Lesbók27.04.04 — Enter

Á leikskóla lærði ég ágæta lexíu, hún er auðlærð og almenn og hljóðar svo - "það er ljótt að stela dóti af óvitum".

Það gildir einu þó óvitinn sé búinn að sanka að sér öllu dótinu úr sandkassanum, dóti sem hann með brögðum og brellum hefur vélað af okkur hinum - og sitji gírugur með sandfyllt vit og leyfi engum að leika með.

Maður tekur ekki af honum dótið. Það er bannað.

Það er alveg sama þó ég safni öllum mínum fylgismönnum saman uppi við rólurnar og telji þeim af eldmóði trú um að óvitinn í sandkassanum hafi ekkert með allt dótið að gera.

Og það er alveg sama þó við í góðum ásetningi fylkjum liði að óvitanum, hrindum honum úr kassanum - og skiptum síðan góssinu bróðurlega milli okkar.

Því eitt lærði ég á leikskólanum - af biturri reynslu.

Ef maður nefnilega tekur dót af óvitum, séstaklega ríkum óvitum - þá standa þeir einfaldlega á fætur, ganga síðan í makindum í burtu, með tárvot augu - og klaga.

Og það er nefnilega þannig, þegar allt kemur til alls, að þó við dverghertogarnir ráðum leikvellinum þegar enginn sér til - þá ráða fóstrurnar meiru. Og þær fylgja reglunum.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182