Lesbók04.08.02 — Enter

Í gær var ég óskaplega glaður yfir því að vera ekki að kúldrast einhversstðar í blautu tjaldi ropandi hálfmeltum pulsudaun. Ég var svo glaður að ég ákvað að þekkjast boð þeirra Enters og Spesa - og bregða mér á dansibal í Iðnó. Þar stóð þá yfir hátíðin Innipúkinn 2002 og þótti mér svo mikið til hennar koma að ég ákvað að rita um hana nokkur orð.

Þegar okkur bar að garði höfðu allmargir skemmtikraftar þegar lokið sér af. Þótti mér miður að missa af framlagi margra okkar áhugaverðustu listamanna, hefði ég gefið mikið fyrir að heyra kunnuglegt fretið í Trabant - en til margra ára fór ég allra minna ferða á einum slíkur, rústrauðum.

En ekki dugði að sýta horfna tóna. Ég kom mér haganlega fyrir við sviðsbrík með ölkollu og beið þess sem verða vildi. Ekki var það löng bið því á stokk strunsaði nú flokkurinn Singapore Sling. Voru þar komnir fimbulsvalir ungir menn íklæddir leðri og hvítu líni að sið rokkabilljarða síðpönksins og höfðu þeir kraga uppbretta. Tók nú við hamagangur mikill þar sem haganlega gerður hljóðveggur var reistur. Var unaðslegt að heyra hvernig þeir Slyngu sláttumenn beittu meðvitaðri bakfóðrun (e. feedback) svo skar í hlustir og þöndu svo hverja taug mína með ofsafenginni, en innilegri keyrslu. Forsprakki þeirra var dularfullur náungi sem ekki hafði mikið að segja, lét sér nægja að flytja áheyrendum stutt lagræn skilaboð milli þess sem hann og félagar hans þeyttu fram hverri rokkstefjunni á fætur annarri. Að leik loknum hafði ég þegar tekið nokkur dansspor og þeytt höfði. Klappaði ég mikið og var hinn kátasti.

Þegar ég hafði skolað mig í framan og fengið mér aðra ölkollu var kominn tími á næstu sveit. Þar var kominn litfríður hópur sem nefnir sig Rúnk. Geislandi af kátínu og lífsþorsta dreifðu þau sér um sviðið með hin ólíklegustu tól og tæki, sem áttu það eitt sameiginlegt að geta framleitt einhverskonar gleðihljóm. Óð Rúnkið nú í nokkra smelli, hvern öðrum hressilegri og átti ég í fullu fangi með að hemja mig á dansgólfinu. Sýndu liðsmenn fram á mikið frjálsræði í hljóðfæraskipan þar sem hljóðfærum var víxlað þvers og kruss milli laga - fórst þeim það prýðisvel úr hendi. Rúnk hefur á að skipa sérlega skeleggri stúlku sem dreif, að öðrum ólöstuðum, bandið áfram og reif salinn með sér með miklum fettum, hoppi og híi. Er mér til efs að nokkur hafi skemmt sér betur á sviði Iðnó í háa herrans tíð.

Eftir allt Rúnkið, óumflýjanlegt piss og nýja ölkollu var röðin komin að kvartett sem kennir sig við dr. Gunna. Gunnar þessi er forn í hettunni, hefur rokkað meir en flestir íslendingar síðustu tuttugu árin og geysist nú enn og aftur fram á sjónarsviðið með spólgratt rammíslenskt rokk. Ég fór af þessu tilefni úr jakkanum mínum. Dr. Gunni kom sér haganlega fyrir á sviðinu og síðan var talið í. Öslað var gegnum hverja perluna á fætur annarri og rak doktorinn upp mikil stuðgól milli laga og greinilegt að vel lá á honum. Þegar hér var komið sögu hafði ég aðra hönd á lofti og dillaði mér sem óður væri. Að endingu voru leikin nokkur gömul íslensk þjóðlög úr smiðju Gunnars og var af því tilefni dröslað upp á svið einhvers konar dúkku, eða gínu sem staðgengli ununarpíunnar Heiðu, vel til fundið. Þegar dr.Gunni og lagsmenn hans að lokum stigu af sviðinu hafði ég skvett síðustu bjórlögginni í hár mér og lá gersamlega úrvinda fyrir framan sviðið. Stórkostlegt kvöld.

Þeir Spesi og Enter fóru baksviðs að finna doktorinn, enda Enter mjög forvitinn að heyra um doktorsvörn hans og jafnvel fá að glugga í ritgerðina. Ég aftur á móti drattaðist á lappir, greip jakkann minn og skakklappaðist heim - afar sáttur við kvöldið og allar inniverurnar.

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182