Lesbók17.01.03 — Enter

Brá mér nýverið á myndina um vígin tvö 'the Two Towers'.

Ég fór vitanlega í Laugarásbíó, sem eitt kvikmyndahúsa borgarinnar heldur reisn sinni og sjarma. Húsið hefur karakter - ólíkt þeim sótthreinsuðu, andlausu nýaldarkömrum sem risið hafa undanfarin ár, svo dúðaðir og teppamettaðir að ógerningur væri að halda sér þar vakandi ef ekki væri fyrir ærandi hávaða og leysigeislapyntingar. En nóg um það.

Myndin sem hér um ræðir er sjálfstætt framhald prýðilegrar nýsjálenskrar myndar sem vakti mikla lukku fyrir ári síðan - þar á meðal mína. Þar var á ferðinni áferðarfögur hasarmynd sem skildi mig eftir í lausu lofti - fullan heimspekilegrar ígrundunar um afdrif persóna og þróun atburða.

Myndin gekk vel og því hafa fjármálaspekúlantar Heljarviðarborgar krafist framhalds. Eins og oft er um slíkar viðbætur treysta menn á sömu formúlu og er því boðið upp á nýjan skammt úr sömu grautarskál.

Við fylgjumst með persónum fyrri myndarinnar kljást við svipuð vandamál. Reynt er að hressa upp á götóttan söguþráðinn með því að klippa hann niður í margar sögur, eins og nú er tíska. Það gerir þó fátt annað en að rugla mann í rími og hefði jafnvel verið nær að skipta niður í fleiri en eina mynd - jafnvel þætti - og sýna í sjónvarpi.

Ég fylgdist af hálfum hug með unglingunum Fróða og Sóma böðlast áfram með einhvern skartgrip, sem þeim hyggjast veðsetja eða eitthvað í þeim dúr. Ég leiddi huga að því hve sorglegt er þegar leikarar festast í sömu rullunni sbr. hinn viðkunnanlega Sean Astin sem endurtekur hér enn og aftur hlutverk sitt úr 'the Goonies' - þó hann sé orðinn allt, allt of gamall til að leika smákrakka.

Öllu hressilegri var hamagangurinn kringum þá félaga Lególas og Gimla, sem á köflum minntu á einskyns Gög og Gokke okkar tíma. Þegar þúsundasti - og langljótasti ljóti kallinn féll var mér þó heldur farið að leiðast. Þó ekki viðlíka eins og yfir lýsingum á ást félaga þeirra Aragorns á tveimur frystikistum.

Hlut þeirra Káts og Pípíns, þar sem þeir vingast við ofvaxinn rabarbara þótti mér síðan hreinlega ofaukið.

Eitt vakti þó óskiptan áhuga minn og jafnframt óhug. Einn leikarinn, sá sem túlkar brjóstumkennanlegt óhræsið Gollum, fór hreinlega á kostum. Hér er klárlega á ferð réttborinn arftaki snillingsins Marty Feldman og man ég satt að segja ekki hvenær ég sá síðast leikara á hvíta tjaldinu sem gæddur er jafn sönnum og tærum leikhæfileikum.

Þeir sem höfðu gaman af fyrri myndinni ættu að geta skemmt sér ágætlega yfir þessari langloku - en ansi er ég hræddur um að grauturinn verði útþynntur ef þeir freistast til að gera fleiri myndir í þessum flokki.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, 4 ... 180, 181, 182