Lesbók24.05.02 — Enter

Kæru Reykvíkingar.

Ég hef ekki sofið vel síðustu daga, síðustu vikur. Svei mér ef ég hef yfirleitt náð djúpsvefni það sem af er Maí. Nú er ég fullfrískur maður, annálaður fyrir andlegt jafnvægi og gefinn fyrir hvíld. Þó ligg ég þvalur af svita, nótt eftir nótt, gnísti tönnum, bylti mér og kuðla saman sængurfötum. Afhverju, hví? Hvernig stendur á því?

Það sem veldur mér vökum er nagandi kvíði. Ótti. Ég er á skömmum tíma orðin tifandi taugahrúga, skelfingu lostin. Því, mínir elskanlegu, ég er svo afar heitt og hjartanlega, innilega ofsahræddur um að sjálfstæðismenn geri enn og aftur í þéttreyrða buxnastrengi sína - og tapi kosningunum. Já, ég hef það á tilfinningunni að næsta laugardag setji ég krossmark mitt við örendan her.

Alla mína stormasömu tíð hef ég hakað af alúð og umhyggju við bókstafinn D, hvort sem það er í kosningum til ríkis eða borgar. Það stafar ekki eingöngu af heiladoða, hugsanavillu og kreddufestu, eins og svo oft vill brenna við - heldur hef ég einlæga og óbilandi trú á stefnuskrá flokksins, sem ég hef í hávegum, ætíð við höndina og blaða oft í mér til hughreystingar og geðsvölunar.

En nú er voðinn vís. Í hvert skipti sem ég legg aftur augun birtist mér tiltennt og strjálhærð ásýnd. Er þar kominn borgarstjóri okkar, glottandi, skríkjandi; dansandi um í krampakenndum hláturflogum. Hún þrumir yfir óförum okkar, sigurviss - og með réttu. Hversu oft hef ég ekki mátt líta borgarstjóraefni okkar niðurlægt undanfarið, snupraða eymdarsýn, hædda af þessari óbilandi refsinorn.

Já, Björn. Hvern óraði svosum fyrir að þessi geðugi, hjartahreini sómadrengur yrði tekin þessum heljargreipum; færður í kaf í pólitískum drullupollum, undinn eins og morkin gólftuska og honum slengt í gólfið, sigruðum, brotnum. En maður spyr. Var hann dæmdur frá upphafi? Var hann vandanum vaxinn? Er hér á ferð enn eitt dæmið um ofverndaða davíðsdúkku, hjarðeðlisfræðilegt viðundur sem villist og veslast upp um leið og leiðtoginn er úr augsýn. Ég græt ef ég hugsa til þess hvernig þessum sakleysingja var att inn á leikvanginn móti vægðarlausri Sólrúninni. Þarna stóð hann varnarlaus, nakinn - með duglitla trúða sér að baki; konur og börn.

Var ekki hægt að gera betur? Er virkilega enginn í hópi allra þeirra þúsunda sem hér á landi kjósa sér þá fögru hugsýn frjálshyggju og framfara, sem eitthvað getur? Erum við, sem ekki viljum rauða sól yfir reykvískri grund, þá eftir allt ekkert nema spenasogandi brjóstmylkingar, taugaveikar rollur, maurar - bakteríukenndir sníklar á holdi foringjans?

Á fætur! Á fætur segi ég og kastið snuðinu bévítans lyddurnar ykkar.

Það er grábölvað og tártakandi að horfa á eftir borginni, enn eina ferðina, í hendur rauðsokkum og trúleysingjum. En þyngra vegur þó á sál minni að sjá hið mikla vígi sjálfstæðisins veslast upp og grotna innanfrá, þar sem óöruggar og grátgjarnar smásálir hjúfra sig saman, hræddar og beygðar.

Svei mér þá. Ég held ég þoli tæpast meira. Ef svo fer sem horfir heiti ég því að strax á mánudag mun ég fægja fálkann sem stendur í stofu minni, dusta rykið af blástakknum mínum góða og storma niður í Valhöll. Ég mun ekki sjá á eftir borginni í fjórða skiptið - þó ég viti vel að það þýði ekki nema eitt. Ég mun neyðast til að láta undan kröfum um að skipa fyrsta sæti D-listans til borgarstjórnarkosninga í Reykjavík.

x-D

 
Kaktuz — Saga
 
Kaktuz — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
        1, 2, 3 ... , 180, 181, 182