Lesbók31.12.01 — Enter

Sit ég nú sæll og glaður, mettur. Sáttur. Enn eitt árið hefur skotist framundan rúmstokki eilífðarinnar og horfið út um gluggatýruna í rjáfrinu.Án þess svo mikið sem kveðja.
Eftir sit ég með servíettu í hálsmáli og sósudreitil í munnviki, búinn að innbyrða það sem að mér var rétt, súrt og sætt. Árið var mér að mestu ljúft, ég var heill heilsu og samskipti mín við náungann voru, með fáum undantekningum, gefandi og vinsamleg. Ég eignaðist fáa óvini og missti lítið úr aski vináttunnar. Ég gat sinnt ritstörfum af meiri alúð en oft áður, og ég fékk blessunarlega tækifæritil að skrifa af fullum krafti fyrir minn elskaða Baggalút.
Einhverjir skuggar læddust þó meðfram og sleiktu skósóla mína, reyndu að bregða fyrirmig fæti og draga mig til sín, læstu jafnvel krumlum um sterklega ökkla mína og toguðu - en allt fyrir ekki. Ég stóð fastur fyrir og horfði ætíð beint af augum. Hérer óþarfi að tína til hvaða illu öfl leyndust í þessum skuggum, ég læt mér nægja að ýja og ympra en læt ykkur eftir að geta - en ég stend heill eftir, keikur. Sáttur.
Já, góðir Íslendingar. Við erum heillagripir. Með heillegar tennur, góða húð og öflugt, heilbrigt stjórnkerfi. Við eigum okkur fagra og upplitsdjarfa leiðtoga, indæla íþróttagarpa,óbilgjarnar 'popular' hetjur og mörg falleg dýr.
Hvert orð sem fellur af okkar ósprungnu vörum breytist og óðara í gull, aldrei má gleymaað íslensk tunga er uppspretta, hrein lind - merkasta umgjörð skýrra hugsanna sem mannkyn hefur eignast. Okkar sterkasta vopn gegn uppgangi skrælingja og barbara, sem meðólæsi og svartagaldri ógna vísindalegri, gagnrýnni og fagurri hugsýn. Ég mun ekki draga þær illu kanínur upp úr hattkúfi hér, en læt nægja að minnast á óþolandi athæfi og yfirgang Hollendinga á alþjóðavettvangi á árinu.
Ég sit hér sæll, eins og áður sagði, og ég hef ekki ástæðu til að klaga upp á neinn. Ég óska komandi ári, árum, alls góðs og vona að þau færi okkur kæti og góðan frið.
Ykkur árna ég góðra stunda og farsældar um alla framtíð.

 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 180, 181, 182