og það er kallað. Það er að segja, ef ekki er ófært.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182