Lesbók20.01.03 — Myglar

Ellert var loksins að yfirgefa skrifstofuna eftir allt of langan vinnudag. Hann tók lyftuna niður af fimmtu hæð og gekk annars hugar út á bílastæðið, sem var næstum tómt, enda þeir starfsmenn sem minni metnað höfðu löngu farnir heim. Þegar hann var nýkominn út tók hann eftir því að ekki var allt eins og það átti að sér. Hann leit upp og sá að við hliðina á bílnum hans stóð gráleitt flikki, svipað í laginu og símaklefi en þó töluvert stærra.

Ellert snarstansaði og glápti opinmynntur á símaklefann. Frá honum stafaði grænleitum glampa og það sem meira var, hann snerti alls ekki malbikið heldur sveif nokkrum sentimetrum ofan við það. Ellert hefði örugglega haldið áfram að horfa á símaklefann í dágóða stund ef ekki hefði heyrst brothljóð innan úr bílnum hans. Hann sá þá sér til skelfingar að búið var að brjóta rúðuna í framhurðinni bílstjóramegin, sem var opin. Við hlið bílsins stóð vera sem líktist helst feitlögnum sjimpansa, en var aukinheldur alsett barrnálum og hélt á hafnaboltakylfu.

"Gnabb," hrópaði veran. Síðan steytti hún kylfuna ógnandi að Ellerti og byrjaði að fikra sig í átt að símaklefanum.

Ellert var ekki einu sinni byrjaður að mynda sér skoðun á barrnálaapanum þegar ennþá undarlegri vera klöngraðist út úr bílnum hans. Þessi var gráleit og næstum gegnsæ, en með tvo fætur og nokkrar hendur. Í einni þeirra hafði hún kúbein og í annarri spánnýja bílaútvarpið hans, með innbyggða kassettutækinu.

"K'ter gnúba," sagði gegnsæja veran og braut framrúðu bílsins með kúbeininu, eins og til að sýna Ellerti að best væri fyrir hann að hafa sig hægan.

En Ellert ætlaði sko ekkert að hafa sig hægan. Það skipti engu máli hvaða fyrirbæri það voru sem höfðu brotist inn í bílinn hans, hann myndi ekki láta það viðgangast.

"Hvað gengur hér eiginlega á," sagði Ellert og þrátt fyrir að hann væri frávita af undrun og hræðslu steig hann eitt skref áfram og bætti við, "þetta er minn bíll og mitt útvarp. Ég er varla byrjaður á afborgununum, þið eigið ekkert með að koma hingað og ræna og skemma."

Síðan steig Ellert annað skref áfram og áður en hann vissi var hann farinn að hlaupa í átt að bílnum.

Barrnálaapinn leit á gráu veruna og sagði "Flogums!" Síðan henti hann frá sér hafnaboltakylfunni og hljóp í átt að símaklefanum. Gráa veran barði með kúbeininu í þakið á bílnum en lagði síðan líka á flótta. Báðar hlupu verurnar inn í símaklefann og skelltu á eftir sér. Ellert, sem var aðeins nokkrum skrefum á eftir, greip hafnaboltakylfuna, barði klefann utan með henni og öskraði, "þjófar! Ég skal hringja á lögregluna!" Skerandi ískur heyrðist frá símaklefanum, undan honum kom ægibjart ljós og Ellert hröklaðist frá og féll í jörðina.

Síðan þeyttist símaklefinn út í geiminn og var horfinn á örskotsstundu.

Ellert hringdi ekki á lögregluna, enda taldi hann að sér yrði ekki trúað og ólíklegt að atvik sem þetta myndi endurtaka sig. En tíu árum síðar sneru verurnar tvær aftur ásamt óvígum innrásarher hundruða bardagageimskipa og stálu glænýjum geislaspilara úr nýja Landcruiser-jeppanum hans.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182