Lesbók19.11.04 — Myglar

Ríkisstjórnin kynnti í dag breytingar á skattalöggjöfinni sem m.a. munu fela í sér 4% lækkun tekjuskatts einstaklinga, afnám eignarskatts á einstaklinga og fyrirtæki og tæplega helmingslækkun frítekjumarks barnabóta. Það er í sönnum anda framsóknarmennskunnar sem forsætisráðherra okkar tekur hér af skarið og grípur til aðgerða sem bæta munu hag okkar allra.

Óhætt er að fullyrða að þessar breytingar leiði til umtalsverðs kaupmáttarauka heimilanna í landinu. Auk 4% lækkunar tekjuskatts er gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um 8% þannig að samanlagt felur þetta í sér 20% hækkun skattleysismarka á tímabilinu, úr 71.270 kr. á þessu ári í 85.836 árið 2007.

Með 4% lækkun tekjuskatts er stigið stórt skref í átt til þess að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins sem í senn lækkar skattbyrði heimilanna verulega og stuðlar að aukinni atvinnuþátttöku og auknu vinnuframboði. Mikil hækkun barnabóta mun auk þess koma öllum barnafjölskyldum til góða, mest hinum tekjulægri. Auk þess er með lækkun skerðingarhlutfalla dregið úr jaðaráhrifum barnabótakerfisins. Loks mun afnám eignarskatts koma sér vel fyrir íbúðaeigendur, ekki síst eldra fólk og ellilífeyrisþega sem búa í lítið skuldsettum íbúðum og greiða þarf af leiðandi tiltölulega háa eignarskatta.

Heildaráhrif þessara aðgerða á afkomu ríkissjóðs eru metin til rúmlega 22 milljarða króna að teknu tilliti til veltuáhrifa sem einkum falla til á árunum 2006 og 2007.

Sem dæmi um áhrif Þessara aðgerða má nefna að ráðstöfunartekjur einstæðs foreldris með 1 barn undir 7 ára aldri og 125.000 króna tekjur á mánuði hækka um 12.500 krónur á mánuði, eða 10%. Ráðstöfunartekjur hjóna með 300.000 króna tekjur á mánuði samanlagt og 2 börn, annað yngra en 7 ára, hækka um 23.500 krónur, eða 9,5%. Til samanburðar má nefna að heildaráhrif aðgerðanna leiða til 4,5% hækkunar ráðstöfunartekna allra heimila í landinu. þetta sýnir vel tekjujöfnunaráhrif aðgerðanna.

Af ofangreindu er ljóst að hagur landsmanna allra, ríkra og fáttækra, til sjávar og sveita, mun vænkast til muna á næstu árum. Mannlíf mun blómstra, sveitirnar styrkjast, jarðgöngum fjölga og stóriðja eflast. Sannarlega segi ég yður: Halldór Ásgrímsson er ekki aðeins besti forsætisráðherra sem við höfum nokkru sinni átt - hann er besti forsætisráðherra sem við munum nokkurntíma eiga.

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182